Skósmiðurinn Panov

Það var aðfangadagskvöld, langt í burtu héðan í tíma og rúmi. Hlý og mjúk birtan féll út um glugga húsanna, og það var sungið. Og hlátur ómaði þegar jólapakkarnir voru opnaðir.

En skósmiðurinn í þorpinu, hann Panov, var einn heima. Konan hans var dáin og börnin uppkomin og flogin úr hreiðrinu. Og þarna sat hann með Biblíuna í kjöltu sér og las jólaguðspjallið sér til huggunar og ánægju. Þarna var sagt frá þeim Jósef og Maríu, svöngum og lúnum, enda höfðu þau hvergi almennilegan stað til að hvílast á.

“Ég hefði nú leyft þeim að gista hjá mér,” hugsaði Panov. “Nóg er plássið í þessu húsi mínu.”

Og fjárhirðarnir! Já, og englarnir! Ekki mátti gleyma þeim. Eða vitringunum frá Austurlöndum. Maður lifandi, hvílíkar gjafir sem þeir færðu!

“Hvað ætli ég hefði komið með,” velti Panov fyrir sér, og varð litið til kassa, sem blasti við í efstu hillunni í skápnum. Í honum voru litlir skór. Hann hafði sjálfur búið þessa skó til endur fyrir löngu, þegar fingur hans voru liprir. En það var nú þá.

“Já, ég hefði gefið skóna,” hugsaði Panov og brosti. “Þeir voru það besta sem ég nokkru sinni gerði.” Ekki löngu síðar runnu gleraugun hægt á nefbroddinn og Panov féll í svefn.

Hann svaf fast og dreymdi mikið. Þar liðu gleðirík aðfangadagskvöld framhjá, eitt af öðru, sem hann og fjölskyldan höfðu átt saman. Tregi draumanna stigmagnaðist og varð Panov ofraun, en þá sá hann allt í einu annað andlit, góðlegt og milt.

“Ég er Jesús,” var sagt. “Ég hef séð einsemd þína og sorg. Á þessum jólum mun ég koma til þín, Panov!”

Gamli maðurinn hrökk upp. Morgunsólin skein í augu hans. Það var kominn jóladagur! Gengi draumurinn eftir, myndi Jesús koma til hans í dag!

Panov fór að ræsta hús sitt, hitaði því næst vatn og hellti upp á sterkt og gott kaffi. Hvað eftir annað varð honum litið út um gluggann, ef vera kynni að draumagestinn færi nú að bera að garði. Þá sá hann skyndilega mann koma eftir götunni. Kannski var þetta Jesús, sem gekk þarna hægum skrefum. Með hirðisstaf. En, nei, þegar maðurinn kom nær, sá Panov hver var þarna á ferð. Þetta var hann Sergei, götusópari þorpsins, með kústinn sinn. Hann átti aldrei frí. Panov opnaði dyrnar og kallaði til hans: “Mér sýnist þér vera kalt, vinur. Og það hlýtur að vera einmanalegt þarna úti á jóladagsmorgni. Komdu inn og fáðu þér kaffisopa.”

Hann flýtti sér til Panovs, dustaði snjóinn af fötunum og nuddaði bláa fingurna. Skósmiðurinn rétti honum kaffifantinn. Og haldandi sjóðheitu ílátinu milli dofinna handanna lét götusóparinn notalegan strókinn leika um kalt andlit sitt.

Sergei drakk kaffið hægt og naut þess. Panov ræddi við hann kurteislega, og sagði honum m.a. frá drauminum, en fylgdist þó grannt með umferðinni úti fyrir á sama tíma.

“Ég vona að draumurinn rætist,” sagði götusóparinn að lokum. “En ég verð að halda áfram. Bestu þakkir fyrir kaffið og þægilegheitin.” Hann óskaði Panov innilega gleðilegra jóla. Síðan var hann rokinn til vinnu sinnar.

Tíminn leið. Ein stund. Tvær. Þrjár. Og líf færðist í götuna. Panov setti pott yfir eldinn og sauð kálsúpu. Hann sá nágrannana fara í heimsókn til ættingja og vina, en ekkert bólaði á Jesú.

En þarna var ókunn stúlka á ferð, gekk hægt og bar eitthvað í fanginu. Hún var tötrum klædd og því skjálfandi í hinu mikla frosti.

Panov opnaði aftur dyrnar hjá sér og kallaði. “Komdu inn, vina mín! Komdu og yljaðu þér!” Og aftur var hellt upp á kaffi. Jafnframt bað hann stúlkuna um að vera sem næst ofninum, og vildi taka það sem hún var með í fanginu, til að létti henni byrðina, en hún lagði það fastar að sér en áður. Þá heyrðist skyndilega grátur.

“Barnið mitt er svangt,” hvíslaði móðirin unga. Panov brást skjótt við og hitaði mjólk. Stúlkan gaf barninu að drekka og tók ábreiðuna utan af því. Panov sá að það var ekki í neinum skóm. Honum varð strax hugsað til litla kassans í efstu skáphillunni, teygði sig upp og náði í hann og rétti stúlkunni.

“Ég get ekki tekið við þessu,” sagði hún klökk. “Þeir eru allt of fallegir og ég á þetta ekki skilið.”

“Æi, gerðu það vegna barnsins,” bað Panov. “Það eru nú einu sinni jólin.”

Þegar stúlkan var farin leit hann aftur út um gluggann. Það var byrjað að skyggja og enn bólaði ekkert á Jesú. En betlarar ráfuðu um götuna og væntu þess að einhver rétti að þeim smáglaðning. Og í þriðja sinn lauk Panov upp dyrum sínum. Hann átti jú þessa kálsúpu, sem líka var þegin með gleði og borðuð af hjartans lyst.

Síðasti betlarinn yfirgaf húsið þegar myrkur var skollið á. Panov var orðinn þreyttur. Hann var enn daprari en kvöldið áður og hafði sjaldan verið jafn einmana og nú. Eflaust hafði þetta bara verið draumur, þarna nóttina áður. Ekkert annað. Það hlaut eiginlega að vera, úr því sem komið var. En á svipstundu fann Panov að hann var ekki einn. Hann leit upp og þarna var sama andlitið og fyrr. Jesús stóð í gættinni.

“Þegar ég var hungraður, gafstu mér að borða,” sagði hann. “Þegar kuldinn sótti að mér, bauðstu mér inn í hlýjuna. Og þegar ég var nakinn, klæddirðu mig.”

“Ha?” sagði Panov. “Hvenær gerði ég þetta?”

“Jú, þú bauðst götusóparanum inn til þín í kaffi. Og betlararnir fengu hjá þér mat. Og dýrmætustu skóna þína gafstu fátæku barni sem kuldinn næddi um. Í þessu öllu reyndist þú mér sem bróðir.” Og Jesús brosti.

“Gleðileg jól, Panov!” sagði meistarinn að lokum og hvarf svo út í nóttina.

Leo Tolstoy

Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans
sem friðinn kunngjörir,
gleðitíðindin flytur,
hjálpræðið boðar og segir við Síon:
„Guð þinn er sestur að völdum.“
Heyr, varðmenn þínir hefja upp raustina,
hrópa fagnaðaróp allir í einu
því að með eigin augum
sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar.
Hefjið upp fagnaðarsöng allar í einu,
rústir Jerúsalem,
því að Drottinn hefur huggað þjóð sína,
endurleyst Jerúsalem.
Drottinn hefur afhjúpað heilagan armlegg sinn
í augsýn allra þjóða
og allt til endimarka jarðar
munu menn sjá hjálpræði Guðs vors.

Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.

Þessi er vitnisburður Jóhannesar þegar ráðamenn í Jerúsalem sendu til hans presta og Levíta til að spyrja hann: „Hver ert þú?“
Hann svaraði ótvírætt og játaði: „Ekki er ég Kristur.“
Þeir spurðu hann: „Hvað þá? Ertu Elía?“
Hann svarar: „Ekki er ég hann.“
„Ertu spámaðurinn?“
Hann kvað nei við.
Þá sögðu þeir við hann: „Hver ert þú? Við verðum að svara þeim er sendu okkur. Hvað segir þú um sjálfan þig?“
Hann sagði: „Ég er sá sem Jesaja spámaður talar um. Ég er rödd hrópanda í eyðimörk er segir: Gerið beinan veg Drottins.“
Sendir voru menn af flokki farísea. Þeir spurðu hann: „Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?“
Jóhannes svaraði: „Ég skíri með vatni. Mitt á meðal ykkar stendur sá sem þið þekkið ekki, hann sem kemur eftir mig og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa.“
Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.