Hún átti margar minningar frá sínum bernskuárum. Minningar sem vöktu með henni hlýju og vellíðan þar sem bernskan hennar hafði verið góð og hún hafði fengið ástríkt uppeldi og notið umhyggju foreldra sinna. Auðvitað mundi hún tíma sem henni höfðu fundist erfiðir eða einhverjar uppákomur höfðu gert vart við sig sem höfðu reynt á hana og valdið henni áhyggjum eða kvíða. Hún gat farið í gegnum minningar sínar og rakið þær hverja á fætur annarri. Ein minning kom þó oftar til hennar en aðrar.

Sú minning tengdist veru hennar í stórborg þar sem hún var stödd með fjölskyldu sinni. Hún mundi eftir sér sem litlum telpuhnokka í aragrúa mannlífs þar sem hún hélt í styrka hönd sem leiddi hana innan um allt fólkið. Hún var hugfangin af því sem hún sá, skimaði í allar áttir og fylgdist með. Þetta var allt svo nýtt og skilningarvitin numu hljóðin í umhverfinu, raddir fólksins, mannlífið, bílaumferðina, almenningsgarðana og hvaðeina sem vakti athygli lítillar stúlku.

Hún fór inn í eiginn heim og skyndilega gleymdi hún sér í upplifun sinni. Hún var svo frá sér numin af því sem hún sá og heyrði að ósjálfrátt sleppti hún tökum af hendinni öruggu sem hafði leitt  hana um götur og gangstéttir stórborgarinnar. Allt í einu var hún ein innan um hóp af ókunnu fólki í framandi umhverfi sem vakti á einu augabragði með henni ótta og kvíða. Hún varð skelfingu lostin, leit í kringum sig en hvergi var foreldrið hennar með styrku höndina að sjá. Hún var að því komin að hugfallast, kökkur var farinn að myndast í hálsinum og hún var farin að kjökra. Hún var dauðhrædd, hvað átti hún nú að gera?

En allt í einu fann hún hendina styrku að nýju sem lyfti henni upp og tók hana í opinn, útréttan faðm. Óttinn hvarf eins og dögg fyrir sólu og hún leit upp og mætti hlýjunni og umhyggjunni sem hún þekkti svo vel. Og hendin góða hélt henni þétt og öruggt þannig að hún gat aftur á ný notið alls þess dýrmæta sem lífið hafði upp á að bjóða.

Þessi litla saga úr daglegu lífi minnir mig á kærleiksboðskap kristinnar trúar og tvöfalda kærleiksboðorðið sem við höfum fengið til íhugunar á þessum sunnudegi.

Ég sé fyrir mér samfylgdina með Jesú með svipuðum hætti og stúlkan litla upplifði samfylgd með foreldri sínu og styrku höndina sem gaf henni það sem hún þarfnaðist. Kærleikur Jesú er eitthvað sem beinist að okkur hverju og einu persónulega og við megum eiga Jesú að á lífsleið okkar, á hverri stundu hverfullar ævi. Hann er með þegar vel gengur og hamingjan brosir við okkur en eins er hann nærri þegar erfiðleikarnir gera vart við sig og við erum að reyna þjáningu og myrkur í lífi okkar.

Umhyggja sú sem streymir frá Jesú til okkar er dýrmæt gjöf og um leið og við þiggjum þá gjöf erum við hvött til að bera þá umhyggju áfram til samferðafólks okkar. Í öllu því sem við erum og gerum. Í okkar daglega lífi, í samskiptum okkar hvert við annað og með því að stuðla að framgangi alls þess sem er uppbyggilegt og gott og þannig hafa áhrif á samfélag okkar, þau sem við umgöngumst, okkar nánasta umhverfi og heiminn allan. Megi algóður Guð gefa okkur til þess náð sína.

Sr. Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, sjúkrahúsprestur þjóðkirkjunnar

Sálmur 52

Ég tigna kærleiks kraftinn hljóða,
Kristur, sem birtist oss í þér.
Þú hefur föður hjartað góða,
himnanna ríki, opnað mér.
Ég tilbið undur elsku þinnar,
upphaf og takmark veru minnar.

Mitt líf í helgum huga þínum
hefur þú líknarstöfum skráð,
og allt, sem býr í barmi mínum,
bera skal vitni þinni náð,
svo aftur lýsi elskan bjarta,
endurskin þitt, frá lind míns hjarta.

Ég dýrka helga hátign þína,
himneski vinur, Drottinn minn.
Lát trú og verk og vitund mína
vegsama kærleiks máttinn þinn
og mig um alla eilífð bera
anda þíns mót og hjá þér vera.

Tersteegen – Sigurbjörn Einarsson 

Drottinn mælti öll þessi orð:
„Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín.
Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma.
Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.
Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.
Þú skalt ekki morð fremja.
Þú skalt ekki drýgja hór.
Þú skalt ekki stela.
Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Ávallt þakka ég Guði mínum fyrir ykkur, hann hefur veitt ykkur náð sína í Kristi Jesú. Hann hefur auðgað ykkur á allan hátt svo að þið búið yfir allri mælsku og allri þekkingu. Vitnisburðurinn um Krist er líka staðfestur orðinn á meðal ykkar svo að ykkur brestur ekki neina náðargjöf meðan þið væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists. Hann mun einnig styrkja ykkur allt til enda og gera ykkur óaðfinnanleg á degi Drottins vors Jesú Krists. Trúr er Guð sem hefur kallað ykkur til samfélags við son sinn Jesú Krist, Drottin vorn.

Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“

Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“

Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“

Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“

Og enginn þorði framar að spyrja hann.