„Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“

,,Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“ En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“ Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“ Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“ Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“ Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“ Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.“ Mt 15.

 

Þessi texti hér að ofan er úr Mattheusarguðspjalli. Guðspjallinu sem ætlað var gyðing-kristnum. Jesús og lærisveinarnir eru á leiðinni frá Kapernaum og út að ströndinni, e.t.v. til að leita næðis. Deilur við æðstuprestana og fariseana eru farnar að magnast og þeir hvíldarþurfi. Það kemur honum sennilega á óvart þegar kallað er á eftir honum á þessum heiðnu slóðum með orðunum ,,sonur Davíðs“. Kanverska kona er ein af þeirri þjóð sem gyðingar fyrirlitu öldum saman. Og konan kemur honum aftur á óvart þegar hún svarar honum fullum hálsi, vel meðvituð um stöðu sína og vill þiggja brauðmola af borði húsbændanna, þ.e. gyðinganna. Brauðið er táknrænt, því Jesús er brauð lífsins, fyrir allar þjóðir að njóta.

 

Framkoma Jesús virðast vera þversögn sem stangast á við allar frásögurnar af honum og alla ímynd okkar af frelsaranum. Getur það verið að þjóðerni og trúarbrögð þessarar bænheitu konu séu Jesús hindrun. Nei, textinn hefur dýpri merkingu en það. Aðstæður og saga þjóðanna eru skýringar á viðbrögðum Jesús.

 

Í guðspjallinu sýnir Jesús á sér mannlega hlið og sannar okkur hve raunverulegur hann er. Sumir fræðimenn telja að í atburðunum sem textinn greinir frá hafi orðið þáttaskil í lífi Jesús. Hann hafi í upphafi talið sig sendan til Ísraelsættar, og mörg rit Gamla testamentisins styðja það, en í samskiptum sínum við Kanversku konuna hafi hann orðið sér meðvitaður um hlutverk sitt. Hann var kominn til að frelsa alla menn. ,,Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum mínum…“, segir hann í lok þessa sama guðspjalls.

 

Í framhaldi af lestri textans getum við velt því fyrir okkur, hvaða erindi textinn á til okkar í dag.

Hvað gerum við þegar við biðjum um nálægð Drottins og hann virðist víðsfjarri og lærisveinar hans (í nútímanum) nenna ekki að sinna þessu kvabbi í okkur og segja: ,,Láttu hana fara.“ Eða þegar bænir okkar virðast kraftlausar og heilagur andi endanlega farinn burt af þessum heimi? Hvað gerum við þá? Hann, sem var vanur að mæta öllum með samúð og umburðalyndi en er sem frosinn gosbrunnurinn þar sem straumur lifandi vatns hefur stöðvast. Örvæntum ekki kæru vinir, hugsum til Kanversku konunnar.

 

„Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Textinn kennir okkur m.a. að við eigum aldrei að gefast upp, jafnvel þó guðdómurinn virðist fjarlægur og við séum niðurlægð af þeim sem síst skyldi. Láta stétt okkar og stöðu, þjóðerni og kyn aldrei stöðva okkur, né móta afstöðu okkar til annarra. Við skulum gefa öllu fólki sem til okkar leitar alla okkar athygli og ást. Við skulum ekki vera í þeim hópi sem segir ,,láttu hana fara“

 

Við megum biðja með orðum kanversku konunnar: Miskunna þú, Drottinn.

Sr. Ursula  Árnadóttir

Jakob varð síðan einn eftir og maður nokkur glímdi við hann uns dagur rann. Þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki sigrað Jakob sló hann á mjöðm hans svo að hann gekk úr augnakörlunum er þeir glímdu. „Slepptu mér,“ sagði maðurinn, „því að dagur rennur.“ „Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig,“ svaraði Jakob. „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn. „Jakob,“ svaraði hann. Þá mælti hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“ Jakob sagði við hann: „Segðu mér nafn þitt.“ Hann svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig nafns?“ Og hann blessaði hann þar. Jakob nefndi staðinn Peníel, „því að ég hef,“ sagði hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“

Líði nokkrum illa ykkar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng. Sé einhver sjúkur ykkar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðja fyrir honum. Trúarbænin mun gera hinn sjúka heilan og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, verða honum fyrirgefnar. Játið því hvert fyrir öðru syndir ykkar og biðjið hvert fyrir öðru til þess að þið verðið heilbrigð. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.

Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“
En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“
Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“
Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“
Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“
Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“
Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.