Friður sé með ykkur öllum.

,,Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur fær ekki dulist.”
Hverri manneskju er ætlað að skína – sjálfráða og heilög stígum við fram til móts við lífið og ræktum með okkur hugrekkið til að vera berskjölduð, til að vera séð, til að vera borg sem á fjalli stendur og fær ekki dulist. Regnbogakrossinn er til marks um þetta – saman erum við í dag þúsundir ljósa.” Textinn hér að ofan var yfirskrift Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar sem tók þátt í gleðigöngunni á hinsegin dögum í Reykjavík. Það var yndislegt að dansa á eftir krossi skreittum bíl í hópi endalauss litrófs fallegra manneskja á yndislegum degi fjölbreytileikans, fólk af öllum stærðum og gerðum flykktist í bæinn og var þar í tugþúsundum til að fagna litrófi lífsins og sköpunarverki Guðs sem er án fordóma.

Í texta dagsins í dag sem er frásögnin um Faríseann og tollheimtumanninn er fjallað um það hvernig Farísei sem taldi sig sanntrúðaðan fyrirleit og dæmdi tollheimtumann en hann var fullur af hroka og eigin upphafningu en sá sem hann fyrirleit var auðmjúkur frammi fyrir Guði. Jesús sagði að hver sá sem upphefur sjálfan sig muni verða auðmýktur en að hver sá sem lítillækkar sjálfan sig muni upphafinn verða.

Í þessu samhengi finnst mér gott að skoða örstutt hver Jesús var hér í jarðlífinu, hvernig maður hann var. Hann var þessi sem var til staðar fyrir þá sem þurftu, hann var sá sem setti sig aldrei yfir eða undir aðrar manneskjur og umgekkst alla sem jafningja hvað svo sem samfélaginu þótti um það. Hann dæmdi engan en lyfti öllum upp, en hann var líka maður sem setti skýr mörk og stóð við þau. Ég efast ekki um það eitt augnablik að Jesús hefði verið fyrstur allra til að dansa í gleðigöngunni og þannig fagnað fjölbreytileika sköpunarverksins. Jesús var sá sem stóð alltaf upp fyrir þá sem voru til hliðar settir í samfélaginu, hann hafði trú á öllum manneskjum.

Sem manneskjur ættum við alltaf að leggja okkur fram um að sýna meðbræðrum okkar kærleikann sem Guð hefur gefið okkur. Sjáum hvert annað sem manneskjur sem eru skapaðar í Guðs mynd, öll fullkomin eins og við erum, vegna þess að við erum sköpuð af Guði og Guð gerir ekki mistök þegar hann skapar. Verum kærleiksrík í garð hvers annars og komum fram við náungann eins og við viljum að hann komi fram við okkur sjálf.

Drottinn blessi himininn sem vakir yfir okkur. Drottinn blessi jörðina sem við göngum á. Drottinn blessi fortíðina sem er að baki og framtíðina sem blasir við okkur. Amen.

Sr. Fritz Már Jörgensson

Hrokafull augu manna munu auðmýkt
og dramb þeirra lægt.
Drottinn einn mun upphafinn
á þeim degi.
Dagur Drottins herskaranna kemur
yfir allt dramblátt og hrokafullt,
yfir allt sem gnæfir hátt,
yfir öll sedrustré á Líbanon,
há og gnæfandi,
og allar Basanseikur,
yfir öll gnæfandi fjöll
og yfir allar háar hæðir,
yfir alla háreista turna,
yfir alla ókleifa borgarmúra,
yfir öll Tarsisskip,
yfir öll skip hlaðin glysi.
Þá verður hroki mannanna beygður
og dramb þeirra lægt.
Drottinn einn mun upphafinn á þeim degi.

En nú hefur Guð opinberað réttlæti sitt sem lögmálið og spámennirnir vitna um og byggist ekki á lögmáli. Það er: Réttlæti trúarinnar sem Guð gefur öllum þeim sem trúa á Jesú Krist. Hér er enginn greinarmunur: Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú. Guð bendir á blóð hans sem sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýnir hann réttlæti sitt. Hann hafði umborið þær syndir sem áður voru drýgðar til þess að birta réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann er sjálfur réttlátur og réttlætir þann sem trúir á Jesú.

Jesús sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því að sjálfir væru þeir réttlátir en fyrirlitu aðra: „Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.
Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir: Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu sem ég eignast.
En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Tollheimtumaðurinn fór heim til sín sáttur við Guð, hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“