Þrjú orð

Gyðingur sagði að lýsa mætti sögu þjóðar sinnar í þremur setningum:  Við vorum ofsótt – Við þraukuðum – Við skulum setjast niður og borða.  Auðvitað var þetta í gríni sagt en samt er nokkuð til í þessu.  Elsta heimild innan fornleifafræðinnar um Ísrael er 3500 ára gömul egypsk súla þar sem faraó er að tíunda afrek sín og sigra.  Þar stendur:  “Ég sigraði Ísrael og eyddi sonum þess.”  Antisemitismi er klappaður í stein frá öndverðu.

En hvernig mætti lýsa sögu kristninnar í þremur setningum?  Gæti það verið á þessa leið:  Við sigruðum – Við urðum spillt – Við misstum áhugann?  Þegar kristni barst til Íslands fyrir þúsund árum síðan þá var hún hin sigrandi trú.  Hvíti Kristur var sagður máttugri en Óðinn og Þór.  Kristni var þá að leggja undir sig hinn norræna heim.  Og Ufsa-Kristur í Svarfaðardal er trélíkneski af krossfestum Kristi með kórónu.  Síðan líða nokkrar aldir með aflátssölu, styrjöldum og galdrabrennum.  Í gotneskri list síðmiðalda er Kristur gjarnan sýndur með þyrnikórónu á krossinum, líkt og synd og spilling heimsins hafi lagst á mannkynsfrelsarann.  En hvernig er kross nútímans?  Hann er auður.  Stór kross hangir um hálsinn á fallegri stúlku innan um annað skraut.  Mótorhjólamaðurinn er með stóran kross dinglandi framan á svörtum bolnum.  Um allan hinn vestræna heim standa kirkjur auðar og fólki fækkar, sem þangað sækir, – dapurlegt en satt.

Það hlaut að koma að því að kirkjur landsins skelltu í lás.  Og það gerðist um miðjan mars.  Samkomubann!  Skrifað var:  Þér er bannað að messa og þú mátt ekki taka neinn til altaris!  Hvern hefði órað fyrir því að biskup Íslands ætti eftir að senda prestum sínum slíkan boðskap?  Fordæmalaust!  Og kannski það, sem gömlum presti fannst dapurlegast, enginn virtist sakna messunnar, enginn hringdi og spurði hvenær yrði messað næst, enginn skrifaði á netið eða í athugasemdadálkana að hann saknaði sunnudagsmessunnar.  Það var föstutíð á Íslandi.  Fólk neitaði sér um mannlega nánd, samkomur og ferðalög.

Sáluhjálp fermingarbarna

Í síðastliðinni viku hófst fermingarfræðslan.  Gamli presturinn opnaði dyr safnaðarheimilisins og velti því fyrir sér hvort einhver kæmi.  Og viti menn, unglingarnir komu einn af öðrum.  Og fyrsta spurningin var:  Hvenær ætlar þú að messa aftur?  Ein stúlka sagði að hún þyrfti að mæta í fleiri messur því hún vær ekki enn tilbúin að fermast.

Um kvöldið hitti presturinn foreldrana til að ákveða nýja fermingardaga.  Alls kyns hugmyndir komu fram um dagsetningar og tímasetningar.  Gamli presturinn varð alveg ruglaður af því að skrifa þetta niður á minnismiðana.  Svona til að segja eitthvað þá stundi hann upp hvað það væri nú ánægjulegt að öll börnin ætluðu að fermast.  Þá sagði eitt foreldranna:  “Við buðum nú stráknum okkar hvort hann vildi ekki hætta við að fermast og fá bara peningana.  En hann vildi það ekki, sagðist vera búinn að leggja það á sig að fara í fermingarfræðslutíma í heilan vetur og mæta í slatta af messum og hann ætti það inni að fá alvöru fermingu.”  Fleiri foreldrar sögðu sömu sögu.

Fermingarbörnin eru gömlum presti sáluhjálp.  Með yndisleik sínum og hispursleysi vekja þau honum trú á framtíðina.  Sannarlega er framtíðin björt.  Stundum nemur gamall maður það sem ungur honum temur!

Páskar, loksins

Að vera kristinn er það að trúa á Krist, biðja til hans, syngja um hann lofsöngva og velta fyrir sér boðskap hans.  Auðvitað er hægt að gera þetta allt heima hjá sér, – jafnvel fyrir framan tölvuna.  En hvergi er samt betra að upplifa Krist en í kirkjunni eða úti í náttúrunni, úti á meðal fólks.  Þess vegna hefur það einkennt samfélag kristins fólks að það hefur komið saman á sunnudagsmorgnum til að lofsyngja Guð.

Einmitt núna í dag, þann 17. maí opna margar kirkjur landsins dyr sínar og bjóða fólki til helgihalds.  Og eru þá páskarnir ekki loksins komnir þegar við komum saman til að syngja og biðja í kirkjunni?  Það held ég.

Páskar eru að kristnum skilningi tímabilið frá páskadegi til hvítasunnudags.  Það er tíminn þegar Kristur upprisinn birtist lærisveinum sínum.  Þá er hvíti liturinn allsráðandi í kirkjum landsins.  En hvítt er litur Krists, gleðinnar og friðarins og lífsins eilífa.

Á miðnætti í kvöld opna sundlaugarnar í Reykjavík.  Þá getur fólk loksins stungið sér til sunds, díft sér niður í vatnið líkt og Jesús hvarf ofan í Jórdans öldu.  Að loknum sundspretti sest það svo ofan í heita pottinn og horfir upp í stjörnur næturhiminsins og hugsar um hvað Guð er góður eða eitthvað annað.

Í nótt verð ég í paradís.  Í nótt verð ég í heita pottinum.  Í nótt sofna ég vært með höfuðuð á koddanum.

Gleðilegt sumar.  Gleðilega páska.  Nú rís heimurinn upp og mannlífið blómstrar og dafnar.  Amen.

Séra Magnús Erlingsson, prestur á Ísafirði.

Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður. Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig, segir Drottinn.

Fyrst af öllu hvet ég til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla menn. Biðjið fyrir konungum og öllum þeim sem hátt eru settir til þess að við fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt Guði, frelsara vorum, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.

Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús sem gaf sjálfan sig til lausnargjalds fyrir alla.

Jesús sagði:] Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur að ég tala ekki framar við yður í líkingum heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum. Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki að ég muni biðja föðurinn fyrir yður því sjálfur elskar faðirinn yður þar eð þér hafið elskað mig og trúað að ég sé frá Guði kominn. Ég er kominn í heiminn frá föðurnum. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins.“
Lærisveinar hans sögðu: „Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. Nú vitum við að þú veist allt og þarft eigi að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum við að þú sért frá Guði kominn.“