Hver er ég? Hverju trúi ég?

Fel Drottni vegu þína og treystu honum (Sl 37:5)

Þessi orð úr Davíðssálmum hafa fylgt mér frá því ég var barn að aldri. Ég hef trúað og treyst því að ég geti reitt mig á Guð, að Guð sé og verði til staðar hvernig svo sem öllu öðru kann að vinda fram. Þetta hefur verið kjarnaþáttur í trú minni frá því ég man eftir mér og jafnframt mikilvægur grunnur sjálfsskilnings míns og vitundar minnar. Ég trúi á Guð; ég trúi að Guð búi að baki allri tilveru og að við séum hans hvort sem við lifum eða deyjum.

Ég trúi á persónulegan Guð; Guð sem ég tala til í bænum mínum  og ávarpa. Ég bið leiðsagnar þegar ég óttast eða er óöruggur og óviss um hvernig best er á takast á lífsverkefni mín. Orðalag bænarinnar hefur vissulega mótast og slípast til með aldri og þroska en kjarninn hefur alltaf verið sá sami. Ég hef beðið Guð að leiða mig og vaka yfir mér.

Í æsku var mér kennt að þakka og biðja verndar Guðs á kvöldin og ég geri það enn. Ég fel mig og fjölskyldu mína Guði og bið Guð um að  leiða mig svo ég megi reynast öðrum vel. Ég lærði einnig snemma að taka mér stund, hvenær dags sem var, og biðja leiðsagnar og styrks Guðs og að biðja fyrir öðrum.

Ég er þakklátur fyrir að hafa verið kenndar bænir í æsku og ég er þakklátur fyrir bænheyrslur sem ég hef notið. Mínar bænheyrslur eru ekki þannig að allt hafi í einu vetvangi snúist mér í hag. Bænheyrslan sem ég þekki er á þann veg að ég hef haldið trú minni og rótfestu í gegnum það sem ég hef upplifað og reynt.

Ég trúi ekki að Guð stýri öllu á þann hátt að við séum eins og  strengjabrúður í hendi Guðs og að Guð skammti sumum velgengni og láti aðra mæta mótlæti. Ég trúi á Guð sem býður okkur að ganga með okkur í gegnum erfiðleika. Ég trúi á Guð sem grætur með okkur, ef því er að skipta, en kallar okkur um leið til að leggja okkar að mörkum til að aðstæður geti snúist til betri vegar. Ég trúi að við séum kölluð til að vera samverkamenn Guðs í þjónustu kærleikans, að við séum kölluð til að gera öðrum gott og vinna að því að bæta hag annarra.

Já „fel Drottni vegu þína“ merkir að ég opna hjarta mitt og vitund fyrir leiðsögn Guðs, að ég hlusta á og les ritninguna og velti fyrir mér hvað Jesús, Páll eða spámennirnir voru að segja og inn í hvaða aðstæður þeir voru að tala. Ég spyr síðan: Hvað er í dag áþekkt þessum aðstæðum; hvað myndi Jesús segja núna og hvernig myndi hann tala til okkar í dag. Og ég bið um að styrk til að geta lagt mitt að mörkum til að breyta því sem hægt er að breyta. Ég bið einnig um hugarró til að fella mig við það sem ég fæ engu um ráðið og ég bið um vit til að greina þar á milli.

Við erum kölluð til að vinna verk kærleikans og heimfæra eftirfarandi orð Krists sífellt inn í nýjar aðstæður:

Nýtt boðorð gef ég ykkur að þið elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað ykkur þannig skuluð þið elska hvert annað. Og af því má svo þekkja hvort þið erum mínir lærisveinar, hvort þið elskið hvert annað. (Jóh 13:34-5)

Megi Guð hjálpa þér að sýna öðrum elsku og umhyggju lesandi góður og trú þín mun eflast af.

Sr. Gunnar Rúnar Matthíasson, sjúkrahúsprestur Landspítala

Lofsyngið himnar, fagna þú jörð,
þér fjöll, hefjið gleðisöng
því að Drottinn hughreystir þjóð sína
og sýnir miskunn sínum þjáðu.
En Síon segir: „Drottinn hefur yfirgefið mig,
Guð hefur gleymt mér.“
Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu
að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
Og þó að þær gætu gleymt
þá gleymi ég þér samt ekki.
Ég hef rist þig í lófa mér,

„Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð“. Beygið ykkur því undir Guðs voldugu hönd til þess að hann upphefji ykkur á sínum tíma. Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.
Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Standið gegn honum stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systur um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun Guð, sem veitir alla náð og hefur í Kristi kallað ykkur til sinnar eilífu dýrðar, sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug. Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.

Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.
Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!
Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.