Friður Guðs sé með okkur öllum.

Nú í vikunni sem leið voru sumarsólstöður, lengsti dagur ársins og nú hallar sumri. Sumarið hér sunnan heiða hefur verið yndislegt en því miður er kannski ekki hægt að bera veðrinu alveg sömu sögu, hitastigið er með lægra móti og regnið með meira móti. Þannig er þetta með fullkomið sköpunarverk Guðs, sem fylgir sveiflum sem við mannfólkið eigum stundum erfitt með að skilja. Við höfum fengið að njóta þess í sumar að sjá sköpunarverkið blómstra og nýtt líf vakna um allar grundir. Á sama tíma berast fréttir af því að hlýnun jarðar sé að gerast hraðar en svörtustu spár sáu fyrir, ísinn á suðurskautinu bráðnar með ógnarhraða sem aftur mun ógna lífríkinu á norðurslóðum. Við sem búum í þessu landi náttúrunnar berum þarna mikla ábyrgð þótt lítil séum.

Guð lét okkur tæplega sköpunarverk sitt í hendur til að við gætum gert við það eins og við vildum án ábyrgðar, án þess að þurfa að hugsa um afleiðingar gjörða okkar. Og það er undarlegt til þess að hugsa að við íslendingar skulum selja útblásturskvóta landins öðru nafni mengun til annarra landa af því við nýtum okkur ekki þennan kvóta, í stað þess að vera hreykin af því að nýta ekki nema hluta hans þá erum við merkt því að nýta útblásturinn okkar til mengunar með erlendum kolum og kjarnorku. Guð gerði okkur að ráðsmönnum sínum, í því felst að við höfum eingöngu fengið lánsrétt að auðlindum jarðar, þetta felur aftur í sér að það er okkar ábyrgð að skila því sem við höfum að láni til baka í betra ástandi en það var þegar við fengum það að láni. Getum við það? Nei, líklega ekki en við getum tekið nauðsynleg skref í þá átt að afkomendur okkar geti skilað vistkerfinu, auðlyndunum, náttúrunni fallegu til baka í betra ásigkomulagi en þegar þeir tóku við ábyrgðinni frá foreldrum sínum.

Við Íslendingar erum ríkir af vatni en það er meira en hægt er að segja um margar aðrar þjóðir, nú þegar eru nokkrar milljónaborgir í veröldinni á mörkum þess að verða vatnslausar. Vatnið er okkur lífsnauðsynlegt, eðli vatnsins er að leita niður á við og safnast saman í lægsta punkti. Kannski má líkja þessu við það þegar Guð sendi Jesú til okkar mannfólksins. Guð er miðlægur í öllu rétt eins og vatnið. Vatnið hellist yfir okkur eins og Guð þegar hann tekur á móti okkur í skírninni: Jesús stígur sjálfviljugur ofan í vatnið og samhæfir við okkur manneskjurnar. Guð gaf mannfólkinu frjálsan vilja sem hefur getu, hugmyndaflug og hæfni til að skapa nýtt og jafnramt til að laga það sem aflaga hefur farið.

Guð gefur og skapar nýtt alla daga, hann gefur okkur hvern nýjan dag að gjöf, hann gefur okkur að fá að sjá börnin okkar vaxa úr grasi, þessar yndislegu gjafir sem Guð hefur gefið okkur og við berum ábyrgð á, rétt eins og við berum ábyrgð á vistkerfinu, náttúrunni og allri fallegu jörðinni okkar.

Gefum til baka, gefum til sköpunar Guðs sem færir okkur stórkostlegar gjafir alla daga. Við sem höfum lífið að láni getum með einu skrefi í einu gefið vistkerfinu þann kærleika sem það þarf. Rétt eins og við vitum að Guð gerði ekki mistök þegar hann skapaði okkur, vitum við að allt fylgir áætlun Guðs og nú er þessi tími runninn upp. Tími til að framkvæma í þágu jarðarinnar, tími til að biðja fyrir umhverfinu, biðja til Guðs sem við vitum að heyrir bænir okkar og bænheyrir okkur þegar á þarf að halda.

Drottinn blessi himininn sem vakir yfir okkur, Drottinn blessi jörðina sem við göngum á. Drottinn blessi fortíðina sem er að baki og það sem blasir við okkur, framtíðina. Amen

Sr. Fritz Már Jörgensson

Gott er að lofa Drottin,
lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,
að kunngjöra miskunn þína að morgni
og trúfesti þína um nætur

Þú gleður mig, Drottinn, með dáðum þínum,
ég fagna yfir verkum handa þinna.

en þú, Drottinn, ert eilíflega upphafinn.

Þið eruð öll börn ljóssins og börn dagsins. Við heyrum ekki nóttunni til eða myrkrinu. Sofum því ekki eins og aðrir heldur vökum og verum allsgáð. Því að þau sem sofa, sofa um nætur og þau sem drekka sig drukkin, drekka um nætur.

Nú kom sá tími, að Elísabet skyldi verða léttari, og ól hún son. Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu, hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni, og samfögnuðu henni.
Nú kom sá tími að Elísabet skyldi verða léttari og ól hún son. Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni og samfögnuðu henni.
Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið á föður sínum. Þá mælti móðir hans: „Eigi skal hann svo heita heldur Jóhannes.“
En þeir sögðu við hana: „Enginn er í ætt þinni sem heitir því nafni.“ Bentu þeir þá föður hans að hann léti þá vita hvað sveinninn skyldi heita.
Hann bað um spjald og reit: „Jóhannes er nafn hans,“ og urðu þeir allir undrandi. Jafnskjótt laukst upp munnur hans og tunga. Hann fór að tala og lofaði Guð. En ótta sló á alla nágranna þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu. Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: „Hvers má vænta af þessu barni?“ Því að hönd Drottins var með honum.

En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift:

Og þú, sveinn, munt nefndur verða spámaður Hins hæsta
því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans
og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu
sem er fyrirgefning synda þeirra.
Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors.
Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
og lýsa þeim sem sitja í myrkri og skugga dauðans
og beina fótum vorum á friðar veg.
En sveinninn óx og varð þróttmikill í anda. Hann dvaldist í óbyggðum til þess dags er hann skyldi koma fram fyrir Ísrael.