Ritningartexti; Jóh 15:12-17
Öll þekkjum við ævintýri. Ævintýri sem gerast í ímynduðum heimum þar sem barbarar ráfa um túndrur, framandi skepnur lúra í dimmum hellum jarðar og jafnvel heilu borgirnar, álfar búa í skógum og hobbitar í holum og magnþrungnir drekar ríkja í háloftunum. Ævintýri þar sem seiðskrattar upphugsa flókið ráðabrugg, froskar breytast í prinsa og dýr og jafnvel húsgögn geta talað. Þar sem klaufar jafnt sem kóngsdætur geta verið aðalsöguhetjurnar og geislandi konungar jafnt sem illar nornir geta stuðlað að framgangi hins illa, eða hins góða.

Ævintýri hafa sín einkenni. Sum eru stutt og einföld og hafa einfaldan boðskap meðan önnur eru rituð í mörgum bókum og spanna marga mánuði og jafnvel ár. Einhver eru sögð frá sjónarhóli hins illa. Þó eiga langflest sameiginlegt að enda vel þrátt fyrir að framgangur sögunnar geti verið þyrnum stráður fyrir aðalsöguhetjuna. Oftar en ekki kemur upp eitthvað vandamál sem aðalsögupersónan stendur frammi fyrir og verður að glíma við og þarf í einstaka tilfellum að leita til óvina sinna því til lausnar.

En þrátt fyrir að það sé nokkuð algengt í ævintýrum þá þarf óvinur aðalsöguhetjunnar ekki endilega að vera önnur manneskja eða kynjavera frá dimmum skúmaskotum veraldarinnar. Óvinurinn þarf ekki að afmarkast við ákveðin landsvæði eða jafnvel tiltekna hluti. Helsti óvinurinn getur verið aðalsöguhetjan sjálf, hennar innri glíma við sjálfan sig, gildi og jafnvel fortíð.

Ævintýri eru keimlík lífi okkar allra og líkt og í ævintýrum er erfiðasta glíma mannsins baráttan sem hann háir við sjálfan sig. Sú glíma er þreytandi og íþyngjandi og svei mér þá ef við upplifum líkt og við bætum á okkur nokkurri vigt.

Glíman getur verið margs konar; glíman við sínar eigin skoðanir, gildi sem eru á skjön við gildi annarra, sú virðing eða óvirðing sem maður ber í sinn eigin garð, og að sjálfsögðu sína eigin fordóma. Allt getur leitt til þess að við upplifum sjálfshatur, sjálfsfyrirlitningu og jafnvel sjálfsafneitun og á þeim tímapunkti má segja að maður sjálfur verði holdgervingur hins illa. Bæði gagnvart okkar eigin líkama sem og hugsunarhætti og tengslum við annað fólk.

Í guðspjöllunum fylgjumst við með lífshlaupi Jesú frá fæðingu á jólanótt til dauða og upprisu á páskum. Hvern sunnudag fáum við að heyra brot af því ævintýri, fáum að slást í för með föruneyti hans og heyra hvað gerist hverju sinni. Út frá hverri frásögu reynum við eftir fremsta megni að læra og skilja betur lífið og tilveruna og eðli og kærleika Guðs.

Jesús ávarpar okkur í guðspjalli dagsins og hvetur okkur til að elska hvert annað alveg eins og hann elskar okkur. Kærleikur Guðs er einstakur kraftur í lífi sérhvers manns og hefur víðtæk áhrif á tilvist hans. Kærleikur Guðs og þau ævintýri okkar sem hann fær hlutdeild í eiga sér stað enn þann dag í dag þrátt fyrir að þau séu ekki alltaf færðar í sögubækur eða annála.

Guð vill taka þátt í því ævintýri sem líf okkar er því hann vill að ævintýri okkar sé öruggt og farsælt. Guð mun vel fyrir sjá í ævintýri okkar og skeytir engu hvort ævintýrið sé stutt eða langt, hvort við séum þorpsfíl eða drottningar eða hvort óvinur okkar sé seiðskratti, ill skepna eða við sjálf. Í þeirri fullvissu felst frelsi kristins manns og sýnilegur kærleikur Guðs til hvers mannsbarns sem fetar ævintýri lífsins.

Viðar Stefánsson, prestur í Vestmannaeyjum

Þá bað Tóbít: Lofaður sé lifandi Guð að eilífu, lofað sé ríki hans. Hann agar en miskunnar einnig, leiðir til heljar niður í jarðardjúp en hrífur einnig úr gereyðingunni. Enginn fær umflúið hönd hans. Þakkið honum, Ísraelsmenn, í augsýn heiðingjanna. Meðal þeirra dreifði hann yður. Þar sýndi hann mátt sinn. Vegsamið hann frammi fyrir öllum lifendum því að hann er Drottinn vor, Guð vor og faðir vor. Hann er Guð um aldir alda. Hann mun hirta yður vegna ranglætis yðar, en hann mun einnig miskunna yður og leiða yður aftur frá þjóðunum öllum sem yður var dreift á meðal.

Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.

Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.