Lk 7. 11-17

Það er stórkostlegt undur að Jesús reisti unga manninn upp frá dauðum. Fylgjendur Jesú fengu staðfestinguna á því að Jesús væri í raun sá sem hann sagðist vera: Sonur Guðs.

Kraftaverk eru bæði stór og smá og það er svo margt í heiminum sem við getum undrast yfir og kallað kraftaverk en það sorglega er að við tökum svo sjaldan eftir þessum hversdagslegu undrum. Ljóðið: ,,Á markaðstorgi undranna” eftir pólsku skáldkonuna Wislawa Szymborska lýsir vel þessum hversdagslegu undrum:

Hversdagslegt undur:
Það eiga sér stað svo mörg hversdagsleg undur:

Alvanalegt undur:
Í þögn næturinnar
gelta ósýnilegir hundar. 

Eitt af undrunum:
Léttu og litlu skýi
tekst að skyggja á tunglið. 

Mörg undur í einu:
Tré speglast í vatni
vinstri hluti þess er orðinn að þeim hægri
krónan vex niður á við
og snertir ekki botn
enda þótt vatnið sé grunnt. 

Daglegt undur:
Gola eða kaldi,
þrumuveður með regni. 

Frumundur:
Kýrnar eru kýr. 

Annað ekki lakara:
Þessi garður og enginn annar,
úr þessum kjarna og engum öðrum. 

Undur sem hvorki klæðist kjól né pípuhatti:
Hvítar dúfur sem fljúga upp. 

Undur sem ekki getur kallast annað:
Sólin reis klukkan fjórtán mínútur yfir þrjú í morgun
og mun setjast tuttugu núll eitt. 

Undur sem menn undrast minna en skyldi:
Fingurnir eru að vísu færri en sex,
aftur á móti eru þeir fleiri en fjórir. 

Það er undur að líta í kringum sig:
Veröldin er allsstaðar nálæg. 

Auk þess það undur, eins og allt er að auki:
Það sem ekki er hugsanlegt
má leiða hugann að.

Í ljóðinu undrast skáldkonan yfir kraftaverkum tilverunnar og hún hvetur okkur til að undrast með sér því undur lífsins eru óteljandi og vitja okkar dag hvern.

Lítið í kringum ykkur á hverjum degi, og sjáið hvernig Guð opinberar sig, bæði í hinu stóra jafnt sem smáa. Reynið að taka eftir því stórkostlega sem gerist í ykkar lífi dag hvern. Gefið ykkur tíma til að taka eftir hversdagslegum hlutum sem fara svo oft framhjá okkur. Eins og til dæmis brosi, hlátri eða fallegum orðum. Dagurinn í dag tekur enda og ekkert okkar veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Gefið ykkur tíma á hverjum degi, og reynið, um stund að hætta að hafa áhyggjur af morgundeginum, hættið að horfa fram á veginn og lítið til hliðar, upp eða niður. Sjáið fólkið í kringum ykkur, hvað aðrir eru að gera. Athugið hvort þið sjáið ekki Guð.

 

Í Jobsbók stendur skrifað:

Ég veit að lausnari minn lifir
og hann mun síðastur ganga fram á foldu.
Eftir að þessi húð mín er sundurtætt
og allt hold er af mér mun ég líta Guð.
Ég mun líta hann mér til góðs,
augu mín munu sjá hann og engan annan.
Hjartað brennur af þrá í brjósti mér.

Undur heimsins eru stórkostleg, bæði þau stóru og smáu, en stórkostlegasta undrið og kraftaverkið er það að Guð gjörðist maður í Jesú Kristi og deildi með mannkyninu kjörum þess. Hann gekk á meðal mannanna og varð hluti af hinu hversdagslega lífi. Jesús sá trén speglast í vatninu og dúfu fljúga upp til himins.

Sr. Ingólfur Hartvigsson

Ég veit að lausnari minn lifir
og hann mun síðastur ganga fram á foldu.
Eftir að þessi húð mín er sundurtætt
og allt hold er af mér mun ég líta Guð.
Ég mun líta hann mér til góðs,
augu mín munu sjá hann og engan annan.
Hjartað brennur af þrá í brjósti mér.

Fyrir því bið ég að þið látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum ykkar vegna. Þær eru ykkur til vegsemdar.

Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu, að hann gefi ykkur af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með ykkur til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum ykkar og þið verða rótfest og grundvölluð í kærleika. Mættuð þið því geta skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og fá að sannreyna hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og ná að fyllast allri Guðs fyllingu.
En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum, honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú með öllum kynslóðum um aldir alda. Amen.

Skömmu síðar bar svo við að Jesús hélt til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla og Jesús gaf hann móður hans.
En ótti greip alla og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Spámaður mikill er risinn upp meðal okkar,“ og „Guð hefur vitjað lýðs síns.“
Og þessi fregn um Jesú barst út um alla Júdeu og allt nágrennið.