Við deyjum öll líkamsdauða, það eitt er víst. Öll vonumst við til þess að fá að lifa lengi, njóta lífsins og og hafa ekki vistaskipti (deyja) fyrr en við erum orðin öldruð og lífsþreytt. Viðskilnaður hins aldraða við lífið er alltaf erfiður eftirlifendum en sá dauði kemur engum að óvörum. Þegar líkaminn er orðinn gamall og veikur og visnar hann eins og lauf á haustin og verður að moldu.

En dauði barns, unglings eða ungrar manneskju lýtur allt öðrum lögmálum. Lífið sem blasir við ungviðinu í allri sinni fegurð, forvitni og þeim möguleikum sem liggja í framtíðinni. Dauðinn er eins og þjófur að nóttu sem hrifsar til sín hið unga líf. Dauði barns er því eitt það erfiðasta sem fólk tekst á við, dauði barns er ónáttúrulegur og ekkert barn á að deyja á undan foreldrum sínum.
Samband barns og foreldris er með öðrum hætti en önnur sambönd. Það kemur til af því að barnið er bein af beini foreldrisins og hold af holdi þess. Þegar barn deyr, deyr líka hluti af foreldrinu. Þetta er mín reynsla því ég hef jarðsett tvær ungar dætur mínar og með þeim jarðsetti ég líka hluta af sjálfri mér.
Þegar börnin okkar deyja eru áhrifin víðtæk. Dauðinn snertir ekki eingöngu foreldrana, hann hefur líka áhrif á systkinin, afana og ömmurnar, vinina og þá sem hafa hugsað um börnin. Ég er viss um að veikindi og dauði dætra minna hafði áhrif á lækna og hjúkrunarfólk, sjúkrahúspresta og aðra sem að þeim komu. Ég hugsaði oft um það hvort Guð væri að refsa mér fyrir syndir mínar með því að taka af mér dætur mínar.

Sagan um Davíð og syndir hans og hvernig Guð refsaði honum með því að taka son hans og Batsebu. Meðan á veikindum drengsins stóð fastaði Davíð. Hann vonaði að Guð myndi sjá aumur á honum og hlífa barninu en það dó. Eftir að drengurinn dó baðaði Davíð sig og klæddi. Drengurinn minn er dáinn, hann kemur ekki til baka en ég fer að lokum til hans. Davíð fór til Batsebu og naut ásta með henni og gerði henni barn (2 Samúel 12:15-23).

Við erum minnt á að kallið getur komið á hvaða tíma lífs okkar sem er. Lífið er tímabundið og lífið er flutningur yfir á annað tilverustig. „Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum“ (Sálmur 39.5). Við höfum ekki fengið ábyrgðarskírteini upp á hversu lengi við lifum en ég trúi að mér séu gefnir svo og svo margir hjartslættir og svo og svo margir andardrættir þegar ég kem inn í þetta líf. Þess vegna reyni ég af vanmætti að þakka fyrir hvern þann dag sem ég lifi og líka fyrir hvern þann dag sem dætur mínar lifðu þótt ég sé oft á tíðum ósátt við þeirra stutta tíma hér og að dagar þeirra voru dagar þjáningar. Við bregðumst við í sorg þar til við finnum að sorginni léttir.

Veikindi og dauði sonar Davíðs og Batsebu kenna okkur að bregðast við sorginni og að lifa með henni þar til við finnum leið til að létta henni af okkur. Sorgin þarf útrás. Sorgin verður að fá að hafa sinn tíma. Tilfinningar sorgar og missis eiga rétt á sér og þær á ekki að hrekja út í horn eða hunsa, við eigum að deila hvert með öðru sorginni sem fylgir því þegar börnin okkar deyja. Davíð gerði mistök, mistök sem ég gerði líka. Hann reyndi að syrgja í einrúmi. Þegar við syrgjum saman deilum við líka saman byrðinni. „Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.“ (Rómverjabréf 12:15)

þegar bróðir minn dó 10 ára gamall, reiddist ég Guði og ég skildi ekki tilganginn. Þegar dætur mínar dóu háði ég mína baráttu við Guð samkvæmt mínum skilningi á honum/henni. Ég var Guði reið og ég sá ekki tilganginn með því að láta saklaus börn þjást. Hvers vegna lét Guð dætur mínar fæðast fyrir tímann, aðra þeirra lifa í þrjú og hálft ár fjölfatlaða og langveika? Þá yngri fæðast og lifa grátandi í einn stuttan dag á brjósti mínu. Ég var reið, ég meira að segja, í samtali mínu við Guð á þessu tímabili, bölvaði honum. Ég steytti hnefann í átt til himins og hrópaði, næði ég í þig þá gæfi ég þér einn á hann.
Þetta gerði það þó ekki að verkum að ég týndi Guði æsku minnar né hætti að trúa á tilvist Guðs. Ég greip í skrif rabbínans Harolds Kushners úr bók hans „Af hverju ég“. Hann, sem hafði sjálfur misst barn, sagði; Guð er ekki persónulega að úthluta vondum og sársaukafullum missi og erfiðleikum til fólks, lífið er tilviljanakennt. En þegar við leitum Guðs og tölum til hans/hennar, þá er hinn umlykjandi faðmur alltaf til staðar.

Í frumkristninni er talað um að græða sálina en einnig að bera umhyggju hvert fyrir öðru. Sr. Sigfinnur Þorleifsson útskýrir sálgæslu í bók sinni Nærveru þannig: „Sálgæslan er nokkurs konar brúargerð, tenging á milli Guðs og manns og manns og annars. Hlutverk hennar er að græða, hugga, styrkja, sætta og leiðbeina.“ (Sigfinnur Þorleifsson, 2001:12).
Í sálgæslunni hugsum við um manninn út frá heildstæðum samskiptum. Manneskjuna er ekki hægt að sundurgreina, því hún er ein órofa heild, við manneskjur erum líkami andi og sál. Í heild okkar erum við heil. En þegar áföll dynja á okkur, liggjum við öll undir, við finnum til líkamlega, tilfinningalega og sálarlega þegar við missum.
Áfallið sem við verðum fyrir hefur áhrif á hugsanir okkar og atferli. Það sem ég hef lært sem reynslusérfræðingur, sem móðir sem hefur misst börn, er að til að vinna sem sálgæslufræðingur þarf ég, eins og presturinn og sálgætirinn Howard Clineberg (1922-2005) mælti með, að þekkja sjálfa mig, viðurkenna veikleika mína og styrkleika.

Í gegnum sjálfsþekkingu og það að hafa unnið með eigin missi og eigin sorg með hálp annarra get ég mætt þörfum þeirra sem ég þjóna án þess sjálf að kulna. Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.

Ólöf Melkorka Laufeyjardóttir er guðfræðingur og almennur guðfræðimenntaður sálgæslufræðingur innan heilbrigðisgeirans, frá Vrije University, Amsterdam, Hollandi.

Drottinn ávarpaði Móse og sagði: „Ég hef heyrt mögl Ísraelsmanna. Talaðu til þeirra og segðu: Ísraelsmenn, áður en dimmt er orðið munuð þið fá kjöt til matar og á morgun seðjist þið af brauði. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn, Guð ykkar.“ Um kvöldið komu lynghænsn og þöktu búðirnar en morguninn eftir hafði dögg fallið umhverfis búðirnar. Þegar döggin þornaði lá eitthvað fínkornótt yfir eyðimörkinni líkt og héla. Þegar Ísraelsmenn sáu það spurðu þeir hver annan: „Hvað er þetta?“ því að þeir vissu ekki hvað það var. Þá sagði Móse við þá: „Þetta er brauð sem Drottinn hefur gefið ykkur til matar. Fyrirmælin, sem Drottinn hefur gefið, eru þessi: Safnið því sem hver þarf til matar, einum gómer á mann og skal hver um sig safna í samræmi við þann fjölda sem býr í tjaldi hans.“ Þetta gerðu Ísraelsmenn og söfnuðu sumir miklu en aðrir litlu. Þegar þeir mældu það í gómermáli gekk ekkert af hjá þeim sem miklu safnaði og þann sem litlu safnaði skorti ekkert. Sérhver hafði safnað því sem hann þurfti til matar.

Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins. Feður ykkar átu manna í eyðimörkinni en þeir dóu. Þetta er brauðið sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.“