Jólin boða komu sína enn á ný með tilheyrandi undirbúningi. Mörgum finnst notalegt þegar jólaundirbúningurinn stendur sem hæst en öðrum finnst sem boðskapur jólanna týnist í öllu harkinu. Ómeðvitaðar væntingar um hin fullkomnu jól blunda innra með mörgum og vonbrigðin verða mikil þegar veruleikinn er allur annar. Í stað þess að njóta friðar innra með okkur finnum við jafnvel til kvíða og spennu. Jólin eru að miklum hluta undirbúningur og eftirvænting og reyna þessvegna á en gefa okkur einnig mikið.

Á aðventu væntum við komu Jesú. Við horfum aftur til fyrstu komu hans í Betlehem og við horfum til framtíðar þegar Kristur kemur aftur. Við erum ekki aðeins að undirbúa jólin heldur endurkomu Jesú. Fagnaðarboðskapurinn er að hann er þegar kominn til okkar. Við erum ekki ein á ferð. Guð kærleikans sem gaf okkur lífið sendi okkur einkason sinn til þess að vera með okkur alla tíð svo að við þurfum aldrei að örvænta í streði okkar heldur getum treyst því að hann sé ætíð með okkur. Á aðventu og jólum fáum við endurnýjuð boð um að vera ekki hrædd og hvatningu um að leyfa Jesú sem elskar okkur meira en við getum ímyndað okkur að vera með okkur. Hann kom á hversdagslegan hátt inn í þennan heim og ekkert varð eins og áður. Hann er kominn til okkar og getur umbreytt tilveru okkar. Jesús minnir okkur á það sem er mikilvægast og fyllir líf okkar friði og tilgangi.

Á aðventu bíðum við komu Jesú en það er ekki óvirk bið. Við fáum tækifæri til að styrkjast í þeirri von sem Guð gefur. Við opnum hjarta okkar fyrir öllu því góða sem Guð gefur okkur og horfum til framtíðarinnar í trausti til þess að það hafi áhrif á líðandi stund. Til þess að framtíðin breytist þá þarf þessi stund að breytast. Og við þurfum að vera hluti af þeim undirbúningi fyrir fæðingu trúar, vonar og kærleika í lífi okkar og annarra. Á aðventu minnum við okkur á að vera vakandi fyrir komu Jesú. Að sjá hann í ástvinum okkar, samferðarfólki og öllum sem þurfa á hjálp að halda. Þegar við mætum hvert öðrum á lífsveginum og hjálpum hvert öðru þá erum við að mæta Jesú.

Við undirbúum okkur á aðventu svo að við getum betur skynjað nærveru Guðs í tilveru okkar. Því við lifum oft á tíðum eins og hann sé fjarlægur. Við gleymum okkur í hversdagslegu striti og heyrum ekki í honum í gegnum skvaldur daganna. En Guð er með okkur. Jesús kom til okkar vegna þess að hann vildi slást í för með okkur á veginum, hlusta á sögu okkar og hjálpa okkur að átta okkur á því hver við erum. Jesús talar við okkur, leiðbeinir og sýnir okkur hvert best sé að fara. Hann gefur okkur það sem við þörfnumst til að lifa góðu, tilgangsríku lífi í sátt við okkur sjálf og aðra.

Gefum okkur góðan tíma á aðventunni til að heyra hvað Jesús hefur að segja við okkur. Tökum ákvörðun um að njóta aðventunnar og gera það sem er gott og endurnærandi en láta annað liggja milli hluta. Leyfum Jesú að hafa áhrif á okkur mitt í undirbúningi jólanna. Stöldrum við og finnum nálægð hans í öllu bardúsinu. Hann varpar dýrð sinni á daglega tilveru okkar og gefur okkur yndislegan jólafrið.

Sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir

Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég læt hið góða fyrirheit rætast sem ég gaf Ísraelsmönnum og Júdamönnum. Á þeim dögum og þeim tíma mun ég láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun framfylgja rétti og réttlæti í landinu. Á þeim dögum mun Júda bjargað og Jerúsalem verða óhult. Þetta nafn verður henni gefið: Drottinn er réttlæti vort.

Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér. Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans.
Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.

Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er:
Andi Drottins er yfir mér
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
og kunngjöra náðarár Drottins.
Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“