Jesú kom til okkar mannfólksins sem lítið barn og óx og þroskaðist þar til hann varð sá sem við þekkjum. Vinir hans áttuðu sig á því hver hann var, þeir fylgdu honum og vildu læra allt sem þeir gátu lært af honum. Það gerum við líka í dag, við komum saman í kirkjum til að heyra frásagnir af honum og til að vera með honum. Okkur finnst hann vera einstakur og við trúum því að hann sé sonur Guðs.

Í texta dagsins segir Jesús frá því að hann muni ferðast til Jerúsalem og að sú ferð muni verða honum mjög í óhag. Jesús vissi að þeim sem réðu í landinu fannst hann vera óþægilegur ljár í þúfu svo ekki sé meira sagt. Og þeir sem höfðu völdin voru líklega rétt eins og við upplifum oft í okkar samfélag uppteknir af því að græða peninga og tryggja valdastöðu sína í stað þess að lifa góðu lífi og hjálpa fólki, rétt eins og Jesú gerði og fór fram á að allir aðrir gerðu líka, þetta er eitthvað sem þau er réðu hafa líklega ekki kunnað við.

Þeim meira að segja líkaði boðskapur Jesú svo illa að þeir lögðu á ráðin með að lífláta hann. Hvernig í ósköpunum gat þetta fólk hugsað sér að gera honum svona illt, þessum einstaka, góða manni? Líklega hafa þeir ekki skilið góðmennsku hans eða hver hann var en þeim hefur líka fundist að þeir yrðu að refsa þeim sem ekki gerðu það sem þeir vildu.

En svo snerist allt á hvolf og það getum við skilið, við sem þekkjum píslarsögu Krists, við getum sett söguna í samhengi og áttað okkur á því hvað það var sem raunverulega gerðist. Það er svo sannarlega hægt að segja að píslarsagan er ekki falleg, það er ekki kræsilegt að átta sig á öllum píntingunum og kvölunum sem þeim fylgdu, öllum þessum hræðilega sársauka sem Jesú gekk í gegnum. En að sama skapi hljótum við að fagna því að hann reis upp og gaf okkur stórkostlega gjöf með kvölum sínum og dauða.

Það er líka hægt að tala um valdamun þegar við lesum þessa sögu, við vitum auðvitað að Jesú hefði getað stjórnað aðstæðum með hvaða hætti sem hann hefði viljað en það gerði hann ekki. Hann tók á sig allan sársaukann, hann gekk til dauðans á krossinum sem hann var dæmdur til, dauða sem valdamenn héldu myndi færa þeim sigur er myndi tryggja völd þeirra. En við vitum að þannig fór það ekki að lokum, það var fátæki smiðurinn frá Nazareth og vinir hans sem unnu sigurinn.

Núna eftir helgi er öskudagur, þá klæðir fólk sig í alls kyns búninga og leikur hlutverk sem það síðan klæðir sig bara úr.. Þannig var það ekki með Jesú og það sem hann gerði. Þegar hann að lokum sigraði hið illa, illar manneskur og það vonda sem þær gerðu, þá vann hann endanlegan sigur. Þeir minnstu verða stærstir sagði hann, og þeir stærstu verða minnstir. Þess vegna erum við kristin og þess vegna trúum við á Jesú. Við trúum að það góða sigri alltaf, jafnvel þó stundum bendi ekkert til þess að svo fari. Við trúum því að lífið sigri alltaf dauðann.Við trúum því að umbreytandi afl kærleikans geti fært okkur von og þar með sigur í öllum kringumstæðum.  En aðalatriðið er það að þegar upp er staðið valdi Jesú það sjálfur að deyja á krossinum, hann tók um það ákvörðun að gefa líf sitt til þess að við fólkið hans fengjum frelsi frá syndum okkar og myndum öðlast eilíft líf.

 

Séra Fritz Már Jörgensson

 

Drottinn Guð hefur gefið mér lærisveinatungu
svo að ég lærði að styrkja hinn þreytta með orðum.
Á hverjum morgni vekur hann eyra mitt
svo að ég hlusti eins og lærisveinn.
Drottinn Guð opnaði eyra mitt
og ég streittist ekki á móti,
færðist ekki undan.
Ég bauð bak mitt þeim sem börðu mig
og vanga mína þeim sem reyttu skegg mitt,
huldi ekki andlit mitt fyrir háðung og hrákum.
En Drottinn Guð hjálpar mér,
þess vegna verð ég ekki niðurlægður.
Því gerði ég andlit mitt hart sem tinnu
og veit að ég verð ekki til skammar.
Nærri er sá er sýknar mig,
hver getur deilt við mig?
Við skulum báðir ganga fram.
Hver ákærir mig?
Komi hann til mín.
Drottinn, Guð minn, hjálpar mér,
hver getur sakfellt mig?
Sjá, þeir detta allir sundur eins og klæði,
mölur étur þá upp.
Hver er sá yðar á meðal sem óttast Drottin
og hlýðir á boðskap þjóns hans?
Sá sem gengur í myrkri
og enga skímu sér,
hann treysti á nafn Drottins
og reiði sig á Guð sinn.
En þér, sem kveikið eld
og vopnist logandi örvum,
gangið sjálfir inn í eigið bál
og eldinn sem þér kveiktuð með örvunum.
Úr minni hendi kemur þetta yfir yður,
þér munuð liggja í kvölum.

Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. Ritað er:
Ég mun eyða speki spekinganna
og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera.

Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður, orðkappi þessa heims? Er ekki það sem heimurinn telur speki heimska í augum Guðs?
Enda þótt speki Guðs sé í heiminum gátu mennirnir ekki þekkt Guð með sinni speki. Þess vegna ákvað Guð að boða það sem er heimska í augum manna og frelsa þá sem trúa. Gyðingar heimta tákn og Grikkir leita að speki en við prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku en okkur sem Guð hefur kallað, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs. Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.

Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“
En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.