„Vilt þú leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins?“ .  Þessa spurningu fá þúsundir ungmenna á hverju ári.  Nú standa fermingar yfir víða og mörg „já“ sem við prestarnir heyrum.  En hvað felst í þessari spurningu og hvað felst í svarinu?  Hverju er fermingarbarnið að játa?  Er það að gefa eitthvert loforð um fullkomna og lýtalausa hegðun?  Nei, síður en svo.  Ég segi oft við fermingarbörnin mín að það að gera Jesú að leiðtoga í sínu lífi merki að vanda sig við það að vera heiðarleg og vönduð manneskja og leyfa boðskap Jesú að vera virkum í okkar lífi.

Við þurfum ekki að skilja allt eða vita allt sem viðkemur kristinni trú til að geta játað Jesú sem leiðtoga lífsins.  En það er gott að treysta og trúa því að Jesús sé sá sem hann segist vera.  Fermingin er á vissan hátt lokahnykkur á skírnarferli.  Flest vorum við skírð sem ungabörn.  Það var ákvörðun foreldra okkar.  En með fermingu er stundum talað um að við séum að staðfesta skírnarheitið.  Þar er á ferðinni upplýst ákvörðun þar sem við sjálf lýsum því yfir að við viljum hafa Jesú sem leiðtoga í okkar lífi.  En hvernig gerum við það?

M.a. með því að hlusta á boðskap hans.  Við þekkjum Gullnu regluna: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera“.  Á einfölduðu máli þá eigum við að koma fram við náungan eins og við viljum að náunginn komi fram við okkur.  Eitt af því sem er svo mikilvægt í þessari fallegu reglu er frumkvæðið.  Við eigum ekki að bíða eftir frumkvæði annarra og koma fram við aðra eins og aðrir koma fram við okkur.  Við eigum að koma fram eins og við VILJUM að aðrir komi fram við okkur.  Á þessu er talsverður munur.  Það er ekkert að ástæðulausu að þessi regla er kölluð hin gullna regla.  Í henni felst að stíga fyrsta skrefið, leika fyrsta leikinn, hafa þetta frumkvæði sem ég nefndi hér að ofan.

Hugsum okkur heiminn ef allir myndu fylgja þessari reglu.  Við leggjum okkar að mörkum og þá er líklegt að fleiri fylgi því fordæmi sem Jesús setti.  Guð blessi þig lesandi góður.

Séra Sigurður Grétar Sigurðsson

Lofgjörðarlag dagsins er með Casting Crowns og heitir Great Are You Lord. Þú getur líf, þú ert elska, þú gefur ljós inn í myrkrið, gefur von, endurreysir hvert hjarta, mikill ert þú drottinn! https://www.youtube.com/watch?v=FaP8fKAR2Og

Vei hirðunum sem leiða sauðina afvega og tvístra hjörðinni sem ég gæti, segir Drottinn. Þess vegna segir Drottinn, Guð Ísraels, um hirðana sem gæta þjóðar minnar: Þér hafið tvístrað sauðum mínum og sundrað þeim og ekki sinnt þeim. Nú mun ég draga yður til ábyrgðar fyrir illvirki yðar, segir Drottinn. En ég mun sjálfur safna saman þeim sem eftir eru af sauðum mínum frá öllum þeim löndum sem ég tvístraði þeim til. Ég mun leiða þá aftur í haglendi þeirra og þeir verða frjósamir og þeim mun fjölga. Ég mun setja hirða yfir þá sem munu gæta þeirra. Þeir munu hvorki skelfast framar né óttast og einskis þeirra verður saknað, segir Drottinn.
Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég mun láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun ríkja sem konungur, breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu. Um hans daga verður Júda bjargað og Ísrael mun búa óhultur. Þetta er nafnið sem honum verður gefið: „Drottinn er réttlæti vort.“

Guð friðarins, sem leiddi Drottin vorn, Jesú, hinn mikla hirði sauðanna,upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála, styrki yður í öllu góðu í hlýðni við vilja sinn. Láti hann allt það verða í oss sem honum er þóknanlegt fyrir Jesú Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.

„Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem kemur ekki um dyrnar inn í sauðabyrgið heldur fer yfir annars staðar, hann er þjófur og ræningi en sá sem kemur inn um dyrnar er hirðir sauðanna. Dyravörðurinn lýkur upp fyrir honum og sauðirnir heyra raust hans og hann kallar á sína sauði með nafni og leiðir þá út. Þegar hann hefur látið út alla sauði sína fer hann á undan þeim og þeir fylgja honum af því að þeir þekkja raust hans. En ókunnugum fylgja þeir ekki heldur flýja frá honum því þeir þekkja ekki raust ókunnugra.“
Þessa líkingu sagði Jesús þeim. En menn skildu ekki hvað það þýddi sem hann var að tala við þá.
Því sagði Jesús aftur: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ég er dyr sauðanna. Allir þeir sem á undan mér komu eru þjófar og ræningjar enda hlýddu sauðirnir þeim ekki. Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig mun frelsast og hann mun ganga inn og út og finna haga. Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess að þeir hafi líf, líf í fyllstu gnægð.