Það er alltaf sérstök tilfinning að standa fyrir framan hillurnar í bakaríinu og horfa á úrvalið af brauðum af öllum stærðum og gerðum. Að ég tali nú ekki um að vera í eldhúsinu heima hjá sér og taka nýbakaða brauðið úr ofninum og finna ilminn af því sem leggur um allt húsið. Brauð er einn af þessum hversdagslegu þáttum tilveru okkar sem hefur þó meiri merkingu ef að er gáð. Brauðið er tákn fyrir grunnþarfir okkar, þá þætti sem við þörfnumst til að lifa mannsæmandi lífi. Við eigum orð í tungumálinu sem sýna fram á þessa djúpu merkingu. Við tölum um brauðstrit um þá vinnu sem þarf að leggja af mörkum til að hafa í sig og á og við tölum um að brauðfæða í þeirri merkingu að sjá um eða ala önn fyrir.

Á dögum Jesú var brauðið enn mikilvægara og því sterkara tákn en það er í dag. Í dag er meira segja of mikið brauðát talið óheilsusamlegt og sumir sneiða algjörlega hjá því. Hjá samtíðarfólki Jesú var brauðið hinsvegar aðaluppistaðan í máltíðinni. Okkur þætti skrítið að bera fram máltíð fyrir gesti sem stæði aðallega saman af brauði og grænmeti en á dögum Jesú hefði það verið undarlegt að bera fram máltíð sem hefði ekki brauð sem aðaluppistöðuna.

Við höfum öll ákveðnar grunnþarfir og þær mikilvægastu eru að fá að borða og drekka. Við þurfum líka öryggi og skjól og tengsl við aðrar manneskjur. Við sem búum í þeim hluta heimsins þar sem nóg er af mat og drykk og njótum öryggis, hugsum mikið um að fá nóg af öðrum lífsins gæðum. Mikill hluti tíma okkar fer í vinnu og að eignast hluti. Síðan verjum við drjúgum tíma í að sinna öllu saman, svo miklum tíma að það er líkt og við höldum að það eitt skipti öllu máli.

Jesús minnir okkur á að til séu aðrar mikilvægar þarfir sem þurfi að sinna. Við þurfum að nærast andlega. Því miður þá hættir okkur til að gleyma því. Við förum að upplifa skort jafnvel þó að við eigum nóg af öllu. Það er einhver innri óróleiki, óljós tilfinning um að eitthvað vanti í líf okkar, innra hungur sem bærir á sér annað slagið. Sérstaklega þegar hægist um og við erum ein með sjálfum okkur. Við ætlum að gefa okkur tíma seinna til að sinna því en svo gleymist það. Tilfinningin dofnar í erli daganna og áður en við vitum af hefur tíminn flogið frá okkur.

Jesús sagði um sjálfan sig:  „Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir. Jóh. 6:35

Jesús er eins mikilvægur fyrir okkur og líkamleg fæða er fyrir líkamann. Við þurfum á honum að halda. Innra með okkur hungrar okkur eftir brauðinu sem Guð einn getur gefið og er Jesús sjálfur.

Þegar við leitum til Jesú og biðjum til hans þá fáum við andlega næringu sem við þurfum á að halda. Í bæninni styrkist trú okkar á hann og við finnum hvernig við fyllumst krafti til að takast á við tilveruna. Og það eina sem við þurfum að gera er að þiggja. Þegar við tökum á móti hinu daglega brauði í Jesú lærum við að hvíla í Guði. Með tímanum áttum við okkur á því að Jesús sér okkur alltaf fyrir því sem við þurfum en ekki alltaf því sem við viljum. Því hann þekkir okkur svo vel og gefur okkur aðeins það sem er okkur fyrir bestu.

Jesús kemur til okkar og mætir okkur þar sem við erum. Hann hvetur okkur til að treysta sér. Þiggjum það sem hann vill gefa okkur. Tökum á móti honum, brauði lífsins og finnum hvernig hann gefur okkur allt sem við þurfum raunverulega á að halda.

Sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir

Hafðu hugfast hvernig Drottinn, Guð þinn, leiddi þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni. Hann gerði það til að beygja þig og reyna þig, til þess að komast að raun um hvað þú hafðir í huga, hvort þú hygðist halda boðorð hans. Hann auðmýkti þig með hungri en gaf þér síðan manna að eta sem hvorki þú né forfeður þínir þekktu. Hann vildi gera þér ljóst að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði heldur hverju því sem fram gengur af munni Drottins.

Réttlætt af trú höfum við því frið við Guð sakir Drottins vors Jesú Krists. Hann hefur veitt okkur aðgang að þeirri náð sem við lifum í og við fögnum í voninni um dýrð Guðs. En ekki aðeins það: Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.

Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum því þeir sáu þau tákn er hann gerði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. Þetta var laust fyrir páskahátíð Gyðinga.
Jesús leit upp og sá að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?“ En þetta sagði hann til að reyna hann því hann vissi sjálfur hvað hann ætlaði að gera.
Filippus svaraði honum: „Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.“ Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?“
Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. Þegar fólkið var orðið mett segir Jesús við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum svo ekkert spillist.“ Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm sem af gengu hjá þeim er neytt höfðu.
Þegar menn sáu táknið, sem hann gerði, sögðu þeir: „Þessi maður er sannarlega spámaðurinn sem koma skal í heiminn.“ Jesús vissi nú að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gera hann að konungi og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.