Nýtt ár, spánýtt brakandi nýtt ár. Hvílík dásemd, allt er nýtt og vonin um betri daga, jafnvel betra ár gerir vart við sig í hjörtum okkar, vonin hríslast um okkur mörg hver. Ferkst upphaf rétt eins og hver dagur sem rís, því hver dagur gefur nýja von. Allir dagar eru því í sjálfu sér nýjársdagar, hver nýr dagur er fullur vonar.

Jóhannes skírari sem við lesum um í guðspjalli 1. sunnudags eftir þrettánda tengir saman Gamla og Nýja testamentið. Skilaboð hans og hlutverk voru skír. Hlutverk hans var að greiða veg Drottins, gerar beinar brautir hans eins og segir í upphafi 3. kafla Matteusarguðspjalls. Hann var hrópandinn í eyðimörkinni og starfsvettvangur hans var óbyggðir Júdeu þar sem hann þrumaði yfir öllum sem heyrðu um syndir mannkyns og hótaði eldi og brennisteini þeim sem ekki snéru frá villu síns vegar.

Jóhannes skírari er ævintýraleg persóna, eldheitur prédikari sem var ekkert að skafa utan af erindi sínu. „Þér nöðrukyn”, ávarpar hann hlustendur sína á stundum. En boðskapur Jóhannesar var  ekki aðeins beinskeyttur, heldur var framkoma hans og persóna það líka. Fötin hans voru úr úlfaldahári, sem var nú örugglega ekki  mýksti eða þægilegasti klæðnaður sem hægt var að bera og hann var með áberandi leðurbelti um sig miðjan. Fyrir nú utan klæðnaðinn, framkomuna og boðskapinn, þá var mataræði hans langt frá því að vera hefðbundið. Mörg okkar hafa einmitt leitt hugan að breyttu og bættu mataræði á nýju ári en það er ekki víst að við viljum taka upp mataræði Jóhannesar en hann lifði á engisprettum og villihunangi þarna í óbyggðunum. En fólk kom langt að til að hlýða á hann og fá hjá honum skírn. Það er spurning hvort hann hefði eignast fleira fylgjendur ef hann hefði komið sér fyrir nærri mannbyggðum. En Jóhannes skírari vonaðist líklega ekki eftir fleiri fylgjendum,  hann gerði einfaldelga það sem Guð fól honum og lifði og dó sáttur við sitt hlutskipti og sitt hlutverk.

Hann var ekki upptekin af voninni eða vonleysinu hann Jóhannes skírari eins og mörg okkar þessa dagana yfir ástandi heimsins okkar. Hann lifði einfaldlega  í núinu og svo heldur fólk að núvitund sé eitthvað nýtt.

Mig langar til að enda á hvatningaljóði um vonina, sem ber einfaldega heitið VON, en ljóðið er eftir hann Sigurbjörn Þorkelsson:

Þegar þú ferð að heiman, vonastu til að koma aftur heim.
Þegar þú ferð að sofa, vonastu til að vakna aftur.
Þegar síminn hringir og þú svarar áttu von á að heyra rödd í símanum.
Þegar þú leggur fé í banka vonastu til að ávaxta það og geta tekið það aftur út.
Þegar þú kaupir þér hús vonarðu að það haldi vindi og vatni. Þegar þú kaupir þér bíl vonastu til að hann komi þér á milli staða án þess að bila.
Þegar klukkan er eitt máttu eiga von á því að klukkustund síðar verði hún tvö.
Þannig vonarðu að tíminn haldi áfram og að þú sert ekki stöðugt að upplifa þitt síðasta.
vonin og kvíðinn togast á.
Vonin vekur bjartsýni, þrek og þor, en kvíðinn dregur úr þér og vekur ótta.

Barn sem leikur sér þarf á von að halda.
Ungt fólk sem fetar sig til sjálfstæðis þarf á von að halda.
Ástfangið fólk þarf á von að halda.
Öl hjónabönd þurfa á von að halda.
Uppalendur þurfa á von að halda.
Syrgjendur þurfa á von að hada.

Ef þú tapar voninni er fátt eftir.

Höldum því í vonina, verum vonarneistar, vonistar.

Amen.

Sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir

Sjá þjón minn sem ég styð,
minn útvalda sem ég hef velþóknun á.
Ég legg anda minn yfir hann,
hann mun færa þjóðunum réttlæti.
Hann kallar ekki og hrópar ekki
og lætur ekki heyra rödd sína á strætunum.
Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur
og dapran hörkveik slekkur hann ekki.
Í trúfesti kemur hann rétti á.
Hann þreytist ekki og gefst ekki upp
uns hann hefur grundvallað rétt á jörðu
og fjarlæg eylönd bíða boðskapar hans.

Minnist þess, systkin, hvernig þið voruð þegar Guð kallaði ykkur: Mörg ykkar voru ekki vitur að manna dómi, ekki voldug eða ættstór. En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum. Enginn maður skyldi hrósa sér fyrir Guði. Honum er það að þakka að þið eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn okkur vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn. Eins og ritað er: „Sá sem vill hrósa sér hrósi sér í Drottni.“

Daginn eftir sér Jóhannes Jesú koma til sín og segir: „Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins. Þar er sá er ég sagði um: Eftir mig kemur maður sem er mér fremri því hann var til á undan mér. Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni að hann opinberist Ísrael.“
Og Jóhannes vitnaði: „Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu og hann nam staðar yfir honum. Sjálfur þekkti ég hann ekki en sá er sendi mig að skíra með vatni sagði mér: Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda. Þetta sá ég og ég vitna að hann er sonur Guðs.“