Ein af mínum uppáhaldsplöntum er ljósberinn (Viscaria Aplina).

Ljósberinn vex víða, virðist ekki gera miklar kröfur um vaxtarstaði, því hann er að finna á berangursmelum, grasbölum, á láglendi og allt upp í 950 metra hæð yfir sjávarmál.

Ljósberinn vex stakstæður, eitt og eitt blóm hér og þar.

Ég gleðst alltaf innilegar þegar ég geng fram á ljósberann og bleikrauð blómkrónan blasir við mér.

En af hverju?

Jú, það er eins og þessi planta brosi við mér í hvert sinn sem ég geng fram á hana, oftar en ekki þar sem fátt annarra blómplantna er að finna.

Og þegar ég uppgötvaði nafnið á blóminu þá varð hrifning mín enn meiri.

 

Ljósberinn minnir mig alltaf á alla ljósberana í lífi mínu, ljósberana sem hafa glatt mig, umlykið mig, minnst mín í bænum sínum, umvafið mig kærleika og elsku.

 

Þegar Jesús kvaddi lærisveinana sagði hann þeim að hann yrði með þeim alla tíð og að hann myndi senda hjálparann til þess að minna á allt það sem hann hefði kennt þeim.

 

Jesús er með okkur alla daga.  Hann birtist okkur í margskonar myndum, ekki bara í einhverri staðalmynd sem við höfum fest í huga okkar.  Nei, við sjáum ekki Jesú.

Við finnum hann, finnum nærveru hans, finnum leiðsögn hans.  Í samtali okkar við hann í bænum okkar eða þegar við leggjum fram erfið viðfangsefni, finnum við að hann er sproti okkar og stafur og á erfiðustu stundunum tekur hann okkur í fangið og ber okkur yfir að bakka vonarinnar.

 

Ó, já, ég er svo óendanlega þakklát fyrir alla ljósberana sem orðið hafa á leið minni.  Ég verð að sætta mig við það að geta aldrei þakkað þeim öllum en vonandi tekst mér að bera ljósið áfram og minna á allt það sem Jesús kenndi okkur í samskiptum okkar við náungann.

 

Og með orðum Gunnars Gunnarssonar úr Aðventu:  “Þakkir þeim er þakkir ber…”

 

Séra Lára G. Oddsdóttir fyrrverandi sóknarprestur

 

Frá og með deginum í dag mun Netkirkja bjóða upp á þá nýjung að deila með lesendum okkar kristilegri tónlist til uppörvunar með hugleiðingu vikunar. Tónlist vikunar að þessu sinni er með flytjendunum for KING & COUNTRY. Hér flytja þau lagið TOGETHER en hvernig sem aðstæður okkar eru þá erum við aldrei ein: https://www.youtube.com/watch?v=lR1Hk0FVi_k&fbclid=IwAR0rOUhhfvr7wNE5k-Xwg0wU762RjCUyBDhDvIIIIUSG-cwcEjJZBrpn9og

Lofsyngið himnar, fagna þú jörð,
þér fjöll, hefjið gleðisöng
því að Drottinn hughreystir þjóð sína
og sýnir miskunn sínum þjáðu.
En Síon segir: „Drottinn hefur yfirgefið mig,
Guð hefur gleymt mér.“
Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu
að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
Og þó að þær gætu gleymt
þá gleymi ég þér samt ekki.
Ég hef rist þig í lófa mér,

Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.
Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!
Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.

„Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð“. Beygið ykkur því undir Guðs voldugu hönd til þess að hann upphefji ykkur á sínum tíma. Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.
Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Standið gegn honum stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systur um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun Guð, sem veitir alla náð og hefur í Kristi kallað ykkur til sinnar eilífu dýrðar, sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug. Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.