Friður sé með ykkur öllum.

Fyrir 2000 árum var lífið í veröldinni bísna ólíkt því sem nú er, það er margt sem aðskilur okkur frá raunveruleikanum sem María móðir Jesú ólst upp við og margt í því sem við hér á vesturlöndum myndum aldrei sætta okkur við. Hún var lofuð eldri manni, hefur kannski verið 14-15 ára, á sama aldri og fermingarbörnin okkar í dag og það voru foreldrar hennar sem ákváðu og sömdu um ráðahaginn. Þetta er erfitt að skilja en svona var þetta á þessum tíma. Ung stúlka, full af örvæntingu yfir því að þurfa að giftast eldri manni og síðar full af örvæntingu yfir því að vera barnshafandi áður en þau Jósef höfðu verið gefin saman.

Allt sem gerist er ógnvænlegt fyrir þessa ungu stúlku sem mun fæða frelsarann, það er hennar hjartsláttur sem hann heyrir í fyrsta sinn, hennar mjólk sem mun næra hann. Það er kraftaverk að fá að ganga með og fæða barn. Börnin okkar eru stórkostleg gjöf frá Guði. María gaf Jesú líf, og ásamt Jósef var hún mikilvægasta persónan í hans lífi. Við vitum hversu mikil áhrif móðir hefur á barnið sitt og ég trúi því að María hafi gefið litla Jesú allt sem hann þurfti, ást, umhyggju og hlýju, þau hafa vafalaust talað um allt og ekkert, talað um lífið, tilveruna og það hvernig manneskjur þau vildu vera. María hefur vafalaust haft áhrif á persónumótun þessa unga pilts sem síðar hélt á lofti kærleikhugsun, jafnrétti og sannleika.

Það er í gegnum Jesú sem Guð birtist okkur og Jesús var ekki sá sem hugðist berjast gegn rómverjum heldur sá sem umgekkst alla jafnt, átti vini sem voru fiskimenn, hann heimsótti tollheimtumenn og syndara, talaði við konur og menn sem voru útskúfuð í samfélaginu og lyfti þeim upp, hann læknaði fólk. Hann sýndi okkur auðmýkt þegar hann dó á krossinum en einnig stórkostlega áætlun Guðs þegar hann reis upp að nýju og sigraði dauðann. Þetta er stóra orrustan, orrustan á milli lífs og dauða, ljóss og myrkurs.

María fékk það hlutskipti að verða móðir frelsarans, hún fékk það hlutskipti að kenna barni, barni sem átti eftir kenna okkur það að kærleikurinn er stærra en allt annað, stærri en hvorutveggja synd og dauði. Hún kenndi líka þessu barni sem hafði sterkari siðferðsvitund en nokkur önnur manneskja enda sagði hann okkur síðar að hann væri sannleikurinn. María fylgdi honum allt hans líf í gegnum súrt og sætt, hún fylgdi köllun sinni og sýndi stórkostlega trúfesti og hugrekki. Hvaðan kom henni styrkur, hvernig er hægt að gera ráð fyrir því að móðir fylgi syni sínum í dauðann?

Hún fylgdi því sem Guð bauð, en Guð fylgdi henni líka í öllum hennar skrefum. María fékk náðina að gjöf og það er náð sem við getum öll öðlast, María varð hluti af leyndardómi kristninnar og það getum við einnig orðið. Þessi stórkostlegi kærleiksboðskapur Guðs sem blessar sköpun sína, rétt eins og móðir vill blessa barnið sitt. Móðir sem finnur enga ró fyrr en hún heldur á barninu sínu í fanginu, þannig er Guð, hann vill að við rötum heim til hans og Jesús hefur sannarlega vísað okkur veginn til hans.

Það er kærleikur Guðs, trúfesti, umhyggja og náð sem sýna okkur hver hann er í gegnum líf Jesú. Við getum líklega aldrei skilið leyndardóma Guðs að fullu en við getum lyft augliti okkar til Jesú og trúað því að hann sé með okkur alla daga með sinn kraft, náð og kærleika.

Við fengum lífið að gjöf frá Jesú þegar hann gaf líf sitt á krossinum, þessi gjöf stendur okkur öllum til boða það eina sem við þurfum að gera er að opna faðminn og taka við þessari stórkostlegu gjöf.

Dýrð sé föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.

Amen.

Sr. Fritz Már Jörgensson

Því verður þjóðin yfirgefin
þar til sú hefur fætt er fæða skal.
Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans
snúa aftur til Ísraels lýðs.
Hann mun standa sem hirðir þeirra
í krafti Drottins,
í mætti nafns Drottins, Guðs síns,
og þeir óhultir verða.
Þá munu menn mikla hann
allt til endimarka jarðar.

Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu er sagði: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“
Sá sem í hásætinu sat sagði: „Sjá, ég geri alla hluti nýja,“ og hann segir: „Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.“ Og hann sagði við mig: „Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns. Sá er sigrar mun erfa þetta og ég mun vera hans Guð og hann mun vera mitt barn.

En í sjötta mánuði sendi Guð Gabríel engil til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, til meyjar er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs en mærin hét María. Og engillinn kom inn til hennar og sagði: „Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“

En María varð hrædd við þessi orð og hugleiddi hvað þessi kveðja ætti að merkja. Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu og á ríki hans mun enginn endir verða.“

Þá sagði María við engilinn: „Hvernig má þetta verða þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“

Og engillinn sagði við hana: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur Hins hæsta mun yfirskyggja þig. Þess vegna verður barnið heilagt, sonur Guðs. Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni og þetta er sjötti mánuður hennar sem kölluð var óbyrja en Guði er enginn hlutur um megn.“

Þá sagði María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Og engillinn fór burt frá henni.