Prédikun í Dómkirkjunni 11. febrúar 2018, sunnudag í föstuinngangi.
L: Jes 52.13-15       P: 1Pét 3 18-22      G: Matt 3.13-17

Lát mig sjá og sýna kunna
sælt og ljúft sé þér að unna,
með þér líða, með þér trega,
með þér fagna eilíflega. (Sigurbjörn Einarsson)
Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í guðspjallinu lesum við frásögn Mattheusar af skírn Jesú. Hún hefur valdið kristnu fólki heilabrotum í gegnum aldirnar. Eins og orð Jóhannesar gáfu til kynna þá var þetta ekki það sem við mátti búast. „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“ sagði Jóhannes. Já, þetta kom honum á óvart. Jóhannes hvatti fólk til að snúa sér til Guðs, iðrast synda sinna og skírast til merkis um nýtt upphaf, þáttaskil og hreingerningu hins innri manns. Í augum Jóhannesar var Jesús lýtalaust lamb Guðs komið til að bera syndir heimsins og friðþægja fyrir þær. Og hvers vegna skírðist þá Jesús skírn Jóhannesar? Við þessu er svo sem ekkert einhlítt svar og svar Jesú er líka torskilið: Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ segir hann. Jóhannes hlýddi honum enda þekkti hann Jesú sem herra sinn.

Líklegasta skýringin á skírn Jesú er sú að með henni hafi hann verið að ganga inn í kjör okkar mannanna. Við erum jú öll breysk og í þörf fyrir iðrun og afturhvarf. Jesús var að fullu Guð og því án syndar en um leið að fullu maður sem samsamaði sig breyskleika okkar og fráhvarfi frá Guði. Og samsamaði sig ekki bara brotnum veruleika okkar heldur tók hann á sig, gerði hann að sínum, bar hann og greiddi skuldir hans á krossinum. Í Jesú eigum við þess vegna aðgang að nýjum andlegum veruleika þar sem allt hið gamla er orðið að engu og við getum óhindrað nálgast Guð og þjónað honum.

En við megum líka velta fyrir okkur hvaða merkingu Jesús lagði sjálfur í skírn sína. Fyrir honum táknaði hún kaflaskil. Hún markar upphaf þjónustu hans og starfs meðal mannanna. Hann var um þrítugt og hafði fram að þessu eingöngu sinnt skyldum sínum við foreldra sína og yngri systkini og unnið fyrir sér sem smiður. Þögn guðspjallanna um Jósef faðir Jesú gæti bent til þess að Jósef hafi dáið þegar Jesús var á unglingsárum. Það myndi þá líka útskýra hve seint Jesús hóf prédikunarstarf sitt, eða þegar yngri systkini voru orðin stálpuð og gátu séð um sig sjálf.

Skírnin markar þáttaskil í lífi Jesú og í raun upphaf að nýju lífi í vissum skilningi. Upp frá því voru allir kraftar hans helgaðir því hlutverki sem Guð ætlaði honum. Og Guð staðfesti köllun hans við skírnina með úthellingu andans og máttugu orði sínu: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ Orðin kallast á við Davíðssálm númer tvö sem lýsir trú gyðinganna á komu Messíasar svo vel. Þar segir: „Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig.“ Orð Guðs við skírnina staðfestu að Jesús væri hinn smurði konungur Ísraels sem beðið hafði verið eftir um aldir og spámennirnir sögðu fyrir um. Síðari hluti orðanna vísa beint í þjónsljóð Jesaja sem lýsa einmitt örlögum hins smurða konungs eða þjóns Guðs eins og hann er nefndur. Þar segir (Jes 42.1-4):

„Sjá þjón minn sem ég styð,
minn útvalda sem ég hef velþóknun á.
Ég legg anda minn yfir hann,
hann mun færa þjóðunum réttlæti.“

Í lexíunni lesum við svo framhald þjónsljóðanna sem lýsa krossfestingu Jesú og staðfesta að dauði hans var uppgjör Guðs við syndina í heiminum og tilboð hans til okkar um réttlætingu af trú. Boðskapur sem sannarlega hefur og heldur áfram að vekja undrun þjóða og þjóðhöfðingja eins og Jesaja sagði fyrir um.

Í skírninni fékk Jesús staðfest að hann væri sannarlega hinn smurði konungur og að vegurinn sem honum væri ætlað að ganga væri vegur krossins sem myndi enda á blóðugri Golgatahæð. Hann vissi að hann var útvalinn til þessa að vera konungur en um leið að hásæti hans yrði að vera krosstréð. Hann vissi að honum væri ætlað að sigra alla óvini Guðs en að sigurinn yrði aðeins unnin með vopni hins líðandi kærleika.

Já, skírn Jesú var þrungin merkingu en hvað með þína eigin skírn. Hvaða merkingu hefur hún fyrir þér? Ef til vill tengir þú hana nafngjöf þinni og inngöngu í kirkjuna. Líklega veistu líka að hún staðfestir að þú sért barn Guðs og hafir verið ættleiddur eða ættleidd inn í fjölskyldu Guðs. En merkir skírn þín nýtt upphaf, greftrun og upprisu, iðrun og afturhvarf, úthellingu heilags anda yfir líf þitt og kall til þjónustu í Guðs ríki?

Hugsaðu um það. Því það merkir skírnin í raun og veru. Og ekki örvænta ef þér finnst það vanta. Það ónýtir ekki skírn þína, ekkert getur eyðilegt hana. Hún er fullkomið verk Guðs og fyrirheit skírnarinnar standa óhögguð. Okkar er að trúa á mátt hennar og lifa í henni. Því líf kristins manns er ekkert annað en dagleg skírn, sem einu sinni hefst en stendur yfir alla ævi, eins og Lúther komst að orði. Hverjum degi er því ætlað að vera nýtt upphaf, á hverjum degi eigum við að berjumst við að deyða gamla eðlið okkar og lifa því nýja, með því að iðrast. Og á hverjum degi megum við þiggja úthellingu andans og finna Guð kalla okkur og efla til þjónustu við sig og náungann.

12. febrúar 1891 uppgötvaði rúmlega tvítugur maður að nafni Friðrik Friðriksson þennan veruleika sem skírnin boðar. Hann hafði glímt við algjört vonleysi og ástarsorg um tíma og hafði ákveðið að stytta sér aldur. Hann þóttist leggja af stað í ferð til Færeyja 4. febrúar en ætlaði að henda sér fyrir borð og láta líta út fyrir að um slys hefði verið að ræða. En þegar á hólminn var komið leitaði til hans eldri maður sem ferðaðist með sama skipi og var honum mikið niðri fyrir. Það kom á daginn að hann hafði framið skelfilegan glæp og var á flótta frá Íslandi. Hann þjáðist í samvisku sinni og efaðist um að Guð gæti fyrirgefið honum. Friðrik hughreysti manninn og fullyrti að Guð myndi fyrirgefa mönnum allt leituðu þeir þess. Það eina sem væri ófyrirgefanlegt væri þegar maður forherti sig geng betri vitund og stæði iðrunarlaust gegn Guði. Um leið og Friðrik sagði þetta var sem eldingu lysti niður í sál hans. Hann sá að hann sjálfur væri í þessari iðrunarlausu stöðu þrátt fyrir að vita betur. Hann upplifði þetta sem handleiðslu Guðs og hætti samstundis við að svipta sig lífi.

Nokkrum dögum seinna, þann 12. febrúar, kom hann til Þórshafnar peningalaus enda hafði hann ekki gert ráð fyrir að vera á lífi. Hann þekkti aðeins einn mann í Þórshöfn og sá var prédikari. Það vildi til að þetta kvöld var kristileg samkoma Baptista í Þórshöfn og slóst Friðrik glaður í för með kunningja sínum. Fyrsti sálmurinn Ó, þá náð að eiga Jesú hljómaði og fann Friðrik Guð tala til sín í gengum sálminn. Það gerðu líka ritningarlestrar og prédikunin. Skilaboðin voru um algjöra náð Guðs og fyrirgefningu. Þetta kvöld markaði þáttaskil í lífi Friðriks, nýtt upphaf. Hann heyrði og meðtók náðarboðskapinn og uppfrá því lagði hann sig eftir því að lifa í ljósi hans. Líf hans tók nýja stefnu og einkenndist af ástríðu, gleði og þjónustu við Guð. Í maí á þessu ári verða 150 ár liðin frá fæðingu sr. Friðriks og af því tilefni er rétt að minnast alls þess mikla og góða sem hann kom til leiðar. Sumt af því góða starfi hófst hér á kirkjuloftinu. Ég trúi því að drifkrafturinn að baki ævistarfi hans hafi verið fenginn úr þessari reynslu úr Færeyjarferðinni þegar hann upplifði handleiðslu Guðs og meðtók boðskapinn um náð Guðs. Þar kviknaði löngun hans til að þjóna Guði og leyfa honum að nota sig.

Skírnin boðar okkur þennan sama náðarboðskap og í honum er okkur ætlað að lifa. Hann vekur með okkur löngun til að þjóna Guði og náunganum. Guð þráir að fá nota þig og gefa þér gleði og tilgang í þjónustu við sig og náungann. Slík þjónusta tekur á sig margar myndir en mótast af lönguninni að heiðra Guð með verkum og hæfileikum sínum. Megi Guð leyfa þér að lifa í skírnarnáðinni daglega, upplifa handleiðslu sína og leyfa þér að þjóna sér í leik og starfi svo að þú og þau sem í kringum þig eru mættu finna í Guði uppsprettu lífsins.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.

Sr. Ólafur Jón Magnússon

Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða,
hann mun verða mikill og veglegur og hátt upp hafinn.
Eins og marga hryllti við honum,
svo afskræmdur var hann ásýndum
að vart var á honum mannsmynd,
eins mun hann vekja undrun margra þjóða
og konungar munu verða orðlausir frammi fyrir honum
því að þeir munu sjá það sem enginn hefur sagt þeim
og verða þess áskynja sem þeir hafa aldrei heyrt.

Kristur dó fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur fyrir rangláta, til þess að geta leitt ykkur til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til en lifandi ger í anda. Þannig steig hann niður til andanna í varðhaldi og prédikaði fyrir þeim. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, á dögum Nóa, þegar Guð sýndi biðlund og beið meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar – það er átta – sálir í vatni. Þetta er fyrirmyndan skírnarinnar sem nú frelsar ykkur. Hún er ekki hreinsun óhreininda á líkamanum heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists sem steig upp til himna, situr Guði á hægri hönd, og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.

Þá kom Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“
Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum.
En þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“