Kristur lifir!

Nú er sigurhátíð, stærsta hátíð okkar sem erum kristin. Föstudagurinn langi, dánarstund Jesú liðinn, hann búinn að sigra dauðann og er upprisinn!

Það er eitt að sjá eitthvað, annað er að taka eftir því sem við sjáum og enn annað er að meðtaka það og tengja við það.

Við getum séð borð án þess að gefa því gaum, á einum tíma gætum við tekið betur eftir og séð á því óhreinan disk og hnífapör á öðrum tíma gætum við tekið betur eftir og séð hvernig hnífapörin hafa verið sett með ákveðnum hætti á diskinn og við meðtökum hvað það þýðir.

Jóhannes kom að gröf Jesú og sá línblæjurnar einar liggjandi, Pétur tók eftir því að línblæjurnar láu þarna en sveitadúkurinn sem hafði verið vafinn um höfuð Jesú lá ekki með þeim heldur var samanvafinn á öðrum stað.

Þau sem hafa rýnt í þennan texta hafa spurt hvort það hafi haft ákveðna merkingu að vefja höfuðklútinn svona saman, líkt og þegar við gefum til kynna að við séum hætt að borða með því að leggja hnífapörin frá okkur með ákveðnum hætti á diskinn. Mér finnst það áhugaverð spurning því það er ekki fyrr en  Jóhannes kemur inn í gröfina að hann sér samanvafinn höfuðklútinn og meðtekur tíðindin.

Þarna meðtók Jóhannes fagnaðarerindið og sá að áætlun Guðs hafði náð fram að ganga.

Á einu augabragði fóru lærisveinarnir frá mikilli depurð, efa, ótta og örvæntingu yfir í von, sigur og gleði. Jesús hafði verið deyddur á Krossi og var nú upprisinn!

Vörpum áhyggjum okkar til Drottins meðtökum bænasvarið og treystum því að áætlun Guðs mun ná fram að ganga okkur til góðs og honum til dýrðar. Njótum þess að fagna saman því sem felst í upprisunni, að Jesús sigraði dauðann og gaf okkur tækifæri til eilífs lífs með sér.

Díana Ósk Óskarsdóttir, sjúkrahúsprestur.

 

Lofgjörðarlag vikunnar er sálmurinn Because He lives, fluttur af Matt Maher og það er einmitt málið, Hann lifir, Jesús lifir! https://www.youtube.com/watch?v=PBvU7arNhQs

Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,
hann kom mér til hjálpar.
Hann er Guð minn, ég vil vegsama hann,
Guð föður míns, ég vil hylla hann.
Drottinn er stríðshetja,
Drottinn er nafn hans.
Þá tók spákonan Mirjam, systir Arons, trumbu sér í hönd og allar aðrar konur héldu á eftir henni með trumbuslætti og dansi. Mirjam söng fyrir þeim:
Lofsyngið Drottni
því að hann er hátt upp hafinn,
hestum og riddurum
steypti hann í hafið.

Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma að enn var myrkur og sér steininn tekinn frá gröfinni. Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins sem Jesús elskaði og segir við þá: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni og við vitum ekki hvar þeir hafa lagt hann.“
Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn og þeir komu til grafarinnar. Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni. Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn sem verið hafði um höfuð hans. Sveitadúkurinn lá ekki með línblæjunum heldur sér, samanvafinn á öðrum stað.
Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði. Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum. Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín.

Fyrst við erum umkringd slíkum fjölda votta léttum þá af okkur allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóð það skeið sem við eigum fram undan. Beinum sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis af því að hann vissi hvaða gleði beið hans og hefur nú sest til hægri handar hástóli Guðs. Virðið hann fyrir ykkur sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þið þreytist ekki og látið hugfallast.