Eins og svo margir aðrir þá átti ég útivistardaga í sumar. Þar sem ég var á göngu í Þjórsárverum, nánar tiltekið við Nautahagajökul á leiðinni upp á Hjartafell, að ég sá smá stein og í honum var lítil hola og í holunni lág pínulítill steinn. Þessi litli steinn hafi með hjálp vinds og vatns tekist að bora þessa holu í stærri steininn. Svona eins og hálfgerð tannpína er. Það verður til hola út af ytri öflum sem nýta sér eitthvað til verksins.
Mér var hugsað til þess þarna, á leiðinni upp á Hjartafell,
þar sem ég var að kasta mæðinni, hvað það væri sem stöðugt væri að verki í mér sjálfum -borandi holu og sé borað nógu lengi þá verður komið gat í gegnum mig sjálfan. En um leið kom önnur og ólík mynd upp í huganum. Hvað ef steinarða sem væri að verki er ekki að hola mig að innan, heldur að eyða hægt og býtandi þeirri hindrun sem felst í því að taka ekki ábyrg á viðbrögðum mínum,
mylja það sem hindar innri breytingu sálarinnar.
Hvað þarf til að þú verðir betri manneskja!
Og svo hélt ég áfram göngu minni upp á sjálft fjallið -og las þar reyndar á toppinum upphaf Fjallræðunnar.
Á leiðinni niður sá ég svo eftir því að hafa ekki tekið steinaparið með mér á leiðinni upp á fjallið. Og nú er steinn öllum týndur. En hugsunin sem spratt af honum og þeim báðum, er núna þín. Hvor myndin hreif þig læt ég liggja milli steina en tengja vil ég huga þinn og þessar tvær myndir við guðspjall það sem fylgir vegna þess að þessi kafli sem geymir þennan texta Biblíunnar sem endar á þeim frægu orðu: Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eru hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.
Það er ríkt í tungutaki Biblíunnar að tefla fram andstæðum og með tíð og tíma þá hefur þessi túlkunarmáti tapast – að tala í andstæðum sem eru að finna í því eina og sama. Ekki að verið sé þá að tala um tvo aðskilda heima heldur að í þessu saman heimi eru tveir ólíkir pólar, svona eins og í einu batterí þá er plús og mínus en ekki eitt plús batterí og annað mínus batterí.
Aflið og mildin takast þannig á í manneskjunni.
Leiðin sem maðurinn getur fetað og er fær, er að fara að dæmi Jesú,
temja sig til hans ef þannig má að orði komast.
Kannski er þetta ekki ólíkt því að læra að sigla skútu. Og í mínu tilviki þá gerðist það hjá Siglingarklúbbinum í Nauthólsvík fyrir margt löngu þegar okkur stráknum var kennt að sigla beitivind- og svo siglir maður beitivind ef svo ber undir. Það er ekki bara hægt að láta berast með vindinum, jafnvel þótt skútan komist á góðan skrið með því móti. Að fresta því að taka stefnu í lífinu er einmitt að láta berast með vindinum.
Þetta er ákvörðun um HVER maður er og verður.
Þannig starfaði Jesús, þannig talaði hann við fólkið. Líka í dag þegar hann spyr hvað hann eigi að líkja löngu horfinn kynslóð við. Hún hlustaði ekki á sem skyldi en er nokkur breyting þar á orðin í dag? Er fólk ekki enn með líkum hætti? Kannski, en þarft þú að vera þannig líka? Nei þú þarft þess ekki, því þú veist að nærvera Jesú er trygg hverjum manni. Samþættingin þín við hann er greið.
Því þarftu að halda þér við Guð sjálfan og kosta miklu til, í þér sjálfri, svo af verði.
Og hér er allt undir, allt sem við hugsum, viljum og gerum.
Þess vegna snýr textinn að manni sjálfum fyrst og fremst.
Hvað ræður ferð þinni?
Sr. Axel Árnason Njarðvík
Ég vil kveða um ástvin minn,
ástarkvæði um víngarð hans.
Ástvinur minn átti víngarð
á frjósamri hæð.
Hann stakk upp garðinn, tíndi úr honum grjótið,
gróðursetti gæðavínvið.
Hann reisti turn í honum miðjum
og hjó þar þró til víngerðar.
Hann vonaði að garðurinn bæri vínber
en hann bar muðlinga.
Dæmið nú, Jerúsalembúar og Júdamenn,
milli mín og víngarðs míns.
Hvað varð meira að gert við víngarð minn
en ég hafði gert við hann?
Hví bar hann muðlinga þegar ég vonaði að hann bæri vínber?
En nú vil ég kunngjöra yður
hvað ég ætla að gera við víngarð minn:
Ég ríf niður limgerðið
svo að hann verði nagaður í rót,
brýt niður múrvegginn
svo að hann verði troðinn niður.
Ég vil gera hann að auðn,
hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp,
þar skulu vaxa þistlar og þyrnar
og skýjunum vil ég banna að vökva hann regni.
Því að víngarður Drottins er Ísraels hús
og Júdamenn ekran sem hann ann.
Hann vænti réttlætis
en sá blóði úthellt,
vænti réttvísi
en neyðaróp kváðu við.
Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist. Því að ekki eru allir þeir Ísraelsmenn sem af Ísrael eru komnir. Ekki eru heldur allir börn Abrahams þótt þeir séu niðjar hans. Nei: „Afkomendur Ísaks munu taldir niðjar þínir.“ Það merkir: Ekki eru líkamlegir afkomendur Abrahams börn Guðs heldur þeir sem fyrirheitið hljóðar um. Guð gaf honum fyrirheit um fæðingu Ísaks þegar hann sagði: „Í þetta mund að ári kem ég aftur og þá mun Sara hafa eignast son.“
Hvað skal um þetta segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því. Hann segir við Móse: „Ég miskunna þeim sem ég vil miskunna og líkna þeim sem ég vil líkna.“ Það er því ekki komið undir vilja manns eða áreynslu heldur Guði sem miskunnar. Því er í ritningunni sagt við faraó: „Einmitt til þess hóf ég þig að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina.“ Svo miskunnar þá Guð þeim sem hann vill en forherðir þann sem hann vill.
Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.“
Þá tók Jesús að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gert flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki tekið sinnaskiptum. „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú, Kapernaúm. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gerst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gerðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.“