Í liðinni viku var sumardagurinn fyrsti. Víst er að við óskuðum flest hvert öðru gleðilegs sumars í björtum tón á þeim góða degi. Við vitum á sama tíma vel að þrátt fyrir að komið sé sumar þá finnst okkur ekki öllum eins og sumarið sé að fullu komið. Veðrið getur verið ýmiss konar á sumardaginn fyrsta og dagana sem á eftir fylgja. En þrátt fyrir veðrabrigðin þá heilsum við samt hvert öðru á þennan hátt, með sól í sinni, og tölum um gleðilegt sumar. Þetta gerum við því við vitum að þegar sumardagurinn fyrsti er kominn þá er hann á táknrænan hátt vitni og varða þess að sumarið er komið. Sumarið hefur hafið sína fullu innreið. Sumardagurinn fyrsti er vendipunktur, og bautasteinn á þeirri vegferð að allt verður grænt og allt mun blómstra á ný.

Sumpart þá er það svipað því lögmáli sem gildir í trúarlífi okkar. Nú eru páskar nýliðnir og við vitum og þekkjum að Guð vann sinn sigur í Kristi á páskadag. Hans sumar er komið. Það er komið til okkar, til mín og til þín. Á sama tíma höfum stundum við þá tilfinningu að sumarið sé ekki að fullu komið í öllum hjartafylgsnum okkar né í öllum heiminum. Okkur líður stundum eins og guðsríki sé ekki að fullu þanið út.

En engu að síður er það svo að páskadagur, alveg eins og sumardagurinn fyrsti, segir okkur: „Sumarið er komið.“ Og það er okkar ef við viljum bara treysta því.

Í Matteusarguðspjalli, 15. kafla er að finna áhugaverðu sögu af því þegar kanversk verður á vegi Jesú og biður hann að lækna dóttur sína. En Jesús hafnar því í fyrstu og segir að það sem hann komi með sé ekki fyrir hana. Hann sé fyrst og fremst kominn til týndra sauða af Ísraelsætt. Það áhugaverða er að kanverska konan gefst ekki upp. Hún heldur áfram að biðja Jesú. Hún trúir því statt og staðfastlega orðinu sem hún hefur heyrt um Jesú, að hann geti og muni hjálpa henni. Það merkilega gerist síðan að í lok þeirrar frásögu að allt í einu snýst allt spilið við. Jesús gefur ekki lengur í skyn að fyrirheitið sé ekki fyrir hana. Hún verður, þvert á móti, fyrirmynd allra trúaðra þegar Jesús segir við hana „mikil er trú þín“ og verður að beiðni hennar. Á margan hátt getur kanskverska konan verið fyrirmynd okkar um það hvernig beri að halda í fyrirheitið um hið eilífa sumar. Hún verður okkur fyrirmynd um það hvernig við, í glímu okkar við sjálf okkur og Guð, eigum aldrei að sleppa tökunum á fyrirheitinu heldur treysta því. Alveg eins og við treystum því í kjölfar sumardagsins fyrsta að sumarið er komið, sama hvað öllum veðurbrigðum líður.

Marteinn Lúther, sá sem okkar kirkja er stundum nefnd eftir, lagði mikla áherslu á þetta atriði trúarinnar. Að okkar trúarlíf þarf að vera með þessu sama móti, að við treystum Guði og lítum svo á að Jesús er maður orða sinna. Og þannig getum við tekið á móti orði hans í trausti og gróðursett það innra með okkur.

Að því marki sem við gerum það, að því marki raungerist sumarið hans innra með okkur og hans ríki nær um allt, innra með okkur og utan okkar, um síðir. Það er fyrirheitið. Og því getum við treyst á þessum fyrstu dögum sumars.

Séra Grétar Halldór Gunnarsson, prestur í Grafarvogssókn

Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi. Ég mun leiða þá burt frá þjóðunum, safna þeim saman úr löndunum og leiða þá heim til síns eigin lands. Ég mun halda þeim í haga á fjöllum Ísraels, í daladrögum og á hverju byggðu bóli í landinu. Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi, beitiland þeirra verður á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi á fjöllum Ísraels. Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er.

Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.

Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.

Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.