Friður sé með ykkur öllum

Föstudagurinn langi, dagurinn þegar sonur Guðs deyr og myrkrið, illskan og ofbeldið hafa síðasta orðið. Við heyrum af píslargöngu sem er erfitt að hlusta á, erfitt að upplifa. Í dag er það sársaukinn, þjáningin og andlit sorgarinnar sem við sjáum. Sá sem kemur að dæma lifendur og dauða er sá sem var dæmdur á föstudeginum langa.

Andstæður dagsins í dag og sunnudagsins komandi, Páskadags, eru miklar. Samt sem áður værum við ekki að fagna neinu á páskadagsmorgun ef föstudagurinn langi með allan sinn sársauka, svik, höfnun og dauða, væri ekki líka hluti sögunnar. Upprisan er háð dauðanum. Og við í smæð okkar sem byggjum kjarna trúar okkar á því að sjá og upplifa þegar Jesús gengur í gegnum allt það vonda og erfiða sem hann þurfti að ganga í gegnum. Það er þarna sem Guð okkar sýnir okkur að hann þekkir allan okkar sársauka, söknuð, svik og þjáningu. Þetta er bæði vont og upplyftandi á sama tíma.

Drottinn Guð almáttugur er stórkostlegur, Jesús var svikinn og honum afneitað af sínum nánustu, hann var dæmdur saklaus, píndur og kvalinn, hæddur og afklæddur. Krossfestur. Það er Guð sem er þarna, allan tímann, í algerri niðurlægingu manneskjunnar, hvað skyldi Guð vera að reyna að kenna okkur með þessu. Kannski vill Guð segja okkur eitthvað sem við munum aldrei geta skilið að fullu, að hann vilji taka frá okkur allt sem er vont, sárt, niðurlægjandi, og hatursfullt, taka það frá okkur og til sín til að við getum losnað undan því. Jesús tekur á móti hatri mannanna, en hatar þá ekki á móti heldur þvert á móti, hann svarar hatri með kærleika.

Hann er kvalinn, smáður og hrjáður en reynir ekki að hafa áhrif á líðan annarra, hann reynir ekki að breyta okkur en geldur sjálfur gjaldið fyrir atburðina sem valda óumflýjanlegri umbreytingu á veröldinni og lífi mannkynsins. Við erum svo vön því að hatri sé svarað með hatri, að sársauka sé svarað með sársauka. Það er þannig sem heimurinn okkar virkar. Veröldin okkar og tilvera þar sem við reynum ennþá að leysa deilur með stríði, jafnvel þó við upplifum það aftur og aftur og höfum séð það ótal oft í gegnum mannkynnssöguna að stríð skapa ekki frið. Og samt heyrum við aftur og aftur frásögnina af honum sem deyr á krossinum. Kærleikurinn tapar fyrir dauðanum eitt andartak og sigrar hann þar með, sigrar dauðann og gefur okkur eilíft líf.

Jesús, Guð okkar og faðir, hangir á krossinum, píndur, hrjáður, smáður og kvalinn. Þegar hann segir orðin sem við þekkjum svo vel: Það er fullkomnað..  hefur hann orðið að öllu sem við mannfólkið hræðumst og höfnum. Nakin og blóðstorkinn. Hann hefur orðið að miskunnarlausri, kvalafullri myndlíkingu sem sýnir okkur svart á hvítu, án nokkurs vafa, hvernig við komum fram við hvert annað.

Hann hefur tekið á sig alla synd veraldarinnar til þess að frelsa okkur undan syndinni. Það er hvorutveggja vont og gott að átta sig á þessu. Jesús var krossfestur til að við þyrftum ekki að krossfestast aftur og aftur og einu sinni enn. Hann varð þessi krossfesti sem vildi ekki hefnd, hefðin um að hefnd ali af sér hatur og að dauða sé hefnt með dauða var lögð niður. Nú er því lokið, í dag lýkur því, í dag sigrar vonin.

Á þessum sorgardegi finnum við kærleika Guðs til okkar. Við sjáum þann krossfesta og skiljum hann jafnvel að ákveðnu marki, þennan stórkostlega, berskjaldaða Guð, sem í allri sinni auðmýkt verður sá allra sterkasti. Hann sem gaf líf sitt í kærleika verður að lífi okkar og sársauka. Þannig fullkomnast fagnaðarerindið sem okkur er flutt.

Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu ykkar og hugsanir í Kristi Jesú. Amen

Sr. Fritz Már Jörgensson

Komið, hverfum aftur til Drottins
því að hann reif sundur en mun lækna oss,
hann særði en mun gera að sárunum.
Hann lífgar oss eftir tvo daga,
á þriðja degi reisir hann oss upp,
til þess að vér lifum fyrir augliti hans.
Vér skulum leita þekkingar,
sækjast eftir að þekkja Drottin.
Hann kemur jafn áreiðanlega og morgunroði,
eins og vorskúr sem vökvar jarðveginn.
Hvað á ég að gera við þig, Efraím,
hvernig að fara með þig, Júda?
Tryggð þeirra er eins og morgunþoka,
eins og dögg sem hverfur skjótt.
Þess vegna hegg ég þá með spámönnum,
veg þá með orðum munns míns
og réttur minn mun ljóma sem birta.
Miskunnsemi þóknast mér en ekki sláturfórn
og guðsþekking fremur en brennifórn.

Er við þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum við halda fast við játninguna. Ekki höfum við þann æðsta prest er eigi geti séð aumur á veikleika okkar heldur þann sem freistað var á allan hátt eins og okkar en án syndar. Göngum því með djörfung að hásæti Guðs náðar. Þar finnum við miskunn og náð þegar við erum hjálparþurfi.

Þá seldi hann þeim hann í hendur og bauð að láta krossfesta hann.
Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra hvorn til sinnar handar, Jesú í miðið. Pílatus hafði látið gera yfirskrift og setja á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa áletrun því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.“
Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað.“
Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin:
Þeir skiptu með sér klæðum mínum
og köstuðu hlut um kyrtil minn.
Þetta gerðu hermennirnir.
En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.
Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“
Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.