“Dæmið því ekki fyrir tímann áður en Drottinn kemur. Hann mun leiða það í ljós sem í myrkrinu er hulið og afhjúpa allt sem í hjarta dylst. Og þá mun hver um sig hljóta þann lofstír af Guði sem hann á skilið.”

Orðið aðventa merkir koma og í desember erum við að bíða og erum full eftirvæntingar. Við finnum öll fyrir þessari tilfinningu að eitthvað mikilvægt sé í nánd,  tilfinning sem oft er erfitt að færa í orð vegna þess að það sem við væntum er stærra en við sjálf og felur í sér lífið í sinni hreinustu og tærustu mynd, barni sem boðar nýjan veruleika og breytta heimsmynd.

Það er raunar þannig að allt okkar líf erum við mörg hver að bíða eftir einhverju,  þess vegna má líta svo á að líf okkar sé ein aðventa.

Biðin getur verið margvísleg og beinst að einhverju áþreifanlegu en einnig einhverju sem við fæst kunnum almennilega skil á, en finnum svo sterkt fyrir innra með okkur að vanti. Það er ekki alltaf neikvætt að upplifa að eitthvað vanti, því það hvetur okkur til verka og til dáða að reyna að öðlast og finna.

Þessi tilfinning verður  hvað sterkust á aðventu. Ég er á því að skilningarvitin okkar magnist upp á þessum tíma og við verðum næmari fyrir umhverfi okkar. Við fyllum líf okkar ljósum og skrauti og gerum okkar besta til að undirbúa komu jólanna í hverju húsi og hverju hjarta.

En um leið verðum við líka meðvitaðri um það hvað vantar í nærumhverfið okkar. Ástvinir sem hafa kvatt framkalla minningar í huga og á þessum tíma þar sem allt ljómar, getum við orðið einmana sem aldrei fyrr þó við kunnum að vera umkringd fólkinu okkar. Þá verður það sem vantar aldrei áþreifanlegra en á aðventunni.

Lífið er nefnilega breytingum háð og við færumst frá einu æviskeiði til annars og með því breytumst við og umhverfi okkar með. Það merkir að jólin geta öðlast nýja merkingu í huga okkar, eftir því hvernig höndum lífið hefur farið um okkur og hvernig aðstæður okkar eru hverju sinni.

Jólin eru raunverulega lifandi hátíð, hún er ekki stöðnuð og meitluð í stein, heldur eru þau samansafn af fólki, aðstæðum, minningum, hefðum og siðum.

Þess vegna eru þau aldrei eins frá ári til árs, því við getum aldrei aðskilið okkur sjálf og aðstæður okkar frá þessari helgu hátíð.

En það er það sem er svo fallegt og heilagt við jólin. Þau snúast um fólk og mennskuna. Þau snúast um það sem er helgast af öllu helgu, barn í jötu í Betlehem og við þessa jötu föllum við á kné á hverjum jólum og dáumst að undrinu sem býr í þessu barni.

Það er þarna sem himinn og jörð verða eitt. Það er þarna sem við finnum frið og sanna eftirvæntingu. Það er þarna sem sorgin fær líkn og hvert tár er þerrað. Það er þarna sem minningarnar okkar okkar verða gjöf og við finnum að vonin er sterk þrátt fyrir allt og lýsir upp og mildar hverja tíð.

Megum við öll eiga gæfuríka aðventu og gleðileg jól.

Séra Sunna Dóra Möller

 

 

Huggið, huggið lýð minn,
segir Guð yðar.
Hughreystið Jerúsalem
og boðið henni
að áþján hennar sé á enda,
að sekt hennar sé goldin,
að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins
fyrir allar syndir sínar.
Heyr, kallað er:
„Greiðið Drottni veg um eyðimörkina,
ryðjið Guði vorum beina braut í auðninni,
sérhver dalur skal hækka,
hvert fjall og háls lækka.
Hólar verði að jafnsléttu
og hamrar að dalagrundum.
Þá mun dýrð Drottins birtast
og allt hold sjá það samtímis
því að Drottinn hefur boðað það.“
Einhver segir: „Kalla þú,“
og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?“
„Allt hold er gras
og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.
Grasið visnar, blómin fölna
þegar Drottinn andar á þau.
Sannlega eru mennirnir gras.
Grasið visnar, blómin fölna
en orð Guðs vors varir að eilífu.“

Þannig líti menn á okkur sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs. Nú er þess krafist af ráðsmönnum að sérhver reynist trúr. En mér er það fyrir minnstu að verða dæmdur af ykkur eða af mannlegu dómþingi. Ég dæmi mig ekki einu sinni sjálfur. Ég er mér ekki neins ills meðvitandi en með því er ég þó ekki sýknaður. Drottinn er sá sem dæmir mig. Dæmið því ekki fyrir tímann áður en Drottinn kemur. Hann mun leiða það í ljós sem í myrkrinu er hulið og afhjúpa allt sem í hjarta dylst. Og þá mun hver um sig hljóta þann lofstír af Guði sem hann á skilið.

Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði: „Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars?“
Jesús svaraði þeim: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þið heyrið og sjáið: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Og sæll er sá sem ekki hneykslast á mér.“
Þegar þeir voru farnir tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: „Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga. Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann. Hann er sá sem um er ritað:
Ég sendi sendiboða minn á undan þér,
hann á að greiða þér veg.