Október heilsar okkur með sínum fallegu haustlitum og eilítið köldum andvara. Veturinn að nálgast með sínu mjúka myrkri sem getur þó verið mörgum erfitt. Hvað er þá til ráða? Bænin er ein af mínum uppáhalds leiðum til að bægja frá mér dimmum hugsunum og tilfinningum.

Margt sem aflaga fer í mannlegum samskiptum er vegna þess að við reiknum með að náungi okkar sjái hvernig okkur líður. Að við berum utan á okkur hvert okkar hugarangur er. Þannig er það auðvitað ekki, ekkert okkar getur vitað með vissu um líðan annarrar manneskju, vissan er aðeins varðandi okkar eigin líðan. Flest erum við of dugleg við að fela tilfinningar okkar og erum hvorki hreinskilin við okkur sjálf né annað fólk.

Hvernig hefur þú það? Bara fínt takk! Hversu oft höfum við ekki heyrt þessa spurningu og þetta svar? Stundum hentar það okkur að svara á þennan hátt, en það væri hollara fyrir okkur að gangast við tilfinningum okkar og líðan.

Það felst ólýsanleg huggun í orðunum í Matteusarguðspjalli þar sem segir: Faðir yðar veit hvers þér þurfið áður en þið biðjið hans. Hversu dásamlegt það er að vita að algóður Guð þekkir okkur bæði að utan sem innan. Við þurfum ekkert að segja, bara vera. Hann veit og skilur. Verum því ekki feimin við að nota bænina, biðja á okkar hátt, á þann hátt sem hentar okkur. Látum því bænina vera hreyfiafl í lífi okkar, notum hana okkur til styrkingar og uppörvunar í daglegu lífi. Ég hef það fyrir sið að fara með Faðir vorið í huganum í heita pottinum í sundlauginni. Mér finnst gott af gera þetta þar, vegna þess að í hvert sinn sem ég veiti mér þennan lúxus, sem er reyndar dálítið oft, þá er ég svo yfir komin af þakklæti fyrir allt þetta dásamlega vatn sem Guð okkur gefur, hitann og hlýjuna sem Guð okkur gefur.

 

Það er ekki spurning hverju við trúum, heldur hverjum! Þegar Jesús Kristur talaði um trú var falið í orðum hans að við verðum að treysta. Hann biður okkur að fela okkur í bæn Drottins og treysta því að hann muni vel fyrir sjá. Það skulum við gera þetta haustið og ætíð.

 

Þórey Dögg Jónsdóttir djákni

Drottinn talaði við Móse og sagði:
„Ávarpaðu allan söfnuð Ísraelsmanna og segðu: Verið heilagir því að ég, Drottinn, Guð ykkar, er heilagur.
Þegar þið skerið upp kornið í landi ykkar skaltu hvorki hirða af ysta útjaðri akurs þíns né dreifarnar á akri þínum. Þú skalt hvorki tína allt í víngarði þínum né hirða ber sem falla í víngarði þínum. Þú skalt skilja þetta eftir handa hinum fátæka og aðkomumanninum. Ég er Drottinn, Guð ykkar.
Þú skalt ekki bera hatur í brjósti til bróður þíns heldur átelja hann einarðlega svo að þú berir ekki sekt hans vegna. Þú skalt ekki hefna þín á löndum þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.

Börnin mín! Þetta skrifa ég ykkur til þess að þið skulið ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum við málsvara hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. Hann er friðþæging fyrir syndir okkar og ekki einungis fyrir syndir okkar heldur líka fyrir syndir alls heimsins.
Þá vitum við að við þekkjum hann ef við höldum boðorð Guðs. Sá sem segir: „Ég þekki hann,“ og heldur ekki boðorð hans er lygari og sannleikurinn er ekki í honum. En hver sem varðveitir orð Guðs, hann elskar sannarlega Guð á fullkominn hátt. Þannig þekkjum við að við erum í honum. Þeim sem segist vera í honum ber sjálfum að breyta eins og Jesús Kristur breytti.

Og Jesús sagði við þá: „Ekki bera menn inn ljós og setja það undir mæliker eða bekk. Er það ekki sett á ljósastiku? Því að ekkert er hulið að það verði eigi gert opinbert né leynt að það komi ekki í ljós. Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!“
Enn sagði hann við þá: „Gætið að hvað þið heyrið. Með þeim mæli, sem þið mælið, mun ykkur mælt verða og við ykkur bætt. Því að þeim sem hefur mun gefið verða og frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða jafnvel það sem hann hefur.“