Guðspjall: Matt.11.25nn
Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.
Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.

Ég las þennan snúna texta í kirkju um daginn þar sem Jesús segir: Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.

Það kom mér skemmtilega á óvart að átta mig á því enn á ný, að Jesús talar þarna um að við ættum að taka á okkur ok hans en ekki öfugt. Fyrir okkur flest þá merkir orðið ok eitthvað sem er frekar þungt að bera og því kær komið að varpa því á einhvern annan, sér í lagi sé maður erfiði og þunga hlaðinn. Og ég tala nú ekki um þá hvíld sem fæst við að losna undan hlassi.

En töfraorðið í þessum texta er orðið ok. Og hvert er ok Jesú? Töfrar þessa litla orðs eru huldir spekingum og hyggindamönnum en opinberað smælingjum. Töfrar þessa litla orðs veita sálinni hvíld. Töfrar þessa litla orðs gjörir hvern mann að öðru vísi manni.

Eitt lítið töfraorð um það sem gjörbreytir öllu. Annað afl tekur völdin í sálinni okkar, hugur okkar verður annar, skapið annað og raddblærinn sömuleiðis.

Tilveran raðast upp með öðrum hætti og það má með réttu nefna það laug endurfæðingarinnar.

Að fæðast tilveru í þeirri merkingu sem gömul íslensk bæn biður: Drottinn minn og Guð minn. Kenndu mér að lifa eftir þínum vilja, því að þú ert minn Guð. Láttu þinn góða anda leiða mig um réttan veg til eilífs lífs.

Hógværð er annað orð yfir þessa tilveru. Annað orð er að vera af hjarta lítillátur.

Þetta er hæg þróun, hæg breyting vegna þess að allt sem var í manni áður, er þar eftir sem áður en rýmið annað sem lifað er í.

En þegar nýja lífið er hafið, nýtt eðli tekið við og vill hið góða, finnur viðkomandi betur fyrir því en nokkru sinni fyrr að hann burðast enn með gamla eðlið. Og það er svo erfitt að gera það góða. En það er o.k. því með oki Jesú byrjar maður að lifa lífi himnins á jörðu og æfast í því, allt til þess að himininn, heimur kærleikans eða valdsviðs Guðs verður okkur ekki lengur fjarlægur og framandi heldur beinlínis í okkur sjálfum.

Sr. Axel Á. Njarðvík

Hvað á ég að koma með fram fyrir Drottin,
fram fyrir Guð á hæðum?
Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir,
með veturgamla kálfa?
Hefur Drottinn þóknun á þúsundum hrúta
og tugþúsundum lækja af ólífuolíu?
Á ég að fórna frumburði mínum fyrir synd mína,
ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar?
Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er
og hvers Drottinn væntir af þér:
þess eins að þú gerir rétt,
ástundir kærleika
og þjónir Guði í hógværð.

Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Bjóð þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf.

Einn úr mannfjöldanum sagði við Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“
Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“
Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.
En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“