Matt. 8.  23 -27

23 Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. 24 Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. 25 Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“

26 Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.

27 Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“

 

,,Kjarkur er ótti sem hefur farið með bænirnar sínar“

Á sjómannadegi rifjar kirkjan upp sjóferðasögu frá liðinni tíð. Við þekkjum  þessa frásögu guðspjallamannsins Matteusar  af hræddum mönnum andspænis lífsháska og við eigum auðvelt með að tengja við hana. Þar er líka getið um hjálpina sem var næst og brást ekki.

Í Akureyrarkirkju er að finna líkan af skipi sem hangir niður úr loftinu. Það er táknrænt að finna slíkt líkan í kirkju en kirkjunni hefur verið líkt við skip. Þar erum við  saman komin í kirkjuskipi. Innan borðs er allt það fólk sem leggur traust sitt á meistarann frá Nazaret, Jesú Krist. Hann er skipstjórinn sem þekkir hættuboðana og getur stýrt fleyi sínu framhjá þeim og í friðarhöfn. Skipið siglir frá vestri til austurs með sitt krosslaga siglutré. Heilagur andi gefur góðan byr, vekur fyrir orð meistarans trú í brjóstum skipverja og jafnframt traust í garð skipstjórans. En veður geta gerst válynd fyrr en varir og þá finnum við til hræðslu og ótta um borð í skipinu þegar okkur finnst lífi okkar vera ógnað meira en við þolum. Þá er gott að setja traust sitt á Drottinn Jesú Krist..

Drottinn hefur aldrei lofað neinum auðveldu eða þægilegu lífi en hann heitir því að vera með í ágjöf jafnt sem meðbyr, eins og Jesús var með í bátnum. Hann mun gefa okkur styrk til að bera byrðar lífsins og mæta andstreymi þess.

Endanlegur sigur í öllum aðstæðum er í hendi hans. Stundum sjáum við ekki fram á þann sigur, vitum ekki hvernig málin muni leysast, en við eigum alltaf vonina, byggða á upprisu Krists.

Við lifum þá eins og á augnablikinu áður en Jesús kyrrir vind og sjó, á því augnabliki þegar allt er að farast en lausnin þó svo nálæg. Við eigum vissu um að hann leiðir allt til blessunar, snýr öllu til góðs – en okkur er hulið hvenær hann gerir það og sú bið er erfið. En hann er með okkur í þeirri bið, í angist og söknuði, í kvíða og ótta – og við erum í bátnum hans. Og hann virðist ætla að sofa af sér veðrið og ólagið.

Þessi saga minnir okkur á lífið eins og það er.  Stormar geta blásið og valdið okkur skaða en það eru innviðirnir sem skipta mestu, bæði fyrir einstaklinga og samfélag. Stormurinn getur verið yfirgnæfandi og óþyrmilegur en það sem býr hið innra með okkur sjálfum skiptir miklu máli. Með hvaða hugarfari við mætum erfiðleikum er svo mikilvægt. Einu sinni var sagt: Kjarkur er ótti sem hefur farið með bænirnar sínar.

Frásögn guðspjallsins segir við þig og mig: ,,Þegar öfl hins illa skella á okkur þá megum við vita að við hlið okkar er sá sem er sterkari en afl dauðans og heljar. Þótt hann virðist sofa, þótt hann virðist fjarri, trúðu aðeins! Jesús Kristur er öflugri en allt sem ógnar þér.“

Jesús vill vera hjá okkur í lífsbátnum okkar, í gleðinni og örygginu, einnig í  neyðinni og sorginni. Hann vill leiða okkur í gegnum bárur, brim og voðasker, storma og stórsjói á ævileið og loks yfir torleiðið mesta, brimgarðinn hinsta. Verum líkt og hann á bandi lífsins og þess góða máttar sem  að lífinu hlúir, líknar og eflir.

Við hugsum til björgunarsveitafólksins sem leggur fram sína góðu krafta til bjargar. Við hugsum til Landhelgisgæslunnar og til vökumannanna sem sinna slysavörnum og öryggismálum til sjós og lands. Við hugsum til hjúkrunarliðs og lækna og alls þess góða fólks sem er reiðubúið að líkna og hjálpa og hugga. Við hugsum til allra þeirra sem leggja sig fram um að reynast öðrum vel, vera vinir í raun. Ef okkur öllum auðnast að vera vinir í raun þá missum við aldrei sjónar á stefnunni og náum takmarkinu um síðir. En þegar allt kemur til alls þá byggist sáluhjálp okkar  á tengslum við aðra.

Guð gefi þér góðar stundir.

Sr. Sighvatur Karlsson

Drottinn, þú ert minn Guð.
Ég vegsama þig, ég lofa nafn þitt
því að þú hefur unnið furðuverk,
framkvæmt löngu ráðin ráð
sem í engu brugðust.

Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli
búa öllum þjóðum veislu,
veislu með réttum fljótandi í olíu
og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg
og skírðu dreggjavíni.
Á þessu fjalli, fyrir framan fortjaldið,
sem er hula öllum þjóðum
og forhengi öllum lýðum,
mun hann afmá dauðann að eilífu.
Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu
og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni
því að Drottinn hefur talað.
Á þeim degi verður sagt:
Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á
og hann mun frelsa oss.
Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á,
fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans

Undrist ekki, systkin, þótt heimurinn hati ykkur. Við vitum að við erum komin yfir frá dauðanum til lífsins af því að við elskum bræður okkar og systur. Sá sem ekki elskar er áfram í dauðanum. Hver sem hatar bróður sinn eða systur er manndrápari og þið vitið að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér. Af því þekkjum við kærleikann að Jesús lét lífið fyrir okkur. Svo eigum við og að láta lífið hvert fyrir annað. Ef sá sem hefur heimsins gæði horfir á bróður sinn eða systur vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir þeim, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum? Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.

Jesús sagði við hann: „Maður nokkur gerði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom að veislan skyldi vera sendi hann þjón sinn að segja þeim er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.
Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. Og þjónninn sagði: Herra, það er gert sem þú bauðst og enn er rúm. Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um stíga og vegi og þrýstu á menn að koma inn svo að hús mitt fyllist. Því ég segi ykkur að enginn þeirra sem fyrst voru boðnir mun smakka kvöldmáltíð mína.“