Eitt af því sem mér þykir vænst um við Páskasöguna er að á krossinum og í upprisunni skiljum við þjáninguna betur. Það þarf ekki að líta langt í heiminum til að sjá að sakleysið er á köflum krossfest. Guð kristinna manna er ekki fjarlægur Guð sem veldur þjáningu. Nei, Guð kristinnar trúar er Guð sem grætur, Guð sem þjáist, ekki bara fyrir okkur, heldur líka með okkur. Guð er með okkur í vanlíðaninni og kvíðanum. Guð veldur ekki þjáningunni, heldur umbreytir henni.
Páskasögunni lauk ekki við krossinn þar sem María var grátbólgin um augun og lærisveinarnir ráfaðu um eins og sauðir sem engan hirði hafa. Sögulokin voru ekki hermenn sem kölluðu háðslega: ,,er þetta konungur ykkar?“ Nei, það átti eftir að koma páskadagur, upprisan, djörfungin og sigur lífsins. Hinir huglausu, niðurbrotnu og skelfingu lostnu lærisveinar Jesú, breyttust á augabragði í hugdjarfa, framsækna og stálslegna boðendur fagnaðarerindisins. Fylgjendur Jesú upplifðu viðsnúning sem breytti öllu í lífi þeirra og breytti veraldarsögunni.
Aftur og aftur upplifi ég hvernig þessi saga hefur enn áhrifamátt. Ég var nýlega staddur við dánarbeð mikillar kirkjukonu, hún mætti í allar messur svo fremi sem hún átti heimangengt. Hún var með í vikulegum bænastundum, lofgjörðarstundum og í prjónahópnum Vinavoðum. Þegar hún var orðin vanmáttug og ljóst að síðustu andartökin væru framundan, fórum við nokkrir vinir til hennar og áttum kveðju og þakkarstund. Á dánarbeðinu minnti hún, af einstöku æðruleysi á, útfrá einu af hennar eftirlætisversum að: ,,við megum ekki láta hugfallast, það er ekkert að óttast, því Drottinn hefur sjálfur farið fyrir okkur!“ Hún átti vart mátt til að mæla þessi orð en sannfæringin var alger. Þessi stund var heilög öllum þeim sem þarna voru.
Upprisuvonin og fullvissan breytti erfiðri kveðjustund í æðrulaust þakklæti og fullvissu um að lífið er í hendi Guðs.

Trúin getur umbreytt okkur. Ég las um daginn grein um magnaða konu, hugsuð sem milljónir líta upp til. Aðspurð um trú sína, sagði hún einlæglega frá því, hvernig hún hefði fundið styrk á nýjan leik trúnni. Það hefði orðið ákveðin endurnýjun í hjarta hennar þegar hún áttaði sig á því að trúin væri ekki leit að töfraorðum heldur fyrst og síðast samfylgd, samfylgd Guðs sem grætur með okkur, samfylgd Guðs sem skilur þjáningu, samfylgd Guðs sem gerir alla hluti nýja. Í framhaldi benti hún á að það að Jesús hefði verið sonur Guðs og þurft að fórna sér meikaði einfaldlega sens í hennar huga. Það væri gangur lífsins.
Hún nefndi að: Til þess að fyrirgefning fæðist fram, þarf stolt stundum að deyja. Til þess að takast megi í hendur, þarf stundum að hætta kreppa hnefann. Til þess að nýtt líf og betra líf geti byrjað að vaxa fram þarf stundum drykkjan eða fíknin að hverfa. Til þess að vöxtur getið orðið, þurfum við stundum að eyða fyrirfram gefnum hugmyndum okkar og jafnvel fordómum gagnvert einstaklingum. Slíkar hugmyndir þurfa að deyja úr huga okkar.
Þetta er hluti af náttúrulögmálinu. Á hverri klukkustund deyja milljónir fruma í líkama þínum svo nýjar geti tekið við. Þegar fræið er orðið svo þungt á blóminu og það slítur sig frá plöntunni gæti maður hugsað að það hafi lokið hlutverki sínu, en akkurat þá gerist galdurinn og það nær fram tilgangi sínum.
Fórn Jesú hafði einstakan tilgang. Sigurbjörn Einarsson biskup bað um blað og penna á dánarbeði sínu og ritaði að síðustu orð til ættingja sinna: „Jesús er á krossinum sínum að skapa páska handa mér og öllum. Dýrð sé þér Drottinn minn.“ Boðskapur páskanna verður eflaust ekki betur dreginn saman, Jesús er upprisinn, Jesús er sannarlega upprisin og hann er á krossinum sínum að skapa páska handa mér og öllum. Dýrð sér þér Drottinn minn.

Sr. Guðni Már Harðarson

Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu, veislu með réttum fljótandi í olíu og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg og skírðu dreggjavíni. Á þessu fjalli, fyrir framan fortjaldið, sem er hula öllum þjóðum og forhengi öllum lýðum, mun hann afmá dauðann að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni því að Drottinn hefur talað. Á þeim degi verður sagt: Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á og hann mun frelsa oss. Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á, fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans

Ég minni ykkur, systkin, á fagnaðarerindið sem ég boðaði ykkur, sem þið og veittuð viðtöku og þið standið einnig stöðug í. Það mun og frelsa ykkur ef þið haldið fast við það sem ég boðaði ykkur, ella hafið þið til einskis tekið trú. Því það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum. En síðast allra birtist hann einnig mér,

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“ Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. Allt í einu kemur Jesús á móti þeim og segir: „Heilar þið!“ En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. Þá segir Jesús við þær: „Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum og systrum[ að halda til Galíleu. Þar munu þau sjá mig.“