Manni er ekkert búið að líða sérstaklega vel í jarðskjálftahrinunni að undanförnu.

 

Fjöllin og húsin hristast og maður getur einhvern veginn ekkert gert.

 

Urðu slys á fólki?

 

Urðu skemmdir?

 

Hvað með fólkið mitt, er allt í lagi með þau?

 

Hvað var skjálftinn stór?

 

Hvar eru upptökin?

 

Er að verða eldgos?

______________________

 

Á föstudaginn í hádeginu sat ég við skrifborðið á skrifstofunni minni þegar stór skjálfti reið yfir.

 

Eftir skjálftann leit ég yfir skrifstofuna og sá á skrifborðinu bók sem geymir texta úr Biblíunni og bænir, bókin heitir: “Lykilorð 2021”.

 

Ég fann að mig vantaði eitthvað hughreystandi strax.

Eitthvað til að hjálpa mér til að ná áttum, núllstilla mig og láta ekki ótta og kvíða stjórna för.

 

Ég opnaði bókin og þá stóð eftirfarandi texti frá spámanninum Amosi:

 

“Sjá, hann mótar fjöllin,

hann skapar vindinn,

hann boðar manninum það sem hann hefur í hyggju.

Hann breytir myrkri í morgunroða og gengur yfir hæðir jarðarinnar,
Drottinn, Guð hersveitanna, er nafn hans.”

“Sjá hann mótar fjöllin”.

_____________________

 

Guð er stærri.

 

Treystu honum, trúðu á Guð.

 

Textinn talaði og talar beint til mín, til hugar og hjarta.

 

Sálarstyrkjandi, róandi, nærandi og hughreystandi.

 

Amos, spámaður var uppi á áttundu öld fyrir upphaf tímatals okkar, sem miðast við fæðingu Jesú Krists.

 

Gömul eru orð hans en þó sístæð.

 

Það þarf ekki mikið til að maður missir áttanna í lífinu.

Hvað skiptir máli og hvað skiptir síðu máli og hvað skiptir bara engu máli?

 

Hveru eru stóru atriðin í lífinu?

 

Fólkið þitt?

 

Heilsan þín?

 

Guð?

_______________________

 

Guð er undirstaðan

 

Grundvöllurinn, sem bifast ekki.

 

Orð hans.

 

Jesús segir: “Óttast ekki, trú þú aðeins”.

 

Sr. Sigurður Arnarson, sóknarprestur Kópavogskirkju

 

Lofgjörðarlag er flutt af Lauren Daigle og heitir Trust In You

https://youtube.com/watch?v=n_aVFVveJNs&feature=share

 

 

Drottinn, bjarg mitt og vígi, frelsari minn.
Guð minn, hellubjarg mitt þar sem ég leita hælis,
skjöldur minn og horn hjálpræðis míns,
háborg mín og hæli,
frelsari minn sem bjargar mér undan ofríki.
Lofaður sé Drottinn, hrópa ég
og bjargast frá fjandmönnum mínum.
Holskeflur dauðans umluktu mig,
eyðandi fljót skelfdu mig.
Bönd heljar herptust að mér,
snörur dauðans ógnuðu mér.
Í angist minni kallaði ég á Drottin,
til Guðs míns hrópaði ég.
Hann heyrði hróp mitt í helgidómi sínum,
óp mitt barst honum til eyrna.
Já, þú ert lampi minn, Drottinn.
Drottinn lýsir mér í myrkrinu.
Með þinni hjálp brýt ég borgarveggi,
með Guði mínum stekk ég yfir múra.
Vegur Guðs er lýtalaus,
orð Drottins er áreiðanlegt,
skjöldur er hann öllum sem leita hælis hjá honum.
Hver er Guð nema Drottinn?
Hver er bjarg nema Guð vor?
Guð er mitt trausta vígi,
hann greiddi mér götu sína.

Þú gerðir hjálp þína að skildi mínum,
heit þitt gerði mig mikinn.

Ég minni ykkur, systkin, á að hafa gát á þeim sem vekja sundurþykki og tæla frá þeirri kenningu sem þið hafið numið. Sneiðið hjá þeim. Slíkir menn þjóna ekki Drottni vorum Kristi heldur eigin maga, og með blíðmælum og fagurgala blekkja þeir hjörtu hrekklausra manna. En hlýðni ykkar er alkunn orðin. Því er ég glaður yfir ykkur og vil að þið séuð vitur í því sem gott er en fákunnandi í því sem illt er. Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum ykkar.

Nú fóru páskar Gyðinga í hönd og Jesús hélt upp til Jerúsalem. Þar sá hann í helgidóminum þá er seldu naut, sauði og dúfur og víxlarana sem sátu þar. Þá gerði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra og við dúfnasalana sagði hann: „Burt með þetta héðan. Gerið ekki hús föður míns að sölubúð.“ Lærisveinum hans kom í hug að ritað er: „Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.“
Ráðamenn Gyðinga sögðu þá við hann: „Hvaða tákn getur þú sýnt okkur um það að þú megir gera þetta?“
Jesús svaraði þeim: „Brjótið þetta musteri og ég skal reisa það á þrem dögum.“
Þá sögðu þeir: „Þetta musteri hefur verið fjörutíu og sex ár í smíðum og þú ætlar að reisa það á þrem dögum!“
En Jesús var að tala um musteri líkama síns. Þegar hann var risinn upp frá dauðum minntust lærisveinar hans að hann hafði sagt þetta, og þeir trúðu ritningunni og orðinu sem Jesús hafði talað.