Treyst Drottni og ger gott,
þá muntu óhultur búa í landinu.
Njót gleði í Drottni,
þá veitir hann þér það sem hjarta þitt þráir.

Fel Drottni vegu þína og treyst honum,
hann mun vel fyrir sjá. (Sálmarnir 37. 3-5)

 

Þessi orð úr Sálmunum eru skrifuð fyrir þau sem áhyggjur þjaka, fyrir þau sem finna fyrir kvíða og fyrir þau sem þurfa að finna veg Guðs á ný. Þessi orð geta veita leiðsögn en þau geta einnig gleymst auðveldlega. Þessi orð geta umbreytt lífi einstaklinga með einum lestri en það er einnig hægt að lesa þau hundrað sinnum án þess að þau hafi nokkur áhrif. Munurinn felst í því hvort við leyfum orðunum að lifna við innra með okkur.

 

Í Hebrabréfinu 4. kafla segir: ,,orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar“. Orð Guðs er að finna í Biblíunni. Skoðaðu orðin hér að ofan, úr Sálmi 37 og taktu út nokkur orð, eins og til dæmis: ,,Treyst Drottni“, ,,ger gott“, ,,njót gleði í Drottni“ og ,,fel Drottni vegu þína og treyst honum“. Hvað þýðir þetta eiginlega? Hvernig getur þetta orð lifnað við innra með mér? Hvernig getur þetta hjálpað mér í mínum aðstæðum?

 

Leyndardómurinn felst í framkvæmdinni. Lifðu orði Guðs! ,,Treystu Drottni“ felur í sér framkvæmd. Öll getum við beðið til Guðs. Oftast biðjum við um eitthvað sem okkur skortir eða um eitthvað sem við höfum ekki stjórn á. Biddu um Guðs vilja yfir þínar aðstæður, mundu bænina og treystu Guði fyrir bænaefninu. Guð svarar bænum samkvæmt vilja sínum.
,,Ger gott“ felur í sér framkvæmd. Gerðu eitthvað sem þú veist að er gott að gera. Hjálpaðu einhverjum í kringum sig sem þarfnast hjálpar, hringdu í einhvern sem þú veist að er einmanna, farðu út að plokka. Gerðu eitthvað sem þú veist að er gott fyrir þig og annað fólk.
,,Njót gleði í Drottni“ felur í sér framkvæmd. Skrifaðu niður eða hugsaðu um allt það sem þú átt eða hefur í lífinu sem þú ert þakklát/ur fyrir. Það er svo ótal margt sem við eigum eða búum yfir nú þegar, sem Guð hefur gefið okkur, ástundum þakklæti fyrir það mikla eða litla sem við þó höfum og Guð mun veita okkur það sem við þráum.
,,Fel Drottni vegu þína og treyst honum“ felur í sér framkvæmd. Gefðu Guði allt, allar áhyggjur, kvíða og vilja þinn og settu traust þitt á Guð. Í hvert skipti sem þú áttar þig á því að þú ert tekin við stjórninni segðu þá: ,,Guð ég gef þér allt, verði þinn vilji“. Við getum treyst því að þegar við felum líf okkar og vilja í hendur Guðs þá mun Guð gefa okkur það sem er í Guðs vilja.

 

Orði Guðs er gjarnan líkt við sáðkorni, litlu fræji, sem mun bera mikinn ávöxt. Þegar við ástundum lestur á Guðs orði, á þann hátt sem lýst er hér að ofan, þegar við leyfum orðinu að lifna við innra með okkur, þá erum við að plægja akurinn og sá fræjum í frjósama jörð. Orðið mun svo vaxa og lifa sjálfstæðu lífi, bera ávöxt en einnig skapa ný fræ, sem feykjast með vindinum og skjóta rótum í fólkinu í kringum okkur og þannig lifir orð Guðs að eilífu.

Séra Benjamín Hrafn Böðvarsson

Lifgjörðarlag vikunnar er Surrender með Hillsong: https://www.youtube.com/watch?v=s7jXASBWwwI

Síðar mun ég úthella anda mínum yfir alla menn.
Synir yðar og dætur munu spá,
gamalmenni yðar mun dreyma drauma
og ungmenni yðar munu fá vitranir,
jafnvel yfir þræla og ambáttir
mun ég úthella anda mínum á þeim dögum.
Og tákn mun ég láta verða á himni og jörð:
blóð, eld og reykjarstróka.
Sólin verður myrk
og tunglið sem blóð
áður en dagur Drottins kemur, hinn mikli og ógurlegi.
En hver sem ákallar nafn Drottins
verður hólpinn.
Á Síonarfjalli og í Jerúsalem
munu nokkrir lifa af
eins og Drottinn hefur heitið.
Hver sem ákallar nafn Drottins
mun frelsast.

Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.

(Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“)

Jesús svaraði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum. Sá sem elskar mig ekki varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt heldur föðurins sem sendi mig.
Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Þér heyrðuð að ég sagði við yður: Ég fer burt og kem til yðar. Ef þér elskuðuð mig yrðuð þér glöð af því að ég fer til föðurins því faðirinn er mér meiri. Nú hef ég sagt yður það áður en það verður svo að þér trúið þegar það gerist. Ég mun ekki framar tala margt við yður því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekkert. En heimurinn á að sjá að ég elska föðurinn og geri eins og faðirinn hefur boðið mér.