Hugleiðing á aðventu.

Í Matteusar guðspjalli segir: „Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“

Við erum að tala um náungakærleikann og hvað það er gott að reyna að vinna eins og Kristur kenndi okkur, í kærleik. Þegar maður les í nýja-testamenntinu þá er allveg ótrúlegt að sjá hversu framsýnn og víðsínn Jesús var, allsstaðar sem hann kom var hann fljótur að sjá út hvað var að og hvar neyðin var mest. Hann gagnrýndi samfélagsgerð þess tíma sem hann var á meðal okkar mannanna og benti okkur á hvað mætti betur fara. Það góða við hans ábendingar og boðskap var að fólk tók eftir því og fór að tileinka sér hans hugmyndir um lífið og tilveruna… þess vegna varð hann hættulegur þeirri samfélagsgerð sem hann bjó við, hann var ögrun fyrir yfirvaldið og talsmaður lítilmagnans. Hann varpaði þeirri sýn til fólksins að kannski væri hægt að breyta því samfélagi sem það bjó við, að það var hægt að lifa í samfélagi sem byggt var upp af kærleika og hjálpsemi.

Það er einmitt þessi sýn hans á heiminn sem við viljum starfa eftir og búa í, heimi þar sem kærleikur, samhyggð og samvinna eru í hávegum höfð.

Jesús var nefnilega svolítið góður gæji, hann er besti þjálfari sem ég gæti hugsað mér. Og hvað meina ég með þjálfari og í hverju er hann að þjálfa okkur? Ég er ekki að fara að keppa í sundi á olimpíuleikunum… en Hann er að þjálfa okkur í að vinna í kærleika. Einhver gæti sagt, hefur hann einhvern einkarétt á kærleikanum? Þykist þið kristna fólkið eiga kærleikann. Þannig er það nú ekki, við eigum öll kærleikann en það er sennilega hvergi annarsstaðar en í Biblíunni og þá sérlega nýjatestamenntinu, eins mikið fjallað um að iðka kærleikann. Og til þess að vera góð í einhverju þarf maður að æfa sig. Eins og manni líður vel eftir góða æfingu í ræktinni þá gefur það manni ótrúlega mikla og góða tilfinningu að fá að hjálpa til og koma fram við fólk af kærleika, það gefur þúsundfalt til baka.

Ég gekk í kvenfélag á sínum tíma til þess að láta gott af mér leiða, mig langaði að leggja mitt á vogarskálarnar til samfélagsins okkar. Og fann farveg þar. Margir hafa spurt mig, afhverju kvenfélag, eru þau ekki bara óþörf, barn síns tíma og gamaldags. Mitt svar er nei… þau eru alls ekki óþörf, þau eru einmitt mjög þörf í okkar samfélagi. Það eru glufur í okkar samfélagsgerð, glufur sem ríkið getur ekki dekkað, fólk á ekki í sig og á og þarf hjálp hverjar sem ástæðurnar eru, það geta verið sjúkdómar, áföll, atvinnumissir og þar fram eftir götunum. Þarna koma frjáls félagsamtök inn eins og kvenfélögin, Oddfellow samtökin, frímúrar, Kíwanis, Lions. SÁÁ, Hjálparstarf kirkjunnar, slysavarnafélögin, Rauðikrossinn og svona mætti lengi telja. Öll þessi samtök eru að vinna í kærleika, þau vinna í anda Krists og huga að okkar minnstu bræðrum og systrum. Nú þegar aðventan er hálfnuð og jólin að nálgast þá skulum við sem höfum það gott, þakka fyrir þær gjafir sem okkur hafa verið gefnar og munum eftir þeim sem minna mega sín, tökum Jesú okkur til fyrirmyndar og hugsum, hvað ætla ég að gera fyrir þau þessi jól? Ég enda þetta á kvæði frá Gísla á Uppsölum.

Jólin færa frið til manns,
fegurð næra hjarta.
Ljósið kæra lausnarans
ljómar skæra, bjarta.

Hólmfríður Ólafsdóttir, djákni.

Stíg upp á hátt fjall, Síon, fagnaðarboði.
Hef upp raust þína kröftuglega, Jerúsalem, fagnaðarboði.
Hef upp raustina og óttast eigi,
seg borgunum í Júda:
Sjá, Guð yðar kemur í mætti
og ríkir með máttugum armi.
Sjá, sigurlaun hans eru með honum
og fengur hans fer fyrir honum.
Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga,
taka unglömbin í faðm sér
og bera þau í fangi sínu
en leiða mæðurnar.

Nú getum við enn betur treyst orði spámannanna. Það er rétt af ykkur að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar. Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus, bróðir hans, í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene, í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni. Og hann fór um alla Jórdanbyggð og boðaði mönnum að taka sinnaskiptum og láta skírast til fyrirgefningar synda, eins og ritað er í bók Jesaja spámanns:
Rödd hrópanda í eyðimörk:
Greiðið veg Drottins,
gerið beinar brautir hans.
Öll gil skulu fyllast,
öll fell og hálsar jafnast,
bugður verða beinar
og óvegir sléttar götur.
Og allir munu sjá hjálpræði Guðs.
Við mannfjöldann, sem fór út til að láta hann skíra sig, sagði hann: „Þið nöðrukyn, hver kenndi ykkur að flýja komandi reiði? Sýnið í verki að þið hafið tekið sinnaskiptum og farið ekki að segja með sjálfum ykkur: Við eigum Abraham að föður. Ég segi ykkur að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum. Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað.“
Mannfjöldinn spurði hann: „Hvað eigum við þá að gera?“
En hann svaraði þeim: „Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur.“
Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: „Meistari, hvað eigum við að gera?“
En hann sagði við þá: „Heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt.“
Hermenn spurðu hann einnig: „En hvað eigum við að gera?“
Hann sagði við þá: „Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið ykkur nægja mála ykkar.“
Allir voru nú fullir eftirvæntingar og hugsuðu með sjálfum sér hvort Jóhannes kynni að vera Kristur. En Jóhannes svaraði öllum og sagði: „Ég skíri ykkur með vatni en sá kemur sem mér er máttugri og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra ykkur með heilögum anda og eldi. Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gerhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi.“
Með mörgu öðru hvatti hann fólk og flutti því fagnaðarboðin.