Lendir þú stundum í því að týna einhverju? Hvort sem það eru bíllyklar, hleðslutæki fyrir síma, gleraugu eða hvaðeina annað, þá lendi ég oft að minnsta kosti sjálfur í því að spyrja mig; hvað gerði ég aftur við þennan hlut eða hvert lagði þetta frá mér. Stundum leggjum við mikið á okkur til að finna hlutinn sem við týndum. Sérstaklega þegar um er ræða hlut sem okkur þykir vænt um og hefur tilfinningalegt gildi fyrir okkur.

Eins og við þekkjum sagði Jesús gjarnan dæmisögur til að þess að útskýra fyrir samtímafólki sínu þann boðskap sem hann vildi miðla til þeirra. Honum tókst oft á einstakan hátt að setja upp dæmi sem folk gat tengt við og skildi. Það segir líka mikið að flestar af dæmisögum Jesú ná til okkar enn í dag, 2000 árum síðar í samfélagi og menningu sem er að svo mörgu leyti ólík því samfélgai sem Jesús ólst upp og starfaði í.

Guðspjall dagsins er gott dæmi um þetta og dregur Jesús fram tvö áhrifarík dæmi. Hann segir sögur af fólki sem týnir einhverju sem skiptir það miklu máli. Í fyrsta lagi heyrum við sögu sem við þekkjum flest vel, af manni sem átti 100 sauði og týnir einum þeirra og svo í öðru lagi sögu af konu sem á tíu drökmur en týnir einni, en drakma sem var grískur gjaldmiðill á tímum Jesú með svipað verðgildi og rómverskur denari sem er einnig nefndur í öðrum dæmisögum Jesú.

Bæði leituðu þess sem þau týndu og létu það ekki stöðva sig að þau ættu meira. Verðmætið var því óháð öðru og þó þau ættu nóg af öðrum kindum og drökmum, kom það ekki í staðinn fyrir það sem þau týndu.

Það sem er hvað athyglisverðast við þessar dæmisögur eru viðbrögð fólksins þegar þau finna hlutinn aftur sem þau týndu. Þau gleðjast mikið og segja öðru fólki frá því að þau hafi fundið hið týnda svo það geti samglaðst því. Dæmisögurnar segir Jesús til að útskýra hvernig Guð leitar okkar. Guð elskar okkur hvert og eitt og býður okkur að eiga samfélag við sig. Það erum svo við sem verðum að taka þá ákvörðun í hjartanu okkar hvort við viljum fylgja honum. Þetta dýrmæta vinasamband við hann sem okkur er boðið til ómetanlegt og getur reynst okkur traust haldreipi á göngu lífsins.

Öll eigum við það til að villast af leið. Trúargangan er þannig í eðli sínu. En það er svo gott að vita það að við eigum athvarf hjá Guði og hann tekur hverju okkar fagnandi þegar við snúum aftur til hans.

Guðspjallið vekur einnig upp spurningar til okkar sem kirkju, sem samfélag kristinna. Þegar við sjáum hvernig Guð leitar okkar og hvernig hann fagnar þeim sem koma til sín velti ég því fyrir mér hvort við getum ekki gert ennþá betur í því að kynna trúna fyrir fólki, bera út fagnaðarerindið og leggja meiri metnað í að ná til fólks. Þar er alltaf hægt að gera betur og finnst mér guðspjall dagsins vera hvatning til okkar að vera verkamenn Guðs og veita honum liðsinni í því að leita fólks. Þar getum við treyst því að Guð er með okkur og lætur verkin okkar bera ávöxt.

Sr. Pétur Ragnhildarson

Hver er slíkur Guð sem þú,
sem fyrirgefur misgjörðir
og sýknar af syndum
þá sem eftir eru af arfleifð þinni?
Reiði Guðs varir ekki að eilífu
því að hann hefur unun af að sýna mildi.
Og enn sýnir hann oss miskunnsemi,
hann fótumtreður sök vora.
Já, þú varpar öllum syndum vorum
í djúp hafsins.

En Guð er auðugur að miskunn. Svo mikil var elska hans til okkar að þótt við værum dauð vegna misgjörða okkar endurlífgaði hann okkur með Kristi – af náð eruð þið hólpin orðin – og reisti okkur upp með Kristi Jesú og bjó okkur stað hjá honum í himinhæðum. Þannig vildi hann sýna á komandi öldum ómælanlega auðlegð náðar sinnar og gæsku við okkur í Kristi Jesú, því að af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því. Við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka sem hann hefur áður fyrirbúið til þess að við skyldum leggja stund á þau.

Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.“

En Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim sem týndur er þar til hann finnur hann? Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér er hann finnur hann. Þegar hann kemur heim kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: Samgleðjist mér því að ég hef fundið sauðinn minn sem týndur var. Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum, en yfir níutíu og níu réttlátum sem þurfa þess ekki við.

Eða kona sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega uns hún finnur hana? Og er hún hefur fundið hana kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: Samgleðjist mér því að ég hef fundið drökmuna sem ég týndi. Þannig segi ég yður að englar Guðs munu gleðjast yfir einum syndara sem bætir ráð sitt.“