Pabbi leggur bílnum fyrir framan búðina, hann er bæði þreyttur og pirraður. Dagurinn hefur verið honum erfiður. Systkinin sem sitja þögul afturí bíða róleg eftir næstu skrefum. Miðaldra kona úr hverfinu gengur framhjá bílnum og pabbi lítur á mömmu sem situr í farþegasæti bílsins. Það má greina hæðni í rödd hans þegar hann segir: „Hvað er að sjá þetta, hvers lags útgangur er þetta, gleymdi konan að greiða sér? Ætli hún versli öll sín föt í Hagkaup? Og hver gengur í svona skóm?“

Systkinin líta strax á konuna sem þau kannast við, enda mamma skólasystur þeirra og þau byrja að vega og meta konuna en á sama tíma rýna þau í sjálf sig, skoða eigin föt, skó og hár. Við þetta litla atvik verður til einhvers konar mælistika innra með þeim sem er ekki bara notuð á aðra. Mælistika sem getur orðið að stífum ramma sem sviptir fólk frelsi og skapar bæði óöryggi og minnimáttarkennd. Minnimáttarkenndin ýtir síðar undir þörfina að setja aðra niður til þess að lyfta sér upp.

Orðin skipta máli.

Ég sá myndband þar sem ung stúlka segir sögu sína á samfélagsmiðlum eftir að hafa reynt að taka eigið líf. Stúlkan lýsir vanlíðan sinni, höfnunarkennd og þeirri tilfinningu að vera utanveltu. Þessi unga kona hafði nokkrar sjúkdómsgreiningar og hafði orðið fyrir einelti í skóla. Hún lýsti erfiðum átökum og samfélagi sem hefur brugðist henni. Þetta er átakanleg saga sem allt of margir þekkja með einhverjum hætti enda hefur myndbandinu verið deilt yfir 700 sinnum á örskömmum tíma hér á Íslandi.
Stúlkan sjálf er vel gerð, greind og setur sögu sína fallega fram. Ung kona sem ætti að eiga alla von til þess að eiga gott og fallegt líf.

Þessi unga stúlka er barn Guðs, hún er hluti af okkar samfélagi, náungi okkar.
Ég fyllist sorg og gríðarlegum vanmætti þegar ég vitna svona vanlíðan.

Mér varð hugsað til þess þegar Jesús, fyrirmynd okkar gekk um hér á jörðu sem maður, þá kunnu ekki allir að meta hann, margir fyrirlitu hann, hæddu hann, hræktu á hann og gerðu lítið úr honum.

Af hverju gerum við mannfólkið þetta? Hvernig getum við verið svona köld gagnvart hvert öðru?

Þegar við heyrum sögur sem þessa, um stúlkuna sem í raun segist bíða þess að taka eigið líf, þá kviknar hjá okkur flestum löngun til þess að gera eitthvað. Löngun til þess að hjálpa. Löngun til þess að skapa öruggt umhverfi þar sem öllum getur liðið vel. Við erum nefnilega flest þannig gerð að við megum ekkert aumt sjá, við finnum til með öðrum og við viljum langflest vera góð og hlý við aðra.

Við eigum það sameiginlegt að vera mannleg. Mannveran er samspil margra þátta, líkamlegra, tilfinningalegra, félagslegra og andlegra sem mynda eina heild. Með það í huga er auðvelt að sjá að allar manneskjur eru jafnar. Guð skapaði manninn í sinni mynd, hann skapaði þau karl og konu (1Mós 1.27). Hver einstaklingur er manneskja sem þarf ekki að vera flokkuð neitt frekar – Guð horfir til okkar allra með óskilyrtum kærleik, hann elskar okkur hvert og eitt og fer ekki í manngreinarálit. Jesús tók þátt í hinu daglega lífi, hann settist niður með fólki, borðaði með því og fyrst og fremst kom fram eins og jafningi og vinur eða þjónn. Hann setti sig aldrei ofar eða neðar en aðrar manneskjur. Þetta sýndi hann margoft í verkum sínum m.a. þegar hann þvoði fætur lærisveinanna.

Hann sem var Guð valdi að vera hvorki ofurmannlegur eða ómannlegur heldur einfaldlega mannlegur. Í því er von og sterk fyrirmynd.

Hvaða fyrirmynd ert þú?
Kannski er það svarið við lönguninni sem kviknar þegar við vitnum óréttlæti, þegar við finnum til með öðrum og þegar við viljum láta gott af okkur leiða.
Dæmum við eða metum sköpun Guðs, elskum við Guð með því að elska sköpun hans?

Rýnum í það þegar við heyrum okkur setja aðra niður, þegar við setjum út á fólk eða dæmum það, þá getum við staldrað við og skoðað viðhorf okkar. Skoðað hvað það er sem þarfnast endurmats.

Ef við viljum þá getum við tileinkað okkur orðanotkun og viðbrögð sem einkennast af jafnréttisviðhorfi. Þannig að það heyrist vel á máli okkar og sjáist í verkum okkar að við viðurkennum alla jafnt. Af gnægð hjartans mælir munnurinn og orðin munu endurspegla viðhorfin.

Það að gangast við sér og slípa sig til er hluti af því að þroskast í kristilegu hugarfari og í því að heiðra æðsta boðorðið. Elska skalt þú Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og elska skalt þú náungann eins og sjálfa þig.

Díana Ósk Óskarsdóttir, sjúkrahúsprestur.

Maður, af konu fæddur,
lifir fáa ævidaga, fulla af eirðarleysi.
Hann vex eins og blóm og visnar,
hverfur sem hvikull skuggi.
Samt hefurðu á honum vakandi auga
og kallar hann fyrir dóm þinn.
Hver getur leitt hreint af óhreinu?
Ekki nokkur maður.
Hafi ævidagar hans verið ákvarðaðir
og tala mánaða hans ákveðin af þér,
hafirðu sett honum mörk sem hann kemst ekki yfir,
líttu þá af honum svo að hann fái hvíld
og geti glaðst yfir degi sínum eins og daglaunamaður.

En þetta eitt má ykkur ekki gleymast, þið elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við ykkur þar eð hann vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar.
En dagur Drottins mun koma sem þjófur og þá munu himnarnir líða undir lok með miklum gný, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. En eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins og þeir sem heyra munu lifa. Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm því að hann er Mannssonur.