Biblían hefur verið fólki innblástur sem miðlað sögum hennar og sett þær inn í samhengi síns tíma. Hugsuðir á öllum tímum hafa fundið þeim stað í aðstæðum samtíma síns þótt þær hafi verið ólíkar því umhverfi þar sem sögurnar urðu til. Fyrir vikið verður erindi Biblíunnar vaki til breytinga.

 

Blökkumenn í Bandaríkjunum sem strituðu á bómullarökrunum sáu í ánni Misissippi hliðstæðu við ána Níl þar sem hinn Guðs útvaldi lýður þrælaði í ánauð. Og leiðtogar þeirra áttu sér fyrirmynd í Móse sem barðist fyrir frelsun þjóðar sinnar.

 

Hér uppi á Íslandi fyrr á öldum rifjuðu yfirvöld upp sögur af miskunnsemi Krists er hann fyrirgaf brotlegum og sýndi þeim mildi fremur en refsingu og rökstuddu með því sýknudóma. Í lagatextum var vísað í orð Jesú um að allt sem við gerðum okkar minnstu systkinum það hefðum við gert honum.

 

Oft hefur farg staðnaðrar hagstjórnar, kynjaskiptingar og stéttskiptingar legið ofan á þessum boðskap, en hann hefur engu að síður, verið ólgandi eins og kvika í undirdjúpinu. Og svo hefur hann losnað úr læðingi með krafti og breytt lífi fólks.

 

Þannig var það í Austur Evrópu þegar bænafólk í kirkjunum hélt út á torgin og boðaði fólkinu lausn undan ánauð einræðis. Þannig var það í Suður Ameríku þar sem frelsunarguðfræðingar predikuðu um jöfnuð og réttæti. Þannig var það á Íslandi þegar hópur innan kirkjunnar barðist fyrir réttindum samkynhneigðra.

 

Erindið var það sama – að flytja áfram erindi hinnar helgu bókar – um að hver manneskja eigi sína helgi sem ekki megi rjúfa, að kærleikurinn til náungans sé æðsta köllun okkar og skylda. Að auðursöfnun og völd geti spillt einstaklingum og samfélögum.

 

Sú sístæða vinna mætir fylgjendum Krists í hverju því umhverfi sem þeir starfa í. Verkefni okkar er að endursegja, endurskapa og endurlífga þann mátt sem býr í honum boðaða orði.

 

Sr. Skúli S. Ólafsson

 

Lofgjörðarlag vikunnar er Jesus I need you eða Jesús ég þarfnast þín með Hillsong lofgjörðarhópnum. https://www.youtube.com/watch?v=lKM-8CZRplI

Þá lofaði Davíð Drottin frammi fyrir öllum söfnuðinum og sagði: „Lofaður sért þú, Drottinn, Guð föður vors, Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Þín er tignin, Drottinn, mátturinn, dýrðin, vegsemdin og hátignin því að allt er þitt á himni og jörðu. Drottinn, þitt er konungdæmið og þú ert hafinn yfir allt. Auður og sæmd koma frá þér, þú ríkir yfir öllu. Í hendi þér er máttur og megin, í hendi þér er vald til að efla og styrkja hvern sem vera skal. Og nú, Guð vor, þökkum vér þér. Vér lofum þitt dýrlega nafn. En hver er ég og hver er lýður minn, að vér vorum færir um að gefa slíkar gjafir? Því að allt er frá þér og vér höfum fært þér það sem vér höfum þegið úr hendi þér.

Úr samkundunni fóru þeir rakleitt í hús Símonar og Andrésar og með þeim Jakob og Jóhannes. Tengdamóðir Símonar lá með sótthita og sögðu þeir Jesú þegar frá henni. Hann gekk þá að, tók í hönd henni og reisti hana á fætur. Sótthitinn fór úr henni og hún gekk þeim fyrir beina. Þegar kvöld var komið og sólin sest færðu menn til hans alla þá er sjúkir voru og haldnir illum öndum og allur bærinn var saman kominn við dyrnar. Jesús læknaði marga er þjáðust af ýmsum sjúkdómum og rak út marga illa anda en illu öndunum bannaði hann að tala því að þeir vissu hver hann var. Og árla, löngu fyrir dögun, fór Jesús á fætur og gekk út, vék burt á óbyggðan stað og baðst þar fyrir.

Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists því að við líðum með honum til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum.