Þegar ég horfi á himininn, verk handa [ þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar, hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans, og mannsins barn að þú vitjir þess? (Slm. 8.4-5)
Séð úr mikilli fjarlægð er jörðin, eins og rykkorn. Þetta er önnur mynd en blasti við, þegar fólk vissi ekki betur en að það sjálft væri nafli alheimsins. Þá var samræmi í öllu, einhver glóra og skipan sem byrjaði í sálu einstaklingsins og opnaðist svo eftir hverju himinhvolfinu á fætur öðru eftir því sem ofar dró. Smám saman færðumst við fjær miðjunni, skiptum æ minna máli í tíma og rúmi og það sem meira er, eftir því sem þekking okkar hefur vaxið, þeim mun fleiri verða spurningarnar. Nú er okkur betur ljós óvissan, vanþekkingin, þær endalausu áskoranir sem bíða mannshugans um ókomna tíð
Við getum spurt okkur hvort það er ekki blekking að leita tilgangs, þegar það blasir við okkur hversu smá við erum og virðumst áhrifalaus í hinu stóra samhengi. Því verður hver að svara fyrir sig. Í mínum huga er hið kalda tóm og blinda lögmál miklu frekar hvatning til íhugunar yfir hinum stóru spurningum. Eða væri alheimurinn ekki miklu fátækari ef við legðum hendur í skaut og hættum að velta þeim málum fyrir okkur? Þá verður merkingin „umkomulaus” eins og Páll heitinn Skúlason heimspekingur komst að orði. Ef heimurinn er slík óreiða, hversu mikilvægt er þá við leitum tilgangs og merkingar? Hver gerir það annars?
Í mínum huga er þetta lífsverkefni hverrar manneskju. Í kirkjunni mætum við einstaklingum sem eru með slíkar spurningar á vörunum. Við hlustum á svör þeirra, vangaveltur og gefum því öllu gaum. Og við flytjum þann boðskap að líf þess sem hlustar á rödd Guðs sé bæði tilgangsríkt og merkingarbært. Guð talar til okkar frá síðum Biblíunnar og í gegnum samvisku okkar og hjarta.
Biblían á erindi til fólks sem rýnir út í sortann og reynir að fá botn í lífið. Í henni er sú hugmynd boðuð að innsta eðli Guðs sé okkur með öllu hulið og enginn geti sett sig inn í óravíddir þess leyndardóms. Sú uppgötvun held ég líka að hafi fylgt hverjum sigri vísindanna þar sem þau hafa rýnt í ráðgátur heimsins. Þau skilja okkur blessunarlega eftir með fleiri hugarbrot og enn stærri og flóknari mynd af þessu stóra samhengi sem við erum hluti af.
Samkvæmt Biblíunni opinberar Guð sig í kærleiksboðskap Krists þar sem okkur er kennt að elskan til Guðs birtist í kærleikanum til náungans. Og eins og hið forna skáld horfum við upp í himininn og spyrjum okkur hversu ótrúleg sú dýrð er, hve leyndardómarnir eru margir og magnaðir og hversu mikil sú auðlegð er að fyllast undrun, lotningu og tign yfir sköpunarverkinu. Í trúnni mætum við þeim hliðum tilverunnar og minnum okkur jafnframt á það hversu ríkur tilgangur okkar er. Við erum hugsanlega það eina í ómælisvíddum alheimsins sem kann að elska, finna til og trúa.
Skúli Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju
Nei, sú fasta sem mér líkar
er að leysa fjötra rangsleitninnar,
láta rakna bönd oksins,
gefa frjálsa hina hrjáðu
og sundurbrjóta sérhvert ok,
það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
hýsir bágstadda, hælislausa menn
og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.
Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði
og sár þín gróa skjótt,
réttlæti þitt fer fyrir þér
en dýrð Drottins fylgir eftir.
Þá muntu kalla og Drottinn svara,
biðja um hjálp og hann mun segja: „Hér er ég.“
Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
hættir hæðnisbendingum og rógi,
réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
og seður þann sem bágt á,
þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.
Drottinn mun stöðugt leiða þig,
seðja þig í skrælnuðu landi
og styrkja bein þín.
Þú munt líkjast vökvuðum garði,
uppsprettu sem aldrei þrýtur.
Menn þínir munu endurreisa hinar fornu rústir,
þú munt reisa við undirstöður fyrri kynslóða
og þú verður nefndur: múrskarðafyllir,
sá sem reisir byggð úr rústum.
Þótt ég talaði tungum manna og engla
en hefði ekki kærleika
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
Og þótt ég hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.
Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum
og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur
en hefði ekki kærleika,
væri ég engu bættari.
Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gera ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það þótt þér heilsið bræðrum yðar og systrum einum? Það gera jafnvel heiðnir menn. Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.