1.Korintubréf 1:9  Trúr er Guð, sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns Jesú Krists, Drottins vors

Margir eru kallaðir, en fáir útvaldir. Fer þá Guð í manngreinarálit? Nei þú ert ekki valin í lið nema þú gefir kost á þér eða svarir kallinu. Vinnufélagi sagði: „Aldrei hefur Guð kallað mig“. Ég svaraði: „Jú, núna.” Þegar þú heyrir boðskapinn um Jesú Krist, dauða Hans og upprisu, þá stendur þú frammi fyrir vali. Vilt þú leyfa Honum að fylgja þér gegnum lífið eða ekki. Margir játa Krist, en eiga aldrei samfélag við Hann. Skrítið hjónaband, þar sem leiðir skilja stax eftir hjónvígsluna. Gerist samt of oft, unglingar játast Kristi, og búið. Við skiljum ekki að kallið snýst um að lifa í samfélagi við Hann.

Matteusarguðspjall 11:28 Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

Hebreabréfið 12:1 …léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd…

Í þessum ritingum sjáum við að Jesús vill losa okkur við byrðarnar og gefa okkur hvíld. Og það sem fæstir skilja, er að syndin, er þyngsta byrðin sem maðurinn ber. Í dag eru margir að sligast undan oki syndarinnar. Syndin virðist kunna að markaðsetja sig, og kemur oftast til okkar í fallegum umbúðum. Já, syndin er lævís og lipur.

Orðskv. 23:29 Horf þú ekki á vínið, hve rautt það er, hversu það glóir í bikarnum og rennur ljúflega niður. Að síðustu bítur það sem höggormur og spýtir eitri sem naðra. Í sálmi 55 sjáum við góða tákmynd , hvernig syndin kemur í líkingu vinar. Sálmur 55:20-22 Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann, hann rauf sáttmál sitt. Hálli en smjör er tunga hans,… mýkri en olía eru orð hans, og þó brugðin sverð.

Í þessum versum sjáum við eitthvað sem virðist fallegt og vinsamlegt, en spýtir síðan eitri, falleg orð sem eru til að tæla en síðan, fanga og hlekkja. Hversu margir eru ekki fastir í alls kyns fýsnum, sem fæða af sér ótta, kvíða, þunglyndi og andlega vanlíðan.

En mitt í öllu þessu er Kristur að kalla og bjóða okkur að losna frá byrðum okkar. Og lausnin er einföld. „Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.” 1.Jóhannesarbréf.1:9.

Sannleikurinn setur okkur alltaf frjáls, ef við hins vegar segjum, við höfum ekki syndgað, þá gerum við Guð að lygara. Því miður gera það margir í dag og eru áfram fastir í fjötrum sínum og skilja ekki hvers vegna.

Rómverjabréfið 6:12 segir: „Látið því ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama yðar, svo að þér hlýðnist girndum hans” …Hér segir ritningin greinilega að við eigum að hafa stjórn á líkama okkar. Girndir líkamans eiga ekki að stjórna okkur, þetta er ein af þeim byrðum sem margir fást við í dag og fá því miður ekki að heyra sannleikan og verða frjálsir.

Fagnaðarernidi Jesú Krists er kraftur, sem leysir alla, sem trúa. Rafmagnsfræðin hefur neikvæðan og jákvæðan pól, plús og minus = Kraftur.

Ef við horfumst aldrei í augu við hið neikvæða (syndina) þá er enginn kraftur til lausnar.

Þess vegna þurfum við að gjöra iðrun, játa að við erum syndarar sem þurfum á Guðs hjálp að halda og þá er Hann fús til að taka frá okkur byrðarnar og gefa okkur þá hvíld sem við vorum sköpuð til að lifa í.

Kristinn Ásgrímsson, Safnaðarhirðir í Hvítasunnukirkjunni í Keflavík

Komið, öll sem þyrst eruð, komið til vatnsins
og þér sem ekkert fé eigið, komið,
komið, kaupið korn og etið,
komið, þiggið korn án silfurs
og endurgjaldslaust, bæði vín og mjólk.
Hvers vegna reiðið þér fram silfur fyrir það sem ekki er brauð
og laun erfiðis yðar fyrir það sem ekki seður?
Hlýðið á mig, þá fáið þér hina bestu fæðu
og endurnærist af feitmeti.
Leggið við hlustir og komið til mín,
hlustið, þá munuð þér lifa.
Ég ætla að gera við yður ævarandi sáttmála
og miskunn mín við Davíð mun stöðug standa.
Ég gerði hann að vitni fyrir þjóðirnar,
að höfðingja og stjórnanda þjóðanna.
Sjá, þú munt kveðja til þjóðir sem þú þekkir ekki
og þjóðir, sem ekki þekkja þig, munu skunda til þín
vegna Drottins, Guðs þíns, Hins heilaga Ísraels,
því að hann hefur gert þig vegsamlegan.

Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins. Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum og ávarpið hvert annað með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. Syngið og lofið Drottin af öllu hjarta og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.

Þá tók Jesús enn að segja þeim dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og konung einn sem gerði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla boðsgestina til brúðkaupsins en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið boðsgestunum: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En boðsgestirnir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu.
Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin en boðsgestirnir voru ekki verðugir. Farið því út á stræti og torg og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þið finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.
Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“