Í Guðspjalli dagsins spyr Pétur Jesús að því hvað lærisveinarnir munu fá í stað alls þess sem þau hafa misst, hann segir þau hafa yfirgefið allt sem þau áttu og höfðu til að fylgja honum. Jesús svaraði honum og sagði meðal annars að þau lærisveinarnir myndu fá allt hundraðfalt til baka og öðlast eilíft líf.

Enn þann dag í dag getur vissulega haft vandræði í för með sér að fylgja Kristi og þá sérstaklega í þeim hluta veraldarinnar sem ekki telst vera hluti hins kristna heims. Það getur sannarlega verið snúið að ganga rétta veginn en í réttu hlutfalli við vandræðin er uppskeran ríkuleg.

Því er líka oft haldið fram að trúin eigi undir högg að sækja í vestrænu samfélagi. Og þar með að það séu mörg sem sækja andlega næringu annað en í trúnna. Það er eflaust heilmikið til í þessu en það er líka þannig að eitt þarf ekki að útiloka annað. Þannig er hægt að stunda hugleiðslu og hvers kyns andlega næringu án þess að það gangi að nokkru leiti á móti kristinni trú. Jesús talar um að Guð muni endurnýja allt. Allt fæðist að nýju og mannssonurinn situr í hásæti sínu. Kærleikurinn sem Guð gefur okkur í vöggugjöf er máttug gjöf, gjöf sem gefur okkur vilja til að fyrirgefa, gefur okkur vilja til að sinna meðbræðrum okkar. Vera góð við okkur sjálf og annað fólk.

Við sem lifum nýju lífi með Jesú, upplifum gjarnan að Guð sé með okkur í öllum kringumstæðum lífsins. Hann leiðbeinir okkur, fylgir okkur eftir, tekur við því sem við ráðum ekki við og kennir okkur leiðina sem við viljum fara í lífinu.

Spurning Péturs ,,Whats in it for me’’ er mannleg. Hvað fæ ég út úr því sem ég veðja á í lífinu. Er þetta kannski þannig að það sem ég fæ sé í réttu hlutfalli við það sem ég gef? Þannig virkum við mannfólkið, þannig virkar veröldin sem við þekkjum.

Jesús kennir okkur að það sé til annar raunveruleiki. Raunveruleiki sem verður til innra með okkur og er skapaður af Guði. Ekki einhvers staðar langt í burtu heldur hér og nú, í hversdeginum þegar við lifum í þeirri trú að Guð bæði geti, vilji og muni skapa eitthvað nýtt í okkur..

Séra Fritz Már Jörgensson

Lofgjörðarlag vikunnar er með hljómsveitinni New Boys og heitir : Born again. https://www.youtube.com/watch?v=VHcCBtIcxhQ&feature=share&fbclid=IwAR0uhP77SyQ02x898oR9xGHxveEMX-ILKBSzaG07sBGnYaNZ9GXfaZzDNAY

Orð prédikarans, sonar Davíðs, konungs í Jerúsalem.
Aumasti hégómi, segir prédikarinn,
aumasti hégómi, allt er hégómi.
Hvaða gagn hefur maðurinn af öllu erfiði sínu
sem hann streitist við undir sólinni?
Ein kynslóð fer, önnur kemur
en jörðin stendur að eilífu.
Og sólin rennur upp og sólin gengur undir
og hraðar sér aftur til samastaðar síns
þar sem hún rennur upp.
Vindurinn gengur til suðurs
og snýr sér til norðurs,
hann snýr sér og snýr sér
og hringsnýst á nýjan leik.
Allar ár renna í sjóinn
en sjórinn fyllist ekki.
Þangað sem árnar renna
munu þær ávallt renna.
Allt er sístritandi,
enginn maður fær því með orðum lýst,
augað verður aldrei satt af að sjá
og eyrað verður aldrei mett af að heyra.
Það sem hefur verið mun verða
og það sem gerst hefur mun enn gerast
og ekkert er nýtt undir sólinni.
Sé nokkuð til er um verði sagt:
Þetta er nýtt,
þá hefur það orðið fyrir löngu,
fyrir okkar tíma.

En það sem var mér ávinningur met ég nú vera tjón sakir Krists. Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp til þess að ég geti áunnið Krist og reynst vera í honum, ekki sakir eigin réttlætis, sem fæst af hlýðni við lögmálið, heldur sakir þess sem trúin á Krist gefur, réttlætið frá Guði með trúnni. – Ég vil þekkja Krist og kraft upprisu hans, ég vil þjást með honum og líkjast honum í dauða hans. Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum. Ekki er svo að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn. En ég keppi eftir því ef ég skyldi geta höndlað það, með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú. Systkin, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það. En eitt geri ég. Ég gleymi því sem að baki er en seilist eftir því sem fram undan er og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur í Kristi kallað okkur til.

Þá sagði Pétur við hann: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum við hljóta?“
Jesús sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur: Þegar Guð hefur endurnýjað allt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu munuð þið, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá allt hundraðfalt aftur og öðlast eilíft líf. En margir hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.“