Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, og sat að borði. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum. En þar voru nokkrir er gramdist þetta og þeir sögðu sín á milli: „Til hvers er þessi sóun á smyrslum? Mark 14:3-4

Einn af textunum Pálmasunnudagsins fjallar um þegar Jesús var í húsi Símonar líkþráa. Hann er þarna staddur í húsi manns sem var með alvarlegan sjúkdóm sem allir forðuðust. Það segir okkur heilmikið um hvernig Jesús var. Það eru svo marga frásögur sem fjalla um hvernig Jesús fór gegn hefðum og normum í þjóðfélagi þess tíma. Það er áhugavert að sjá hvernig hann tók að sér þá sem voru útskúfaðir. Konan sem er að hella olíu yfir höfuð hans er líklega að þakka honum fyrir eitthvað sem hún hefur þegið úr hendi hans. Hugsanlega lækningu eða aðra blessun sem er ekki nefnd í textanum.

Þegar ég last texta sunnudagsins kom mér í hug sagan af Sakkeusi. Hann var jú tollheimtumaður sem rukkaði inn skatta fyrir rómverska keisarann. Þeir voru ekki vinsælir því þeir rukkuð oft meira en þeim bar. Stálu af fólkinu. Sakkeus var útskúfaður og læddist með veggjum. Var ekki vinsæll. Fólk fyrirleit hann.

Þegar Sakkeus frétti að Jesús væri að koma vildi hann hitta hann. Það var mikill mannfjöldi í kringum Jesús og hann var lágvaxinn. Hann ákveður að klifra upp í Mórberjatré til að fylgjast með Jesú álengdar. „Ætli Jesú vilji nokkuð tala við mig“. Hann var vanur útskúfun og einelti. Það hafa líklega margar hugsanir farið í gegnum huga hans þar sem hann sat upp í trénu. Jesús stoppaði þegar hann kom að trénu og sá Sakkeus. Það hafa allir verið  hissa á því að Jesús skildi sýna honum áhuga. Hvað var að gerast.  Hann kallaði  á Sakkeus.

„Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“

Sakkeus klifraði niður úr trénu hissa. Nú fengi hann að heyra það.

Nei það var eitthvað annað. Á sinn ljúfa og kærleiksríka hátt gekk Jesús með honum heim til hans. Þessi dagur markaði nýtt upphaf hjá Sakkeusi. Eftir þessa heimsókn var hann breyttur maður. Hann skilaði því sem hann hafði stolið og gaf fátækum gjafir. Nýr og breyttur maður.

Það er svo gott að vita að við erum öll jöfn fyrir Guði. Hann flokkar okkur ekki eins og okkur er svo tamt að gera við aðra. Nú þegar páskahátíðin fer í hönd er gott að dvelja við fætur Jesú. Minnast þess að hann elskar okkur eins og við erum. Hann segir við mig og þig.

Komdu, í dag ber mér að vera í húsi þínu. Ég vil fyrirgefa og mæta þér á þeim stað sem þú ert.

Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki. Ég hef rist þig í lófa mér, múra þína hef ég sífellt fyrir augum.
Jes 49:15

Guð gefi þér gleðilega páska
Sr. Sveinn Alfreðsson

Lofsyngið himnar, fagna þú jörð, þér fjöll, hefjið gleðisöng því að Drottinn hughreystir þjóð sína og sýnir miskunn sínum þjáðu. En Síon segir: „Drottinn hefur yfirgefið mig, Guð hefur gleymt mér.“ Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki. Ég hef rist þig í lófa mér, múra þína hef ég sífellt fyrir augum.

En Guði séu þakkir sem fer með mig í óslitinni sigurför Krists og lætur mig alls staðar breiða út þekkinguna um sig eins og þekkan ilm. Því að Guði til dýrðar er ég ilmur sem flyt Krist bæði til þeirra sem frelsast og til þeirra sem glatast. Þeim sem glatast er ég banvænn daunn til dauða, hinum lífgandi ilmur til lífs. Og hver er til þessa hæfur? Ekki er ég eins og hinir mörgu er pranga með Guðs orð heldur flyt ég það af hreinum huga frá Guði frammi fyrir augliti Guðs með því að ég er í samfélagi við Krist.

Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, og sat að borði. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum. En þar voru nokkrir er gramdist þetta og þeir sögðu sín á milli: „Til hvers er þessi sóun á smyrslum? Þessi smyrsl hefði mátt selja fyrir meira en þrjú hundruð denara og gefa fátækum.“ Og þeir atyrtu hana. En Jesús sagði: „Látið hana í friði! Hvað eruð þið að angra hana? Gott verk gerði hún mér. Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur og getið gert þeim gott nær þið viljið en mig hafið þið ekki ávallt. Hún gerði það sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrir fram smurt líkama minn til greftrunar. Sannlega segi ég ykkur: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess sem hún gerði og hennar minnst.“