Á allra heilgara messu minnumst við sérstaklega þeirra sem farin eru á undan okkur heim til Guðs. Ég á yndislegar minningar úr barnæsku tengdar móðurömmu minni og afa. Minningar um þá tíma þegar ég fékk að gista hjá þeim um helgar. Ég man þegar amma kom inn til mín fyrir svefninn með þykka sneið af franskbrauði og stórt glas af ískaldri mjólk. – Fyrst eitthvað fyrir magann Lilla mín, sagði amma og svo færðu næringu fyrir sálina, því að eftir brauðið þá kenndi amma mér bænir. Ég verð nú alveg að viðurkenna að brauðið var nú oft betra en allar þessar bænir. Það er þó löngu farið sína leið en bænirnar sitja enn og seðja vel.

Amma og afi reyktu bæði líkt og enginn væri morgundagurinn. Reykur af Chesterfield og Chamel liðu um loftið og inn í húsgögn, föt og lungu, bæði mín og þeirra. Þau náðu líka Kanasjónvarpinu og það voru ófá skiptin sem ég stóð bak við hurð í svefnherbergi ömmu og afa og horfði á hryllingsmyndir í gegnum rifuna milli stafns og hurðar. Myndir sem ollu mörgum martröðum hjá mér langt fram eftir aldri. En ég lærði líka enska stafrófið löngu á undan því íslenska og kunni að segja þeinkjú, verí gúd koffí og  æ lof jú.

Í stofunni heima hjá ömmu og afa hékk klukka sem þau fengu í brúðkaupsgjöf frá föðursystur afa. Klukka sem hóf sitt líf fyrir þarsíðustu aldamót og gekk þarna ennþá eins og hún ætti eilíft líf. Í augum mínum var þessi klukka ægistór, Útskorinn viður og gler tengd saman af gylltum málmi í fallegt mynstur. Það varð að opna hana og trekkja með reglulegu millibili og enginn gerði það nema afi. Klukkan minnti á tímann á hálf tíma fresti. Eitt högg á hálfa tímanum og fleiri á þeim heila. Þessi klukka kallast enn á við tímann vegna þess að nú hangir hún á vegg inni í stofunni heima hjá mér. Hún tengir saman liðna tímann og nútímann. Öll þau sem ég elska, lifandi og dáin.

Þegar ég þarfnast þess að finna fyrir nálægð ömmu og afa, minnast kærleika þeirra og hlýju, tiltrú og uppörvunar, þá opna ég klukkuna og anda að mér lykt hennar. Ég stelst til að stinga andlitinu inn í hana, loka augunum og finn lykt liðinna tíma koma á móti mér. Reyndar er lyktin mest Camel og Chesterfield en í hjarta mínu er þetta þó fyrst og fremst ömmu og afa lykt. Þá fæ ég að verða aftur barn í nokkur andartök og nýt þess að hverfa aftur til þess tíma þegar það var allt í lagi þó svo að maður fyllti magann af franskbrauði fyrir svefninn, andaði að sér sígarettureyk og horfði á Kanasjónvarpið út í eitt.

Þú átt líka einhver notaleg minningarbrot í huga þínum og hjarta. Dragðu þau núna fram og njóttu þess að finna ilm, bragð, orð og áhrif snerta þig og leyfðu þér að muna, þakka og elska. Guð blessi þig.

Séra Guðný Hallgrímsdóttir

 

Lofgjörðarlag vikunnar að þessu sinni er lagið The Proof of you love með hljómsveitinni For king & country. Allveg sama hvað ég segi, trúi eða geri þá er ég innistæðulaus ( bankrupt) ef ég á ekki til kærleika
https://www.youtube.com/watch?v=b-2dKOfbC9c&fbclid=IwAR2RHmMrvEmFynqpxupIMM0etbYinjxt-DsW_ehC7sMfCN8C7fA

Sólin verður ekki framar ljós þitt um daga
og tunglið ekki birta þín um nætur
heldur verður Drottinn þér eilíft ljós
og Guð þinn verður þér dýrðarljómi.
Sól þín gengur aldrei til viðar
og tungl þitt minnkar ekki framar
því að Drottinn verður þér eilíft ljós
og sorgardagar þínir á enda.
Allir þegnar þínir eru réttlátir,
þeir munu ævinlega eiga landið.
Þeir eru garður Drottins sem ég hef gróðursett,
handaverk hans
sem birtir dýrð hans.

Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum, stóð frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddur hvítum skikkjum og hafði pálmagreinar í höndum. Og hann hrópaði hárri röddu:
Hjálpræðið kemur frá Guði vorum,
sem í hásætinu situr, og lambinu.
Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð og sögðu:
Amen! Lofgjörðin og dýrðin,
viskan og þakkargjörðin,
heiðurinn og mátturinn og krafturinn
sé Guði vorum um aldir alda. Amen.

Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki.
Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.