Við lesum í dag guðspjallið um sáðmanninn sem er saga sem mjög margir þekkja, dæmisagan um sáðmanninn er merkileg fyrir þær sakir að lærisveinarnir áttu erfitt með að skilja hvað Jesús átti við með sögunni og báðu hann að skýra hana út fyrir sig. Jesús útskýrði söguna fyrir þeim og líklega er þetta eina dæmisagan sem hann túlkar sjálfur: Fræið er orð Guðs sem ber ávöxt í hjörtum okkar mannfólksins. Það sem féll í götuna og fuglarnir átu merkir þá sem heyra Guðs orð en orðið nær ekki að bera ávöxt vegna þess að hinn vondi kemur og tekur það í burtu. Fræið sem féll á klöppina og skrælnaði merkir þá sem taka orðinu með gleði en hafa ekki næga rótfestu sem gerir það að verkum að þegar á móti blæs fýkur orðið í burtu. Fræið sem fellur innan um illgresi táknar þá sem heyra orðið, trúa fyrst, en síðan kæfa áhyggjur eða unaðssemdir lífsins trúna í hjörtum þeirra. Fræið sem fellur á góða jörð stendur fyrir þá sem heyra orð Guðs, geyma það í hjarta sér og rækta jafnframt trúna þá dafnar orðið hvorutveggja í þeirra lífi og annarra þar sem þeir segja örugglega líka hvor öðrum frá Jesú.

Þannig segja myndlíkingarnar í dæmisögunni um sáðmanninn bísna mikið um Guð sem vill svo gjarnan ná til allra og gerir það sem hann getur til þess og rétt eins og sáðmaðurinn dreifir hann fræi sínu sem víðast, líka þar sem litlar líkur eru til þess að það nái að rótfestast og vaxa.

Það getur líka verið að einhver taki frá okkur það sem við eigum eða dragi úr því, til dæmis með framkomu sinni, þannig að það nái ekki að vaxa. Það getur  verið erfitt að trúa á eitthvað sem við sjáum ekki og þess vegna er auðvelt að efast.

Fræ sem er sáð getur vaxið hratt upp, líka þegar jarðvegurinn er grýttur, en í grýttum jarðvegi er erfitt fyrir græðling að rótfestast og því er hættan sú að hann fjúki í burtu næst þegar á móti blæs. Og við verðum að nota það sem upp sprettur fljótlega, annars hverfur það..

Kannski er það eitt af stærstu viðfangsefnum okkar hversu mikið það er sem við getum valið úr í lífinu. Svo margar leiðir sem bjóðast okkur, við leitum stöðugt að nýjum upplifunum, helst einhverju sem er meira og stærra en það sem við gerðum síðast.. Þannig erum við stöðugt að taka taka upp eitthvað nýtt og láta það gamla renna okkur úr greipum.

Við höfum áhyggjur af mismunandi hlutum í lífinu, stundum er það eitthvað sem við höfum upplifað og erum hrædd um að muni gerast aftur sem veldur áhyggjum, og stundum höfum við áhyggjur af einhverju smávægilegu. Ég trúi því að Guð vilji að við séum opin og djörf og að við treystum honum fyrir okkur, leyfum honum að taka við því sem veldur okkur áhyggjum. Trúin á Jesú getur gefið okkur hugrekki til að fara út og mæta hverju því sem er að gerast í kringum okkur og takast á við það í trausti á Jesú Krist. Enda sagði Jesús okkur að hann hefði allt vald á himni og jörðu.

Sumir eru svo heppnir að fá að þekkja Jesú og finna fyrir því að Guð er alltaf nálægur og mikilvægur í lífinu, það er mikilvægt að hlúa að slíku.

Þeir sem stunda garðyrkju eða aðra jarðrækt vita hversu mikilvægur jarðvegurinn er fyrir það sem er gróðursett, hann þarf að uppfylla allskonar skilyrði fyrir mismunandi plöntur, rakastig, vökvun, hitastig, næringu. Sama er með hjarta okkar ef eitthvað á að fá að vaxa í því þarf það að vera vel undirbúið. Trúin sem vex í hjarta þínu verður þín trú rétt eins og sagan þín verður þín saga sem hefur jafnframt áhrif á líf annarra. Trúin okkar getur gefið von og styrk sem hvoru tveggja er ómetanlegt að hafa í lífinu og þar með getum við gefið af okkur til annarra á jákvæðan uppbyggjandi hátt í kærleika Guðs. Einfaldlega vegna þess að það er svo mikilvægt að viðhalda kærleika Kristsí heiminum. Einhver sagði að heimur án Jesú Krists myndi jafnvel fá hörðustu afneitara hans til að þrá áhrif hans á samfélagið. Ekki vegna þess að fólkið í kristna hluta heimsins sé í eðli sínu betra en annað fólk heldur vegna þess að áhrif Krists á lífið eru öll til góðs. Þannig er hvatningin að við leitumst eftir því að gera huga okkar og hjarta móttækileg fyrir orði Guðs svo að það nái að festa rætur í okkur og að við síðan náum að varðveita það þannig að það hafi jákvæð áhrif á líf okkar.

Guð breytist ekki, hann gleymir þér ekki vegna þess að hann hefur fengið eitthvað nýtt og skemmtilegt að gera. Guð skapaði þig í sinni mynd, fullkomna manneskju með öllum þínum kostunm og göllum og hefur elskað þig frá fyrstu tíð og mun alltaf vera með þér.

Sr. Fritz Már Jörgensson

Leitið Drottins meðan hann er að finna,
ákallið hann meðan hann er nálægur.
Hinn guðlausi láti af breytni sinni
og illmennið af vélráðum sínum
og snúi sér til Drottins svo að hann miskunni honum,
til Guðs vors því að hann fyrirgefur ríkulega.
Mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir
og yðar vegir ekki mínir vegir, segir Drottinn.
Eins og himinninn er hátt yfir jörðinni
eru mínir vegir hærri yðar vegum
og mínar hugsanir hærri yðar hugsunum.
Eins og regn og snjór fellur af himni
og hverfur ekki þangað aftur
fyrr en það hefur vökvað jörðina,
gert hana frjósama og gróandi,
gefið sáðkorn þeim sem sáir
og brauð þeim er eta,
eins er því farið með orð mitt sem kemur af munni mínum,
það hverfur ekki aftur til mín við svo búið
heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast
og framkvæmir það sem ég fel því.
Já, þér skuluð fara burt fagnandi
og örugg verðið þér leidd af stað.
Fjöll og hæðir ljósta upp fagnaðarópi frammi fyrir yður
og öll tré á sléttunni klappa saman lófum.
Í stað þyrnirunna skal kýprusviður vaxa
og myrtusviður í staðinn fyrir netlur.
Þetta verður Drottni til dýrðar,
ævarandi tákn sem aldrei skal afmáð.

Ég þekki kristinn mann. Fyrir fjórtán árum var hann hrifinn burt allt til þriðja himins. Hvort það var í líkamanum eða utan líkamans veit ég ekki. Guð veit það. Og mér er kunnugt um að þessi maður var hrifinn upp í Paradís og heyrði ósegjanleg orð sem engum manni er leyft að mæla. Hvort það var í líkamanum eða utan líkamans veit ég ekki. Guð veit það. Af slíku vil ég hrósa mér en af sjálfum mér vil ég ekki hrósa mér nema þá af veikleika mínum. Þótt ég vildi hrósa mér væri ég ekki frávita því að ég væri að segja sannleika. En ég veigra mér við því til þess að enginn skuli ætla mig meiri en hann sér mig eða heyrir.
Og til þess að ég skuli ekki ofmetnast af hinum miklu opinberunum er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig til þess að ég skuli ekki líta of stórt á mig. Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér. Og hann hefur svarað mér: „Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.

Nú var mikill fjöldi saman kominn og menn komu til Jesú úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt en skrælnaði af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði Jesús: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri.“
En lærisveinar hans spurðu Jesú hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.
En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.