Friður Guðs sé með okkur öllum.

Í texta dagsins heyrum við af hundraðshöfðingja í Rómverska hersetuliðinu í Jerúsalem. Hann var hátt settur í setuliðinu og með á bilinu 60-100 hermenn í sínu liði. Enda lýsti hann því sjálfur hvernig hann gæti skipað fólki fyrir. En að sama skapi mátti hann hlýða þeim sem voru honum hærra settir.

 

Hann hafði sem sé hermenn undir sinni stjórn. Kannski var það vegna einhvers þeirra sem hann kom til Jesú fullur af áhyggjum. Gríska orðið i textanum bendir til þess að þessi sveinn sem rætt er um hafi verið einhvers konar vikapiltur. Orðið sem er þýtt sem sveinn í guðspjallinu gæti einnig átt við barn, dreng eða stúlku, þjón eða þræl eða jafnvel um samkynhneigðan mann í sambandi tveggja manna. Í samskonar frásögn í Lúkasargjuðspjalli á orðið án vafa við þræl, þannig að líklega er það langsótt að ætla það að hundraðshöfðinginn hafi verið samkynhneigður og lamaði maðurinn í sambandi við hann.

 

Við erum stödd í heimi valdabaráttu og stigveldis. Fáir útvaldir eru efstir í valdastiganum en mjög margir eru neðstir í honum og það er svo sem ekkert endilega ólíkt því sem við sjáum í samfélagi samtímans.

 

Það er tvennt sem mér finnst einkenna framkomu hundraðshöfðingjans í guðspjallinu. Fyrsta er það að hann trúir á Jesú þrátt fyrir að hann tilheyrði ekki lærisveinum hans eða fylgjendum. Það er trú hans á Guð og á það að Jesú sé sá sem allt getur. „Sannlega segi ég ykkur, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. Sagði Jesús. Hundraðshöfðinginn neitaði því ekki að hann væri heiðingi. En hann sagði við Jesú að hann væri ekki þess verðugur að hann kæmi heim til sín. En á þessum tíma var það álitið að gyðingar yrðu óhreinir ef þeir færu inn í hús gyðinga og kannski var hundraðshöfðinginn að vísa til þess.

 

Hann hafði ákveðnar hugmyndir um Jesús. Og það fer ekki á milli mála að hann bar kærleika til þjónsins eða sveinsins sem lá lamaður heima hjá honum. Honum fannst hann allavega skipta nægjanlega miklu máli til að hann var tilbúinn til að leita uppi meistarann frá Nasaret í von um að ná af honum og fá lækningu fyrir sveininn. Það er rétt að minnast á að Jesús átti alls ekki upp á pallborðið í sínum samtíma, hann var ekki virtur nema að litlum hópi fólks, var miklu frekar eins og einhvers konar furðufugl og þá ekker síður í hópi trubræðra sinna gyðinginna eða heiðinna innflyetjenda.

 

Hundraðshöfðinginn tók heilmikla áhættu með því að leita Jesú uppi, hann var drifinn áfram af kærleika til sveinsins sem lá veikur heima. Kannski var það það sem Jesús sá sem sterka trú mannsins. Kærleikur er afl sem getur yfirunnið nánast allar hindranir og er afl sem enginn getur brotið á bak aftur. Kærleikur var seinni þátturinn sem einkenndi hundraðshöfðingjann.

 

Ég held að það sé þannig með okkur flest að við skiljum ekkert í kærleikanum. En við vitum það sannarlega þegar hann mætir okkur. Og við vitum það þegar við erum full af kærleika. Við manneskurnar sem erum svo oft háð hvort öðru en eigum samt stundum svo erfitt með að sýna fólki kærleika þrátt fyrir að eiga í okkur nánast ótæmandi lind af þessum stórmagnaða krafti lífsins.

 

Hundraðshöfðinginn bar kærleika til sveinsins og einnig til Jesú, kærleikurinn gaf honum hugrekki til að sækja hjálp og gangast við sér gagnvart Jesú, hann varð til þess að sveinninn fékk bata. Kyrie, sagði hann, Herra Kyrie eleison – Herra miskunna þig yfir mig.

 

Og jesús miskunnaði sig yfir hann. Hann læknaði sveininn, án þess að koma nálægt honum og hann gerði það fyrir trú hundraðshöfðingjans. Hann læknaði svo marga og hann gerði aldrei manngreinarálit, var ekki að spá í það hvort fólk væri gyðingar eða heiðingjar, karlar eða konur eða eitthvað annað kyn. Spáði ekki í það hvort fólk væri af lágum stigum eða háum. Hann umgekkst alltaf alla jafnt. Allir eiga sama möguleika á nálægð við meistarann, þann sem öllu ræður.

 

Því að Drottinn, Guð ykkar, er Guð guðanna og Drottinn drottnanna. Hann er hinn mikli Guð, hetjan og ógnvaldurinn, sem gerir sér engan mannamun og þiggur ekki mútur. Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur honum fæði og klæði. Þið skuluð því sjálfir elska aðkomumanninn því að þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi.
Þú skalt óttast Drottin, Guð þinn. Þú skalt þjóna honum, vera honum trúr og sverja við nafn hans. Hann er þinn lofsöngur og hann er þinn Guð sem hefur unnið fyrir þig öll þessi miklu og ógnvekjandi verk sem þú hefur séð með eigin augum.

Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna. Oftreystið ekki eigin hyggindum. Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi. Leitið ekki hefnda sjálf, mín elskuðu, látið reiði Guðs um að refsa eins og ritað er: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,“ segir Drottinn. En „ef óvin þinn hungrar þá gef honum að eta, ef hann þyrstir þá gef honum að drekka. Með því að gera þetta safnar þú glóðum elds á höfuð honum.“ Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.

Nú gekk Jesús niður af fjallinu og fylgdi honum mikill mannfjöldi. Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: „Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“
Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. Jesús sagði við hann: „Gæt þess að segja þetta engum en far þú, sýn þig prestinum og færðu þá fórn sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.“
Þegar Jesús kom til Kapernaúm gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: „Drottinn, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn.“
Jesús sagði: „Ég kem og lækna hann.“
Þá sagði hundraðshöfðinginn: „Drottinn, ég er ekki verður þess að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Ger þetta, og hann gerir það.“
Þegar Jesús heyrði þetta undraðist hann og mælti við þau sem fylgdu honum: „Sannlega segi ég ykkur, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. En ég segi ykkur: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki en börn ríkisins munu út rekin í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: „Far þú, verði þér sem þú trúir.“
Og sveinninn varð heill á þeirri stundu.