Miskunnsami samverjinn

Texti:   Í 10. Kafla Lúkasarguðspjalls segir.

25Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“

26Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“

27Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“

28Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“

29En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“

30Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. 31Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. 32Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. 33En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, 34gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. 35Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur.

36Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“

37Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“

Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama.“

 

Lögvitringurinn vísar í hið tvöfalda kærleiksboðorð til að leita svars við spurningunni um það hvernig maður öðlast eilíft líf.  En hvað er eilíft líf sem svo oft er fjallað um í Biblíunni?  Ekki er það að lifa endalaust hér á jörðu, verða endalaust gamall.  Nei, eilíft líf er samfélag við Guð, samband sem hefst með skírninni og nær fram yfir gröf og dauða.  Dæmisaga Jesú er útskýring hans á spurningu lögvitringsins um það hver er náungi okkar.  Þetta er þörf spurning til okkar í dag.  Hver er náungi okkar?  Hver er þessi náungi sem við eigum að elska eins og okkur sjálf?  Svarið er í raun það að náungi okkar er hver sú manneskja sem á vegi okkar verður og er í þörf fyrir hjálp okkar.  Athygli vekur að hinn miskunnsami samverji var líkast til sá ólíklegasti til að hjálpa, að margra mati.  Sá sem samkvæmt hefðinni bar síst skylda til að hjálpa hinum þurfandi.  En samt.  Samt gaf hann sig að hinum slasaða, bjó um sár hans eins og honum var unnt og kom honum í góðar hendur.  Hann gat ekki gert allt sjálfur en hann tryggði öryggi hans og kom málum hans í farsælan farveg.  Gæti verið samhengi milli þessarrar dæmisögu og íslensks heilbrigðiskerfis?  Af hverju þykir okkur það sjálfsagt mál að á landi okkar sé öflugt heilbrigðiskerfi þar sem allir eiga að geta fengið bót meina sinna óháð efnahag?  Það er mikilvægt að gefa gaum að því á hvaða gildum við hvílum þegar grundvallaratriði í mannlegri velferð eru annars vegar.  Það er samfélagssáttmáli hér á landi að reyna að tryggja öllum aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.  Það er ekki sjálfgefið að þjóðin vilji standa vörð um slík gildi.  En það er gæfa okkar samfélags að við tökum öll þátt í að hlúa að þeim sem við þekkjum ekki, þeim sem á vegi okkar verða, þeim sem er náungi okkar á hverjum tíma.

Séra Sigurður Grétar Sigurðsson

Abraham sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum í Mamrelundi er Drottinn birtist honum. Honum varð litið upp og stóðu þá þrír menn frammi fyrir honum. Er hann sá þá hljóp hann til móts við þá úr tjalddyrunum, laut til jarðar og mælti:
„Herra minn, hafi ég fundið náð fyrir augum þínum þá gakk ekki fram hjá þjóni þínum. Mættum við sækja svolítið vatn að þið getið þvegið fætur ykkar og hvílst undir trénu? Ég ætla að ná í matarbita svo að þið getið styrkt ykkur áður en þið haldið lengra úr því að þið fóruð um hjá þjóni ykkar.“
Þeir svöruðu: „Gott og vel, gerðu eins og þú hefur sagt.“

Að öðru leyti, bræður mínir og systur,[ verið glöð. Verið fullkomin, áminnið hvert annað, verið samhuga, lifið saman í friði. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með ykkur.Heilsið hvert öðru með heilögum kossi. Allir heilagir biðja að heilsa ykkur.
Náðin Drottins Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.

Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.