Öll önnur dýr eru hrædd við einhver önnur dýr. Lítil dýr eru hrædd við stór dýr og fela sig því jafnan vandlega eða bara reikna með því að þau séu að einhvrju leyti fæða stærri dýra og reyna að sætta sig við það. Ég hef séð flest stóru dýrin og af þeim finnst mér ljónið bera af hvað varðar hugrekki, en nér finnst fíllinn bera af í æðrueysinu. Hann siglir áfram um gresjunar og í skóginum eins og svartur klettur eða grár skuggi og lætur sig ekkert varða um það hvað önnur dýr eru að sýsla. Hann hræðist ekkert nema ljónin, en bara ef þau eru mörg. Ekki eitt ljón, heldur mörg. Ljónið aftur er svo hrokafullt því það hefur ekkert að óttast nema önnur ljón. Ég á minningu frá ferð um Maasaí Mara í Keníu. Ég fór þangað á sextugsafmælinu mínu og sá dýrin á sléttunni eftir rigningarnótt. Rétt eins og eftir Nóaflóðið. Stórir pollar voru á sléttunum og þarna voru þau á beit eða þá í leit að tækifærum: buffalar, gnýjir, margar tegundir af antílópum og blettatígrar og hýenur svo aðeins fáein séu talin. Við skröltum þarna á stórum og háværum jeppum en dýrin létu sig ekkert um það varða. Við festum auðvitað bílinn í mjúkri moldinni og ég óttaðist að núna myndu dýrin nýta tækifærið og halda smá mannakjötsveislu, en ekkert gerðist, fyrr en … leiðsögumaðurinn sté út úr bílnum og fór að athuga málið. Þá datt á dauðaþögn á gresjunni og mannýgir vatnabuffalarnir sem vega 800 kg reistu höfuðin og kúdú antílópurnar sem eru hálft tonn og hafa meir álnarlöng horn fram úr höfðinu. Hýenurnar sökktu sér í grasið svo aðeins sá í svört eyrun. Allir stjarfir og á vaktinni. Ógnvaldurinn mesti sem jafnvel fílar og ljón óttast eins og öll önnur dýr á jörðinni var mættur á sviðið. Maðurinn er sá sem öll önnur dýr óttast mest. Hann getur nefnilega drepið hvert þeirra sem er, það hefur reyslan kennt þeim. En hvaða dýr óttast maðurinn? Öll! Þetta er furðan. Mest óttast hann trúlega aðra menn. Ef hugsað er út í það þá hefur maðurinn ástæðu til að óttast flest dýr. Hann er í sjálfu sér ekkert sérlega öflugur og hann er viðkvæmur, illa varinn, hleypur í felur eða reynir að flýja. Með honum hefur því ræktast ótti við allt og alla. Hann er sífellt á verði og gerir sér hvaðeina að óttaefni. Hann hefur einnig lært það sem kallast forvirkar varnaraðgerðir, tortryggni. Strax og hann sér möguleika á því grípur hann til þeirra, öskrar og gerir sig breiðan. Hann reynir að mynda utanum sig varnarflokk til að gera möguleika sína meiri. Hann reynir að hafa menn fyrir sér í merkingunni að þeir taki skellinn. Og hann grípur til vopna. Jesús talar um að fullkomin elska reki út óttann og að við eigum að elska óvini okkar. Ef við brosum í umferðinni gengur allt betur, segja þeir hjá Umferðarstofu. Ef við mætum ógnandi manni með velvild er góður möguleiki á því að við getum leitt hann af. Ef við ætlum náunga okkar ekki allt hið versta þá eru mestar líkur á því að samkiptin verði góð. Að taka áhættu með elskunni er áskorun, vogun og vottur um hugrekki. Meira: http://tru.is/pistlar/2013/03/otti-elska Sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson

Ég hata, ég fyrirlít hátíðir yðar. Ég hef enga ánægju af samkomum yðar. Jafnvel þótt þér færið mér brennifórnir og kornfórnir lít ég ekki við þeim, né heldur matfórnum yðar af alikálfum. Burt með glamur sálma þinna sem aðeins er hávaði. Ég vil ekki heyra hörpuleik þinn. Réttvísi skal streyma fram sem vatn og réttlæti sem sírennandi lækur.

Verið þannig árvökul og stöðug í bæn fyrir öllum heilögum. Biðjið fyrir mér að mér verði gefin orð að mæla, þá er ég lýk upp munni mínum, til þess að ég kunngjöri með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins. Boðberi þess er ég í fjötrum mínum. Biðjið að ég geti flutt það með djörfung eins og mér ber að tala.

Þá tók Jesús að kenna þeim: „Mannssonurinn á margt að líða. Öldungarnir, æðstu prestarnir og fræðimennirnir munu útskúfa honum. Menn munu lífláta hann en hann mun upp rísa eftir þrjá daga.“ Þetta sagði Jesús berum orðum. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann. Jesús sneri sér við, leit til lærisveina sinna, ávítaði Pétur og sagði: „Vík frá mér, Satan, eigi hugsar þú um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Og Jesús kallaði til sín mannfjöldann ásamt lærisveinum sínum og sagði: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins mun bjarga því. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína? Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð föður síns með heilögum englum mun hann blygðast sín fyrir hvern þann sem blygðast sín fyrir mig hjá þessari ótrúu og syndugu kynslóð.“