„Sú þjóð, sem í myrkri gengur,
sér mikið ljós.
Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna
skín ljós.

Því að barn er oss fætt,
sonur er oss gefinn.“

 

Þessi orð úr spádómsbók Jesaja segja fyrir um fæðingu Jesú Krists, og eru sögð mörg hundruð árum fyrir atburðina í Betlehem.

Í Jóhannesarguðspjalli lesum við svo um ljósið sem kemur í heiminn – já jólaguðspjall Jóhannesar er nefnilega ekki upptekið af fjárhirðum, vitringum, stjörnu eða jötu. Heldur segir það okkur frá því að „hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.“
Í Jesú Kristi kemur Guð sjálfur í heiminn.

Við vitum að ljósið er forsenda lífsins.
Í náttúrunni er því háttað þannig að ljós breytist í orku.
Já, allt líf á jörðinni á rætur sínar að rekja til ljóstillífunar; ferlið sem fær plöntur og tré til að vaxa og framleiða súrefni sem við þörfnumst til að anda.
Og ljóstillífun er háð sólinni. Þess vegna segjum við að sólin sé uppspretta lífsins.

 

Og líkt og sólin er uppspretta lífsins, þá er hún einnig tákn um Guð. Hin eilífa sól.
Það er ekki að ástæðulausu að kirkjualtarið er í austurenda kirkjubyggingarinnar.
Það er ekki tilviljun að við jarðsetjum ástvini okkar með ásjónuna á móti austri.
Því það er einmitt þar sem sólin kemur upp á hverjum morgni. Tákn hins eilífa Guðs sem gefur okkur ljósið, já Guð sem gefur okkur lífið.

Líkt og sólin er uppspretta lífsins, er Guð uppspretta góðvildar.

Ljós Guðs er uppspretta vináttunnar.
Ljós Guðs er uppspretta ástarinnar, kærleikans og umhyggjunnar.
Já, Guðs ljós er uppspretta okkar andlega lífs,
og þegar við leyfum Guði að búa í okkur þá á sér stað andlegur vöxtur.
Líkt og grænar plöntur vaxa í sólarljósinu, þá vöxum við og þroskumst í ljósi Guðs og kærleika hans.

 

Leyfðu ljósi Jesú Krists að lýsa í þínu hjarta.

Gleðilega hátíð.

 

Lofgjörðarlag vikunnar að þessu sinni er í flutningi Casting Crowns og heitir Make Room Áttu rúm í hjarta þínu fyrir Guð? Kom eins og þú ert https://www.youtube.com/watch?v=iQHgI6D2nGg&list=RDMMdiQPE7lYNsQ&index=8

 

Sr.Gunnar Einar Steingrímsson
Sóknarprestur í Laufásprestakalli

Sökum Síonar get ég ekki þagað
og vegna Jerúsalem ekki verið hljóður
fyrr en réttlæti hennar brýst fram eins og ljómi
og hjálpræði hennar logar sem kyndill.
Þjóðirnar munu sjá réttlæti þitt
og allir konungar dýrð þína,
þér verður gefið nýtt nafn
sem munnur Drottins ákveður.
Þú verður vegleg kóróna í hendi Drottins
og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns.

Svo sannarlega sem Guð er trúr: Það sem ég segi ykkur er ekki bæði já og nei. Sonur Guðs, Jesús Kristur, sem við höfum prédikað á meðal ykkar, ég, Silvanus og Tímóteus, var ekki bæði „já“ og „nei“ heldur er allt í honum „já“. Því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru þá lætur hann Jesú Krist staðfesta þau með „jái“. Þess vegna segjum við með honum amen Guði til dýrðar. Það er Guð sem grundvallar trú okkar og ykkar á Kristi og hefur smurt okkur. Hann hefur sett innsigli sitt á okkur og gefið okkur anda sinn sem tryggingu í hjörtum okkar.

En á þeim dögum tók María sig upp og fór með flýti til borgar nokkurrar í fjallbyggðum Júda. Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu. Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar og Elísabet fylltist heilögum anda og hrópaði hárri röddu: „Blessuð sért þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu. Sæl er sú sem trúði því að rætast mundi það sem Drottinn lét segja henni.“