„Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“ (Jóh 8:51)

Það er ekki að ástæðulausu að við erum minnt á þessi orð nú þegar líður að páskum. Páskarnir eru til marks um upphaf, upphaf sem ekki gat orðið nema fyrir endalok. Dauða. Og á meðan á þeim dauða stóð var ekkert að halda sér í nema orðin. Við segjum stundum „orðin tóm“. Þó eru þau sjaldnast tóm. Orðin eiga það þó til að vefjast fyrir okkur. Vegna hins meinta tóms. Hamlet danaprins segir einmitt, þegar hann hefur fengið nóg af þruglinu í Pólóníusi: „Orð, orð, orð“ (Hamlet II.ii). Hann á við að yfirdrifið sé talað án þess að neitt sé sagt.

Samt hefur þetta orð, ORÐ, á sér einhvern sérstakan blæ. Það er stutt en það er djúpt. Við getum vel lesið heil ósköp í þeirri viðleitni að finna hvað veldur – orðin gefa okkur líklega ótal mörg, orðmörg, svör.

En skýringin er nærtækari en við höldum, dulúð orðanna liggur í því að orðin mynda málið sem við notum – eða málið orð. Málið er guðlegt. Orðin eru því ekki „aðeins“ Orðið (logos) heldur eru orðin öll, málið allt, háheilög sköpun Guðs.

Þýski heimspekingurinn Walter Benjamin bendir okkur á að sjálfur stofn málsins sé guðlegur og vegna þess að hann er guðlegur þá náum við ekki að draga í sundur það sem er mállegt frá því sem er eðlislægt. Við hrærumst í tungumálinu, erum í stöðugri samræðu við það. Við búum yfir máli, það er partur sköpunarinnar sem við fljótum í, náttúrunni. Því er miðlun málsins flæði í gegnum náttúruna frá Guði og niður úr.

En um leið og málið er partur sköpunarinnar er það þegið frá Guði – það er hluti þess grundvallar sem sköpunarsagan er. Benjamin segir: „Sköpun Guðs fullkomnast við það að hlutirnir fá nafn sitt frá manninum, sem málið eitt talar úr: í nafninu.“[1] En ekki bara nafnið, sem þó er í raun grunnkall mannsins til lífs, heldur er málið sem nafnið er talað úr samfélag sem lítur til sköpunarinnar sem síns upphafs: „Hið óviðjafnanlega við mál mannsins er að dulmagnað samfélag þess með hlutum er óefnislegt og eingöngu andlegt og hljóðið er tákn fyrir það. Þessa táknrænu staðreynd nefnir Biblían þar sem hún segir að Guð hafi blásið í manninn lífsanda: það er lífi, anda og máli.“[2]

Benjamin greinir hrynjanda í sköpunarsögunni og segir hana liggja í „Verði – Guð gerði (skapaði) – Guð nefndi.“[3] Hann tiltekur ritningarstaðina 1. Mós 1:3 og 1:14 og leggur út af því í túlkun sinni að þar sé aðeins sagt „Verði“ og svo heldur hann áfram: „Í þessu „Verði“ og í „Guð nefndi“ í upphafi og enda sköpunarverkanna birtist hverju sinni hin djúpa greinilega tenging sköpunarinnar við málið.“[4] Þannig er það málið sem er skapandi og það að nefna í/með málinu fullkomnar það – bæði málið og sköpunina. Orðið sem tók á sig mynd, hið skapandi orð fullkomnar samspil þekkingarinnar sem býr með Guði (hann einn getur skapað) og þess sem nefnt er.

Þá tekur Benjamin til við vers 1:27 en þar segir í byrjun „Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd“.[5] Réttilega bendir nú Benjamin á það að Guð skapi manninn ekki úr orðinu né nefni hann manninn. Guð tekur nú upp annað verklag því hann vill ekki láta manninn lúta málinu, segir Benjamin og fyrir því er gild ástæða:

Hann vildi ekki láta hann lúta málinu heldur lét Guð málið, sem hafði nýst honum sem miðill við sköpunarverkið, af hendi í manninum. Guð hvíldist þegar hann lét sköpunarmáttinn um sig sjálfan í manninum. Þessi sköpunarmáttur, laus við guðlegan veruleika hans, varð að þekkingu. Maðurinn er sá sem þekkir sama málið og Guð skapaði með. Guð skapaði hann eftir sinni mynd, hann skapaði þann sem þekkir eftir mynd þess sem skapar. Þess vegna er þörf á að skýra fullyrðinguna: andleg eðlisvera mannsins er málið. Andleg eðlisvera hans er málið sem notað var til sköpunarinnar. Sköpunin var í orðinu og málleg eðlisvera Guðs er orðið.[6]

Þetta er trúfræðilega mjög mikilvægur staður í skilningi Benjamins á Guði sínum – og málskilningi Benjamins. Eftir það sem hér er lýst tekur maðurinn við af Guði. Í næsta versi sem Benjamin vitnar til 1. Mós 2:20 er sú staða orðin uppi að maðurinn er farinn að brúka hið fyrrum guðlega verkfæri og nefna, þar segir: „Og maðurinn gaf nafn öllum fénaðinum og fuglum loftsins og öllum dýrum merkurinnar.“[7] M.ö.o. maðurinn hefur öðlast áður óþekkt vald, valdið sem, samkvæmt Benjamin, Guð færði honum með málinu.

Hafandi skoðað þetta,  komist að því að málið, orðin, eru guðs gjöf, þá er enn meiri ástæða til þess að íhuga orð Jesú Krists, því ef okkar orð megna einhvers og eru sem þau eru? Hvað eru þá orðin Hans? Orðið?

„Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“ (Jóh 8:51).

Guðmundur S. Brynjólfsson, djákni.

 

[1] Walter Benjamin. „Um mál almennt og um mál mannsins“ í Fagurfræði og miðlun: Úrval greina og bókakafla, aðalþýðandi Benedikt Hjartarson. þýð. Böðvar Yngvi Jakobsson og Guðrún Kvaran. Bókmenntafræðistöfnun Háskóla Íslands 2008, bls. 158.

[2] „Um mál almennt og um mál mannsins“ bls. 161.

[3] „Um mál almennt og um mál mannsins“ bls. 162.

[4] „Um mál almennt og um mál mannsins“ bls. 162

[5] Biblían, 1. Mós 1:27a.

[6] „Um mál almennt og um mál mannsins“ bls. 163.

[7] Biblían, 1. Mós 2:20a.

Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Engli safnaðarins í Smyrnu skaltu rita: Þetta segir sá fyrsti og síðasti, sá sem dó og varð aftur lifandi: Ég þekki þrengingu þína og fátækt – en þú ert samt auðugur. Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim sem segja sjálfa sig vera Gyðinga en eru það ekki heldur samkunda Satans. Kvíð þú ekki því sem þú átt að líða. Djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi til þess að reyna yður og þér munuð þola þrengingu í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða og ég mun gefa þér kórónu lífsins. Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun sá annar dauði ekki granda.

Jesús svaraði: „Ef Guð væri faðir yðar munduð þér elska mig því að frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki hef ég sent mig sjálfur. Það er hann sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir. En af því að ég segi sannleikann trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“ Þeir svöruðu honum: „Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért Samverji og hafir illan anda?“ Jesús ansaði: „Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn en þér smánið mig. Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“