Ég sinni ýmis konar verkefnum í prestsþjónustu minni og sálgæsla er þar stór þáttur. Sálgæsla er samtal og speglun en ekki meðferð. Það er svo merkilegt að hin síðari árin er eitt orð kemur oft fram í samtölum við fólk en það er hugtakið ,,Ljósið“. Margir sem þiggja sálgæslu eiga reynsluna af því að lifa með krabbamein eða eru ástvinir fólks sem hefur greinst með krabbamein. Í þessum samtölum hefur orðið ,,Ljósið“ verið borið upp af sérstöku þakklæti og kærleika. Ég er nefnilega að tala um endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðina á Langholtsvegi í Reykjavík þar sem krabbameinsgreindir og aðstandendur þeirra geta komið til að byggja upp líkamlegt, andlegt og félagslegt þrek. Þessir einstöku ljósberar sem fóru af stað haustið 2005 í safnaðarheimili Neskirkju hafa náð stórkostlegum árangri við að styðja fólk sem átt hefur erfitt í kjölfar veikinda út í samfélagið á nýjan leik. Núna er verið að færa út kvíarnar og taka nýtt hús í notkun á lóðinni, starfið blómstrar og nýjar hugmyndir kvikna. Ég verð að segja að þau sem völdu nafnið á þessa dýrmætu starfsemi hittu naglann á höfuðið. Þetta er magnaður vettvangur ljóss og friðar þar sem verið er að efla lífsgæði fólks. Byggt er á hugmyndafræði iðjuþjálfunar og samhugur og samvinna í hávegum höfð sem birtist ekki síst í öllu því sjálfboðna starfi sem fer fram í Ljósinu.

Og Jesús sagði við þá: „Ekki bera menn inn ljós og setja það undir mæliker eða bekk. Er það ekki sett á ljósastiku?  Því að ekkert er hulið að það verði eigi gert opinbert né leynt að það komi ekki í ljós. Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!“
Enn sagði hann við þá: „Gætið að hvað þið heyrið. Með þeim mæli, sem þið mælið, mun ykkur mælt verða og við ykkur bætt.  Því að þeim sem hefur mun gefið verða og frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða jafnvel það sem hann hefur.“                                                                                      (Mark. 4. 21.-25)

Ljósberarnir í mannlífinu eru fólk sem hefur eyru til að heyra með og augu til að sjá. Ég kalla það stundum að hafa þriðja augað eða innsæi hjartans. Þannig var það með þau sem fóru af stað með Ljósið á Langholtsveginum. Það er svo stórkostlegt þegar fólk setur ljósið á ljósastikuna en ekki undir bekk, því þá lýsir það öðrum og veldur því að blessunin streymir til allra.

Það er líka svo mikilvægt að minna sig á það að við erum öll kölluð til ljóssins verka. Verk ljóssins er ekki hlutverk einhverra fárra útvalinna heldur allra. Ég held að streita og álag séu ástæða þess að margir finna ekki slíkt hlutverk eða kulna frá því. Þegar við erum stöðugt undir neikvæðu álagi eða höfum yfir okkur óleysta streituvalda þá minnkar ljósið hið innra. Í slíku ástandi er svo erfitt að sinna andlegum og trúarlegum þörfum, komast í tengsl við það sem er verðmætt eins og sköpunarverkið eða sinna áhugamálum eins og sjálfboðinni þjónustu þar sem við gefum og þiggjum til jafns. Streitan þrengir sjónsviðið okkar svo að við kunnum ekki lengur að forgangsraða með hjartanu.

Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að, frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né flöktandi skuggar. Hann er ávallt hinn sami. (Jakobsbréf 1. 17)

Við íslendingar eigum auðvelt með að skynja boðskap þar sem talað er um ljós og myrkur eins og í Biblíunni.  Hér verður svo mikið svarta, svarta myrkur á vetrum og mikil birta á sumrin. Ég veit að ég er ekki ein um það að finnast janúar yfirleitt erfiður mánuður. Ég skynja það líka sterkt í mínu starfi. Jólaljósin slokkna, hversdagurinn tekur við, lægðir leggjast yfir landið og oft eru slys og ótímabær andlát sem fylgja þessum tíma. Við höfum svo sannarlega fengið að reyna það á þessu ári. Íslenskt samfélag hefur sveiflast milli vonar og ótta vegna áfalla í síðastliðnum mánuði og ungt fólk hefur kvatt eða býr við alvarlega fötlun. Svo höfum við líka orðið vitni að ótrúlegum kraftaverkum og björgunarafrekum sem lýsa upp myrkrið. Þó vitum við líka að þegar frá líður hætta fréttir að berast af fólki sem orðið hefur fyrir alvarlegum áföllum en haldið lífi. Samt er kanski langur vegur endurhæfingar framundan þar sem ekkert nema endalaus þrautsegja og samstaða gildir. – Ekkert nema trú, von og kærleikur.  Þess vegna þurfum við að halda áfram að biðja og vera til staðar hvert fyrir annað.

Lýstu upp myrkrið, lát ljós þitt skína,

þá mun þér um hjartaræturnar hlýna.
Tendrast á ný þinn lífsins eldur
sem kvöl og svartnætti var ofurseldur.

Lítill neisti sem að báli verður
svo björtu, af Almættinu gerður.
Sem lýsa mun þér á lífsins vegi
jafnvel að nóttu sem og degi.

Kraftur og lífsgleði þér mun sýna,
ljós, sem aldrei aftur mun dvína.
Himnafaðirinn son sinn þér sendi
Frelsarann, sem heldur um þína hendi.

 

Þú sérð ekki ef hugurinn er svartur
að við hlið þér gengur vinur bjartur.

Í gegnum gleði og hverja þraut.

Hann lýsir þér á lífsins braut.

(Josira)

 

Jesús var sífellt að ræða um hlutverk okkar í þessum heimi og notaði margar myndlíkingar tengdar ljósi:

Auga þitt er lampi líkamans. Þegar auga þitt er heilt þá er og allur líkami þinn bjartur en sé það spillt þá er og líkami þinn dimmur. Gæt því þess að ljósið í þér sé ekki myrkur. Sé því líkami þinn allur bjartur og hvergi myrkur í honum verður hann allur í birtu eins og þegar lampi lýsir á þig með loga sínum.“ (Lúk. 11. 34-36)

 

Þarna er trúin og trúariðkunin. Æðsta markmið sannrar trúar er ekki það að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Ef ég skyldi ná því markmiði að verða rúmlega níræð kona. Og ef ég skyldi njóta þeirrar náðar að fá að liggja háöldruð með höfuðið á koddanum en skýra hugsun og vita að nú fari ég bráðum að deyja. Hvað skyldi ég hugsa þá? Var ég ekki örugglega besta útgáfan af sjálfri mér? – mun ég hugsa það? Nei, aldrei. Náði ég þeim frama sem hugur minn stóð til? – mun ég hugsa það? Það væri sorglegt.

Háöldruð manneskja sem með skýrri hugsun veit daga sína talda og er að kveðja lífið spyr sjálfa sig að einu og aðeins einu; hvort hún hafi lifað til góðs fyrir aðra. Innst inni vitum við, – hversu metnaðarfull og kappsöm sem við kunnum að vera, eða þá full af frammistöðukvíða, – að það eina sem raunverulega skiptir máli í þessu lífi er að vera farvegur ljóss og næringar inn í annnara líf.

Horfðu raunsæjum augum á lífið þitt, er Jesús að segja. Horfðu með heilu auga á umhverfi þitt og aðstæður. Gættu þess að ljósið í þér sé ekki myrkur, að auga þitt sé ekki spillt. Lífið er í eðli sínu ljós-flæði og eini raunhæfi tilgangurinn með tilverunni er sá að taka þátt í þessu flæði orku og efnis. Þú ert ekki hér til þess að safna einu né neinu. Enginn meikar það einn og sjálfur, enginn á neitt einn því öll eiga allt og við erum þátttakendur í einu stórkostlegu undri, bylgju ljóss og dýrðar sem er frá Guði og stefnir til Guðs.

Þannig er trúin á góðan Guð heimsins mesta raunsæi og Guðsþekking stórkostleg að þiggja og láta móta sig.

Séra Jóna Hrönn Bolladóttir

 

Leitið Drottins meðan hann er að finna,
ákallið hann meðan hann er nálægur.
Hinn guðlausi láti af breytni sinni
og illmennið af vélráðum sínum
og snúi sér til Drottins svo að hann miskunni honum,
til Guðs vors því að hann fyrirgefur ríkulega.
Mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir
og yðar vegir ekki mínir vegir, segir Drottinn.
Eins og himinninn er hátt yfir jörðinni
eru mínir vegir hærri yðar vegum
og mínar hugsanir hærri yðar hugsunum.
Eins og regn og snjór fellur af himni
og hverfur ekki þangað aftur
fyrr en það hefur vökvað jörðina,
gert hana frjósama og gróandi,
gefið sáðkorn þeim sem sáir
og brauð þeim er eta,
eins er því farið með orð mitt sem kemur af munni mínum,
það hverfur ekki aftur til mín við svo búið
heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast
og framkvæmir það sem ég fel því.

En halt þú stöðuglega við það sem þú hefur numið og hefur fest trú á þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það. Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.
Sérhver ritning er innblásin af Guði[ og nytsöm til fræðslu, umvöndunar, leiðréttingar og menntunar í réttlæti til þess að sá sem trúir á Guð sé albúinn og hæfur ger til sérhvers góðs verks.

Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gerði sem fyrr. Og á elleftu stundu fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn.

Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.

Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?

Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“