Ég er slakur að njóta og lifa
Fagur dagur já góður ég finn það
Ég er slakur að njóta og lifa
Fagur dagur já góður ég finn það.
(JóiPé og Chase // Ég vil það)

Leyfirðu þér að slaka, njóta og lifa? Við á Íslandi toppum flesta lista m.v. höfðatölu. Stundum gefur það okkur tilefni til að grobba okkur, en það er lítið gleðiefni hvað kvíði og vanlíðan barna og unglinga hefur farið stigvaxandi síðustu ár. Við viljum alltaf leita að ástæðu, við erum bara forrituð þannig.
Sálfræðingar sem rannsaka kvíða barna hafa sett fram ýmsar tilgátur tengdar skjátíma, dvínandi samveru með foreldrum og aukinni samfélagsmiðlanotkun. Einhverstaðar liggur rótin, og það virðist vera tilgáta fagfólks að einhverstaðar tökum við ákvarðanir, veljum hlutskipti sem getur leitt okkur í sálrænar ógöngur, valdið kvíða, áhyggjum, vanlíðan og tengslaleysi.

Í guðspjalli dagsins heyrum við sögu sem ég átti ógurlega erfitt með að skilja þegar ég heyrði hana fyrst. Ég er alinn upp við að fólk eigi að skiptast á og deila verkum, því átti ég erfitt með að melta og skilja að það sé einhver sanngirni í að Marta erfiði og vinni og þjóni á meðan María fái að slaka á, upplifa friðinn og njóta nærveru Krists.

Það sem textinn segir hinsvegar við mig í dag er að ég þurfi ekki alltaf að reyna að þóknast öllum, og að það að gefa sér rými til að hlaða andlega batteríið og hlusta eftir því sem Guð hefur að segja sé nokkuð sem sjálfur Jesús segir nauðsynlegt.

Kristur benti Mörtu á að hafsjór valmöguleika væri í boði, hún valdi að fara að þrífa og þjóna, hún valdi strit og áhyggjur þegar hún hefði getað valið frið og andlega næringu. Stundum þurfum við að horfast í augu við að eitthvað sem við höfum sjálf valið að gera er að valda okkur kvíða og áhyggjum. Þegar við áttum okkur á því getum við valið að breyta. Þá getum við byrjað að velja það sem gefur frið og færir jafnvægi í lífið.

Í öllu amstri og mitt í áhyggjum hversdagsins er gott að muna að góða hlutskiptið er að slaka, njóta og lifa – að gefa okkur tíma og rými til að hlusta eftir því sem Guð hefur að segja við okkur, hvern dag.

Megi friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveita huga okkar og hjörtu í Kristi Jesú. Amen.

Sindri Geir Óskarsson

Þar munt þú leita Drottins, Guðs þíns, og þú munt finna hann ef þú leitar hans af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni.
Í neyð þinni mun allur þessi boðskapur ná eyrum þínum, á komandi tímum munt þú snúa aftur til Drottins, Guðs þíns, og hlýða boðum hans. Því að Drottinn, Guð þinn, er miskunnsamur Guð. Hann bregst þér ekki og lætur þig ekki farast. Hann gleymir ekki sáttmálanum við feður þína sem hann staðfesti með eiði.

Ekki segi ég þetta vegna þess að ég hafi liðið skort því að ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.

Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur er María hét og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: „Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“
En Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“