Það er órjúfanlegur hluti af jólahaldi okkar að minnast barnsins litla í Betlehem. Barnsins sem kom í heiminn í fjárhúsi, óvelkominn, lagðist á flótta frá heimalandi sínu, sonur innflytjenda, fátækra foreldra og lifði allt sitt líf á jaðri samfélagsins. Sjaldan velkominn annarsstaðar en hjá þeim sem líka upplifðu sig á jaðrinum, þeim fátæku og veiku, þeim sem litið var niður á og höfð útundan. Barnsins sem bar ljós kærleika og friðar inn í heiminn, til okkar.

Rauði þráðurinn í jólaguðspjallinu og sögunum af Jesú er sá að hver einasta manneskja er óendanlega dýrmæt og ber í sér neista guðdómsins. Að öll eigum við skilið náungakærleik og virðingu, sama hver við erum eða hvaðan við komum. Sama hvort við glímum við veikindi eða fötlun, fátækt eða erum á flótta, þá erum við öll elskuð af Guði og eigum skilið að upplifa mannvirðingu og væntumþykju. Það er verðugt verkefni að finna leiðir til að láta þennan boðskap fylgja okkur alla daga og vera fólk sem lætur náungakærleik og væntumþykju stýra lífi sínu.

Í pistli þessa sunnudags úr Fyrra Þessalónikubréfi fáum við þau hvatningarorð frá Páli postula að vera ætíð glöð og biðja án afláts. Það getur hljómað einfeldningslega því við þekkjum öll að það koma dagar og stundir þar sem gleðin kemst ekki að okkur vegna áfalla, erfiðleika eða veikinda. Á þeim stundum er merking jólanna hvað mikilvægust, að það sé alltaf ljós sem skín, þrátt fyrir myrkur og vonleysi. Að þegar við getum ekki verið í því hlutverki að bera ljósið áfram þá komi aðrir og beri það til okkar, svo að hlýjan, vonin og birtan geti stutt okkur á vegferðinni í gegnum lífið.

Þótt að okkur sé gefið það boð að elska náungann, lifa í  náungakærleik og umhyggju, þá megum við heldur ekki gleyma því að stundum, og jafnvel oft, þurfum við að vera þau sem þiggjum umhyggju og kærleik. Við getum ekki tendrað ljós hjá öðrum ef okkar ljós dofnar. Það að taka á móti vináttu, væntumþykju, hlýju og kærleika nærir okkur og eflir, styrkir lífsgleðina og náungakærleikann sem við berum í brjósti. Og þessar nærandi gjafir þiggjum við ekki aðeins af samferðafólki okkar, heldur frá sjálfri uppsprettu kærleikans, Guði sem fylgir okkur, leiðir okkur og styrkir.

Á þessari aðventu og alla daga tek ég undir orð postulans, biðjum án afláts, leyfum okkur að taka á móti kærleika Guðs, nærum andlega lífið, leggjum gleði okkar og raunir í bæn til skaparans, eflum ljósið okkar og gerum okkar besta til að bera birtu þangað sem hennar er þörf.

Megi Guð friðarins blessa okkur og varðveita.

Gleðileg jól.
Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur Glerárkirkju.

Lofgjörðarlag vikunnar er I surrender, við gefum okkur að Guði og þar með vex Guð í okkur. https://www.youtube.com/watch?v=s7jXASBWwwI

Andi Drottins er yfir mér
því að Drottinn hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
til að græða þá sem hafa sundurmarin hjörtu,
boða föngum lausn
og fjötruðum frelsi,
til að boða náðarár Drottins
og hefndardag Guðs vors,
til að hugga þá sem hryggir eru
og setja höfuðdjásn í stað ösku
á syrgjendur í Síon,
fagnaðarolíu í stað sorgarklæða,
skartklæði í stað hugleysis.
Þeir verða nefndir réttlætiseikur,
garður Drottins sem birtir dýrð hans.
Þeir munu endurreisa fornar rústir,
reisa það við sem féll fyrir löngu,
endurbyggja eyddar borgir
sem legið hafa í rústum kynslóð eftir kynslóð.

Verið ætíð glöð. Biðjið án afláts. Þakkið alla hluti því að það er vilji Guðs með ykkur í Kristi Jesú. Slökkvið ekki andann. Fyrirlítið ekki spádómsorð. Prófið allt, haldið því sem gott er. En forðist allt illt í hvaða mynd sem er. En sjálfur friðarins Guð helgi yður algerlega og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists. Trúr er sá er yður kallar, hann mun koma þessu til leiðar.

En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift:
Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels,
því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn.
Hann hefur reist oss horn hjálpræðis
í húsi Davíðs þjóns síns
eins og hann talaði fyrir munn sinna heilögu spámanna frá öndverðu,
frelsun frá óvinum vorum
og úr höndum allra er hata oss.
Hann hefur auðsýnt feðrum vorum miskunn
og minnst síns heilaga sáttmála,
þess eiðs er hann sór Abraham föður vorum
að hrífa oss úr höndum óvina
og veita oss að þjóna sér óttalaust
í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora.
Og þú, sveinn, munt nefndur verða spámaður Hins hæsta
því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans
og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu
sem er fyrirgefning synda þeirra.
Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors.
Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
og lýsa þeim sem sitja í myrkri og skugga dauðans
og beina fótum vorum á friðar veg.
En sveinninn óx og varð þróttmikill í anda. Hann dvaldist í óbyggðum til þess dags er hann skyldi koma fram fyrir Ísrael.