Í Guðspjalli síðasta sunnudags kirkjuársins stendur: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.“ Þetta eru orð frá Jesú.  Við áramót er oft talað um að gott sé að líta um öxl, líta yfir farinn veg.

Nú eru framundan kirkjuáramót.  Síðasti sunnudagur kirkjuársins í dag, 24. nóvember og næsta sunnudag er 1. sunnudagur í aðventu sem markar jafnframt upphaf nýs kirkjuárs.  Því fer vel á að líta um öxl í okkar trúarlífi.  Hvernig hefur trúarlíf mitt verið á árinu.  Hef ég vanrækt bænalífið?  Hef ég gefið lítinn eða mikinn gaum að Guðs orði?

Þetta er ekki sagt til að sá inn einhverri sektarkennd heldur til að minna á að það er hollt fyrir okkur að líta til baka um leið og við tökum fagnandi á móti nýju kirkjuári.  Þetta eru mögnuð orð Jesú hér að ofan.  Hann setur þarna samhengi milli þess að hlusta á orð hans og trúa þeim sem sendi hann annars vegar og hins vegar eilífs lífs.

Hvað er eilíft líf?  Þetta höfum við nú oft heyrt talað um.  Við játum trú á eilíft líf í trúarjátningunni.  Hvað er átt við með þessu?  Er þetta bara eitthvað sem hefst að loknu þessu jarðlífi?  Þýðir þetta að við verðum endalaust gömul? Jóhannes Guðspjallamaður segir um eilífa lífið í 17. kaflanum: „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“  Hið eilífa líf snýst um samfélag.

Samfélag við Guð sem hefst hér og nú og nær fram yfir gröf og dauða.  Og Guði kynnumst við í gegnum Guðs orð, Biblíuna.  Við tökum á móti Guðs orði, heyrum orð Krists með því að lesa í Biblíunni.  Við kirkjuáramót er tilvalið að setja sér markmið.  Markmið sem miða að því að kynnast Guði betur, kynnast Jesú betur, kynnast Biblíunni betur.  Það getur vissulega verið flókið að lesa í Biblíunni ef maður ætlar að lesa hana eins og hverja aðra bók, frá fyrstu blaðsíðu og til enda vegna þess að Biblían er ekki ein bók heldur bókasafn.  Safn rita frá ólíkum tímum, skrifuðum við ólíkar aðstæður.

En rauði þráðurinn er sá að Guð elskar mennina, mennirnir snúa baki við Guði, Guð endurnýjar sambandið við mennina og svo framvegis. Tilvalið er að velja sér eitt Guðspjall og lesa það frá upphafi til enda.  Þannig fæst ágætis yfirsýn yfir ævi og starf Jesú Krists.  Þar er að finna margar af perlum biblíunnar, þekktustu dæmisögurnar og frásagnirnar af samskiptum Jesú við samferðafólk sitt. Þar er hvert gullkornið á fætur öðru.  Þar er bæn Drottins, Faðir vorið, að finna og þar má finna helstu atriði í siðferðisboðskap kristinnar trúar.

Enginn verður svikinn af því að lesa í biblíunni.  Orðfæri er sumum framandi og stundum erfitt að átta sig á textanum.  En við megum ekki láta það draga úr okkur kjarkinn.  Önnur orð tala þeim mun sterkar til okkar því Biblían hefur talað til fólks um aldir, snert við fólki og verið lykillinn að því eilíaf lífi sem heitið er sem samfélaginu við Guð og samfélaginu við Jesú Krist.  Guð gefi ykkur góðar stundir.

Sr. Sigurður Grétar Sigurðsson

Maður, af konu fæddur,
lifir fáa ævidaga, fulla af eirðarleysi.
Hann vex eins og blóm og visnar,
hverfur sem hvikull skuggi.
Samt hefurðu á honum vakandi auga
og kallar hann fyrir dóm þinn.
Hver getur leitt hreint af óhreinu?
Ekki nokkur maður.
Hafi ævidagar hans verið ákvarðaðir
og tala mánaða hans ákveðin af þér,
hafirðu sett honum mörk sem hann kemst ekki yfir,
líttu þá af honum svo að hann fái hvíld
og geti glaðst yfir degi sínum eins og daglaunamaður.

En þetta eitt má ykkur ekki gleymast, þið elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við ykkur þar eð hann vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar.
En dagur Drottins mun koma sem þjófur og þá munu himnarnir líða undir lok með miklum gný, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. En eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins og þeir sem heyra munu lifa. Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm því að hann er Mannssonur.