Kvöldmáltíðin sem framreidd var á skírdagskvöldi fyrir rétt um tvö þúsund árum síðan verður endurtekin um allan heim i kvöld. Jesús var svikinn þess nótt. Þessa sömu nótt og hann bauð okkur að minnast sín um alla tíð með því að endurtaka á táknrænan hátt þessa síðustu kvöldmáltíð sem hann átti í lífi sínu hér á Jörð. Hann bauð að við skyldum hver og einn prófa okkur áður en við etum af brauðinu og drekkum af bikarnum.

Jesús Kristur er brauð lífsins, hann hefur gefið okkur líf með því að gefa líf sitt því hann vill að við séum hjá sér að eilífu. Við mannfólkið viljum njóta þess sem boðið er upp á, það er stundum sagt að það sé í mannlegu eðli að taka of mikið, að fyllast græðgi og kunna sér ekki mörk. En það er líka í mannlegu eðli að sýna kærleika og elsku.

Um þessar mundir er óhætt að segja að flestir lifi við kost sem hvorki mótast af græðgi né eyðslu. Við munum heldur ekki ganga til kvöldmáltíðar með Jesú Kristi eins og við erum vön. En við gætum dregið okkur í hlé, íhugað orð meistarans og velt fyrir okkur hvort við viljum þiggja það sem hann bíður okkur. Bikar blessunarinnar og brauð lífsins. Lífsvegurinn frá frelsaranum sem á endanum getur leitt okkur til eilífs lífs án þess að nokkur endurgjöf  þurfi að koma á móti. Við bjóðum Jesú Kristi í líf okkar á sama hátt og hann býður okkur til lífsgöngunnar sem við förum, eftir veginum sem okkur er gefinn.

Jesús sýndi auðmýkt sem ekki er sjálfsögð af hálfu þess er allt getur gert. Hann sýndi kærleika og elsku til allra, líka til þeirra er hann vissi að myndu ýmist svíkja hann eða afneita honum. Þjónustuhlutverkið er skýrt og hvernig getum við sem lifum í samfélagi sem mótað er af kristinni trú annað en sinnt meðbræðrum okkar.

Við gætum spurt okkur hvort við séum tilbúin til að standa við það sem okkur er boðið, að velja hið góða fram yfir hið illa. Ganga þann veg sem bíður gjafir, kærleika og þjónustu í auðmýkt og fórnfýsi. Taka ábyrgð og leggja til samfélagsins eins og Jesús bauð okkur að gera með útskýringu sinni á fótaþvottinum. Það má spyrja hvort við viljum taka ákvörðun um að standa upp og ganga þann veg að börnin okkar og barnabörn geti fetað lífsveginn á heilbrigðri gefandi jörð. Eða hvort við viljum ganga veg glötunarinnar sem felur í sér eyðileggingu og slæm örlög, eins og vegurinn sem Júdas Ískaríot gekk, hafði í för með sér. Ég trúi að flestir vilji velja fyrri kostinn og gera það sem þarf að gera.

Fögnum nú og göngum til heilagrar máltíðar með frelsara vorum. Etum brauðið okkar í dag og drekkum af bikar okkar í minningu hans og viðhöldum þannig samfélagi, gildum og hefðum kristinna manna. Fögnum hinum nýja sáttmála í gleði með Drottni sem veitir okkur náð og eilíft líf fyrir trúna á hann.

 

Séra Fritz Már Jörgensson

 

Daníel tók til máls og sagði: Lofað sé nafn Guðs um aldir alda því að hans er viskan og mátturinn.

Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“

Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk.
Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi, syni Símonar Ískaríots, að svíkja Jesú. Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs. Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig.