Komið til mín, öll þið sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita yður hvíld. (Matt. 11:28)

Þessi orð eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Í mótbyr og erfiðleikum hef ég leitað skjóls í þessum opna, hlýja stóra faðmi sem býður þreyttum og döprum að koma. Það er erfitt að lýsa því en ein tilraun til þess fyrir mig væri að segja að orðin umfaðmi eins og mjúkt hlýtt teppi sem veita öryggiskennd. Þau eru mörg sem hafa vitnað um hvernig þessi orð verða lifandi og raunveruleg á tímum þegar þreyta, streita, sorg eða kvíði hefur verið að ná yfirhöndinni. Þá kemur Jesús og segir: Komdu til mín, ég skal veita þér hvíld og endurnæringu.

Fyrir allnokkrum árum var ég fulltrúi á kvennavettvangi Lútherska heimssambandi. Um þetta leyti árið 2011 tók ég þátt í Evrópskri ráðstefnu á þeirra vegum sem var haldin í Kraków í Póllandi. Þarna voru saman komin rúmlega 20 konur og þrír karlar að fræðast og ræða stöðu kvenna í Lúthersku kirkjunum í Evrópu. Aðstæður okkar eru mismunandi. Í Austur- Evrópu eru kirkjurnar mjög mótaðar af kommúniskum bakgrunni enda ekki nema rétt rúmlega 25 ár frá falli kommúnismans á þessu svæði. Það er mikill sársauki.  Heimilisofbeldi er stórfellt vandamál, þarna eru götubörn sem kirkjan vinnur með, það er víða fátækt og atvinnuleysi. Sumar kirkjur þrjóskast við að vígja konur til prestsþjónustu þrátt fyrir að þær hafi tilskylda menntun og hæfniskröfur. Það er sárt að hitta þessar systur okkar sem hafa steka köllun til prestsþjónustu en fá ekki tækifæri til þess að svara þeirri köllun. Við fengum heimsókn á fundinn frá pólskum presti, hann gerði ekki boð á undan sér heldur kom inn á fundinn, bað um orðið og reyndi með fátæklegum löngu úreltum rökum að verja þá ákvörðun lúthersku kirkjunnar í Póllandi að vígja ekki konur til prestsþjónustu. Ég fann óþolið vaxa eftir því sem hann talaði lengur. Þarna var líka pólsk kona, djákni, sem sagði okkur frá stórmerkilegu starfi sem hún var að vinna með götubörnum og konum sem búa við heimilisofbeldi. Hún sagði í léttum tóni að það væri gott að vera í kærleiksþjónustunni þar sem konur væru leiðtogar og metnar að verðleikum. En hún var þreytt. Komdu til mín, segir Jesús við hana. Komið til mín segir hún við konurnar og götubörnin og vinnur samkvæmt boði frelsarans og fyrirmyndarinnar. Það er merkilegt og mikilvægt láta orð Jesú bergmála í eftiðum aðstæðum. Komið til mín.

 Við skulum líta okkur nær. Íslenskt samfélag hefur allt frá hruni verðið að gagna í gegnum erfitt tímabil, uppgjör, reiði og nú óttann við að nýtt hrun sé yfirvofandi. Þjóðkirkjan hefur staðið með storminn í fangið. Okkar vandamál eru raunveruleg og hverfa hvorki né minnka í samanburði við önnur samfélög. En það getur verið hollt fyrir okkur að skoða hlutina í samhengi. Fátækt er svo afstæð.

Komið til mín. Hlýja, væntumþykja og kærleikur streyma frá þessum orðum. Tökum þau til okkar.

Barátta fyrir réttlæti og betri heimi er nauðsynleg. En hún kostar. Systur og bræður hætta lífi sínu, með steka réttlætiskennd og vonina um bætt samfélag að vopni. Við þau segir Jesús: komið til mín. Hann þekkir baráttuna. Hann þekkir leiðina. Hann er leiðin. Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið segir hann á öðrum stað. Vöndum okkur á vegferðinni og höfum hugfast að þegar við villumst, lendum í vegleysu eða óþarfa krókaleiðum þá er leiðin til baka greið. Leiðin er upplýst af góðu fólki sem tekur það alvarlega að vera ljós heimsins. Verum djörf í boðuninni. Verum tillitssöm og lifum lífi sem ber þess merki að við trúum því að allar manneskjur eru skapaðar í Guðsmynd. Speglum þau sem verða á vegi okkar í augum Guðs. Réttlæt felst í því að Jesú hefur gert okkur frjáls og jafnrétthá óháð aldri, kyni, stöðu, uppruna og trú.

Gleðjumst, njótum augnabliksins þegar það gefst.

Já, það eru forréttindi að fá að flytja boðskapinn fallega áfram. Komið til mín. Við skulum vera saman í gleði og sorg umvafin kærleika Guðs.

Komið til mín.

Okkur er falið fallegt hlutverk, að vera ljós heimsins, hvorki meira né minna. Okkur er falið að segja við þau sem eru beygð eða jafnvel brotin: Komdu, ég skal hjálpa þér að reisa þig upp aftur. Ég trúi að heilagur andi starfi með okkur og sé hann standa við hliðina, styðja með hlýjum örmum sínum og lýsa upp með nálægð sinni og blessun.

Höf: Sigrún Óskarsdóttir

Gleðjist með Jerúsalem og fagnið í henni,
allir þér sem elskið hana,
fagnið með henni og kætist,
allir þér sem eruð hryggir hennar vegna
svo að þér getið sogið og saðst af huggunarbrjósti hennar,
svo að þér getið teygað og gætt yður á nægtabarmi hennar.
Því að svo segir Drottinn:
Ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti
og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk.
Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni
og þeim hossað á hnjánum.
Eins og móðir huggar barn sitt,
eins mun ég hugga yður,
í Jerúsalem verðið þér huggaðir.

Og ég leit sem glerhaf eldi blandið. Þeir sem höfðu unnið sigur á dýrinu og líkneski þess, og létu töluna sem táknar nafn þess ekki villa um fyrir sér, stóðu við glerhafið og héldu á hörpum Guðs. Þeir sungu söng Móse, þjóns Guðs, og söng lambsins:
Mikil og dásamleg eru verk þín,
Drottinn Guð, þú alvaldi,
réttlátir og sannir eru vegir þínir,
þú konungur aldanna.
Hver skyldi ekki óttast þig, Drottinn, og vegsama nafn þitt?
Því að þú einn ert heilagur,
allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér
því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.

Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.
Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“